Stjóri vs stýra Þegar ég var að fara að sofa í gærkveldi fór ég að spá í orðinu stýra, sem að sumir vilja taka upp í merkingunni kvenkyns stjóri.

Fyrir mér þá er stjóri ekkert endilega karlkyns. Ef að sagt er við mig “Bíddu augnablik, framkvæmdastjórinn kemur eftir smá stund”, þá hugsa ég ekki með mér “Hjúkk, karlinn kemur eftir smá stund”, það gæti allt eins verið kona. Kannski kann ég ekki íslensku.

Ef að við tökum orðið bílstjóri sem dæmi, þá er kona sem að er að keyra bíl þar af leiðandi bílstýra. Spáum aðeins í því, fyrir mér hafa orðin stjóri og stýra ekki sömu merkingu. Bílstjóri er einhver sem að er að stjórna bílnum, sem að hefur stjórn á bílnum. Bílstýra, er einhver sem er að stýra bílnum. Það að stjórna bíl og stýra bíl er alls ekki það sama. Hægt er að stýra bíl án þess að hafa stjórn á honum. Er ég þar af leiðandi ekki búinn að sanna það að konur eru verri bílstjórar (bílstýrur)?

Annars er þetta nú bara bjánalegur útúrsnúningur, eitthvað sem að sá sem er búinn að stúdera íslensku meira en ég á ekkert mál með að tæta í sig.

Er þetta kannski bara karlremba í mér?