Ég elska að rölta einn um í ótrúlega fagurri náttúru Íslands og láta hugan reika. Á einni af slíkum göngum mínum fór ég að velta fyrir mér af hverju það pirraði mig að sá ummerki mannanna á þessum náttúruperlum. Strax datt mér í hug að þetta væri einfaldlega vegna þess að maður sér ummerki mannsins daglega en náttúran er að verða einhver munaður sem maður hefur hvorki tíma né bolmagn til að sjá, ég tala nú ekki um fyrir bíllausan einstakling líkt og mig. Eitthvað fannst mér þetta samt léleg skýring og ekki nema smávægilegur þáttur. Því fór ég að hugsa um hvað það gæti verið við íslenskt samfélag sem gerði það að verkum að ég vildi helst ekki sjá það. Þá var ég ekki lengi að átta mig á því að mér einfaldlega býður við íslensku samfélagi. Ekki misskilja mig, ég geri mér fyllilega grein fyrir því að á heimsmælikvarða er íslenskt samfélag ofarlega í flestöllu sem máli skiptir en mér finnst það ekki vera jákvætt fyrir Íslendinga heldur neikvætt fyrir mannkynið í heild. Stærsta orsökin er ekki sú að við viljum ekki hafa það öðruvísi heldur sú að fólk er upp til hópa fávíst, eigingjarnt, tækifærissinnað og latt. Ég er heldur ekki að segja að ég sé nokkru skárri, ég er latt fífl líkt og þið hin, það virðist bara vera hið mannlega eðli. Hugmyndir um útópíur hafa oft komið, sem virðast vera raunhæfar en þær klikka alltaf á okkur. Við einfaldlega nennum ekki að leggja á okkur þá vinnu og fórn sem sköpun útópíu krefðist. Það er handan mannlegrar getu að búa til útópíu en þrátt fyrir þessa vankosti mannkynsins ætti að vera hægt að gera betur en við gerum nú, án þess að krefjast hugsunarbreytinga ætti að vera hægt að bæta samfélagið. En hvernig getum við betrumbætt þetta meingallaða samfélag okkar? Auðvitað getum við ekki svarað því með einhverju einföldu svari en við getum litið á hvað okkur finnst þurfa að laga og komið með físilegar hugmyndir um hvernig mætti laga það.

Þá er það spurningin hvað er að íslensku samfélagi og hvernig má reyna að lagfæra það?

Fyrst langar mig að nefna heilbrigðiskerfið. Lyfjakostnaður er alveg fáránlega hár. Eftir því sem ég best veit er íslenskt fyrirtæki að selja lyf sín bæði á Íslandi og í Danmörku og lyfin mun ódýrari þar, þar sem samkeppnin er minni hér og því komast þeir upp með hærri álagningu hér en þar. Hvernig geta þeir réttlætt það? Þetta er hin sígilda og að mínu mati miður góða hugmynd kapitalismans um framboð og eftirspurn en mér finnst það eiginlega brot á mannréttindum. Ættu ekki allir að geta nálgast þau lyf sem þeir þarfnast óháð fjárhag sínum og án þess að leggja hann í rúst? Sama á við um almennan læknakostnað, tannlæknar þar með taldir. Ekki hef ég efni á því að fara til tannlæknis nema skrimta. Biðlistar eru of langir og mikill skortur á starfsfóli. Ég hef til að mynda ekki haft heimilislækni síðan ég flutti til Reykjavíkur árið 2000. Læknaþjónusta er það nauðsynleg þegar ég flutti til Reykjavíkur hefði ég átt að geta mætt á einhvern stað, fengið að vita hvaða læknir í grennd við mig geti tekið mig að sér og ef ég reyndist svo ekki vera sáttur við lækninn ætti ég að geta farið á sama stað og beðið um nýjan. Þannig væri einnig betur tryggt að hæfir læknar væru að störfum. Læknarnir fengju svo aðeins greitt eftir fjölda sjúklinga sem þeir sinna og þannig tryggð betri læknaþjónusta þar sem þeir vilja fanga til sín sjúklinga til að fá meira borgað. Ekki ættu þó margir að lenda í að taka of marga að sér þar sem að þá myndi þjónustan lækka og sjúklingar flytja sig til annars læknis. Staða hjúkrunafræðinga er aðvitað enn verri en staða heimilislækna eins og þið ættuð öll að vita. Eina leiðin sem ég sé til að laga þetta er að margfalda fjármagn í heilbrigðisgeiranum. En það gæti auðvitað ekki gengið upp nema með aukinni skattinnheimtu eða talsverðum breytingum á fjárlögum og því erfitt að framkvæma útaf nískunni í okkur.

Annað vandamál er fangelsiskerfið, sem er nú reyndar ágætt í samanburði við Bandaríkin og jafnvel mörg Evrópulönd en það er samt meingallað. Ég verð að viðurkenna að ég er ekki alveg nógu fróður um þessi mál þar sem ég þekki engan sem hefur komið í nálægð við þennan geira en fangavistin hlýtur að eiga að snúast um endurhæfingu. Fangar mega engu að síður ekki hafa það of gott heldur því þetta á líka að vera afleiðing ólögmætrar hegðunar en ekki ókeypis húsnæði og matur fyrir þá sem vilja spara. Enn fremur þarf að fara yfir lög og lengd dóma. Það að nauðgara sé refsað með því að henda honum í steininn í nokkra mánuði er ekkert réttlæti. Afbrotamaðurinn ætti að vera sendur í endurhæfingu og á meðan á endurhæfingu stæði ætti hann að vera bundin við fangaklefa, sviptur almennu frelsi en með hjálp við að reyna að umbæta líf sitt.

Bilið milli ríkra og fátækra er annað mál sem glíma þarf við. Danir reyndu þarna að koma með lausn. Þeir hækka skattinn miðað við laun, því hærri laun því hærri skattaprósenta (mikil einföldun). Einn augljós galli á þessu, sem hefur sýnt sig í dönsku samfélagi, er hve þetta dregur úr yfirvinnu, sem oft er nauðsynleg. Lausn á því gæti verið að hafa yfirvinnukaup utan almenna skattsins og hafa bara fastan skatt á yfirvinnukaupi óháð öðrum launum. Það er líka ekkert að því að verðlauna fólk fyrir að vera iðið og duglegt. Einnig þarf að hækka skattleysismörk og auka fjárstuðning til öryrkja og annars líks. Svona breytingar gætu að vísu falið í sér að efnamenn flytji lögheimili sitt í skattaparadísir, græðgi mannsins, og leita þyrfti ráða til að stemma stigum við því.

Iðnaðarstefnan sem landið hefur ákveðið að taka er annað áhyggjuefni. Byggð eru álver eftir álver og virkjanir eftir því til að anna eftirspurn álveranna eftir ódýru rafmagni. Þegar á það er litið finnst mér líka fáránlegt að álverin fá rafmagnið mjög ódýrt á meðan íbúar landsins eru látnir bera kostnaðinn. Ég get ekki annað sagt en að það sé skammarlegt. Áður en Kárahnjúkavirkjun var gerð áttum við stærstu óspilltu náttúru Evrópu en erum nú langt frá því, Norðmenn eiga nú mun stærra svæði. Í stað þess að byggja upp orkufrekan og mengandi áliðnað hvernig væri þá að byggja upp hátækniiðnað lík og Írar gerðu með góðum árangri? Svo er nú ekki eins og það sé eini valmöguleikinn. Það hefur nú líka sýnt sig að lönd sem framleiða hráefni eru talsvert fátækari en lönd sem kaupa hráefnin og vinna úr þeim fullunnar vörur, enda er það aðal iðnaðurinn. Með þessum áliðnaði erum við enn fremur að slátra umhverfinum sem er skammarlegt og við þurfum að hugsa meira um hvað framtíðarkynslóðir landsins eiga eftir að segja um okkur.

Enn eitt vandamálið snýr að þrískiptingu ríkisvaldins. Sú hugmynd kemur að ég held upprunalega frá Montesque og er hugsuð þannig að löggjafarvald, framkvæmdavald og dómsvald sé með öllu aðskilið. Tilgangurinn með þessu er fyrst og fremst að koma í veg fyrir spillingu, ef að einn maður eða ein stofnun hefur fleiri en eitt þessarra valda í sínum höndum hefur hún of mikið vald og enginn getur haldið aftur af henni ef hún spillist eða hún ræðst í eitthvað verk geng almennum vilja. Ekkert land hefur þetta algjörlega aðskilið en því nær sem við komumst því betra. Á Íslandi er staðan þannig að Alþingi hefur löggjafar- og framkvæmdavald auk þess að skipa þá er gegna dómsvaldinu. Þetta er að vísu einföldun, eins og fleira sem ég hef skrifað hér, þar sem sveitafélögin, sem og fleirri þættir, hafa eitthvað af þessu valdi en það er engu að síður takmarkað og því nærri lægi að standa við þessa fullyrðingu. Ég sit nú ekki á lausn á þessum vanda en skoða má önnur lýðræðisríki, hvaða vandamál þau glíma við og reyna að finna lausn á þeim. Athugið að þegar ég segi lýðræðisríki þá eru Bandaríkin ekki þar með talin, enda eru þau ekki lýðræðisríki heldur land sem sér hag sinn í því að viðhalda blekkingunni um lýðræði. Það er skammarlegt hve mikið við flytjum okkur meira og meira frá okkar eigin skynsemi og rökhugsun og að þessum ómannúðlegu, ólýðræðislegu ofur-kapítalisku sambandsfylkjum í Ameríku.

Að mínu mati er eitt stærsta vandamál landsins of mikil einkavæðing ýmissa ríkisstofnanna. Margir eru þó hér á öndverðu meiði. Mín skoðun er sú að stofnanir sem sjá um mikilvæga almannaþjónustu, líkt og skólar, spítalar, almannatryggingar, ellilífeyrissjóðar, jafnvel bankar og fleira, verði að hugsa um að þjónusta lýðnum, ekki að reyna að græða eins og þau geta. Margir benda þá á að til þess að græða verði fyrirtækin að ná til sín kúnnum og geti því ekki okrað á þeim en það hefur bara sýnt sig að Ísland er svo lítið hagkerfi og samkeppni svo lítil að svo til allir komast upp með allt of mikið okur. Því sitjum við uppi með fyrirtæki líkt og bankana og olíufélögin, sem taka kúnna sína og níða eins mikið og þau geta í leit að skjótum gróða. Bönkunum hefur nú svo til tekist að rústa íslenska gjaldeyrinum, að vísu ekki hjálparlaust, vanhæf fjármálastjórnun hefur hér mikið hjálpað til. Auðvitað eru erlend áhrif að gera þetta verr en ellegar hefði orðið en við vorum búin að stefna á þetta í svoldin tíma. Ég held að einkavæðing bankanna hafi til dæmis gefið okkur þá neikvæðu mynd af einkavæðingu sem við ættum að hafa. Vissulega stækkuðu þeir mjög og hættu að vera kosnaðarbaggi á ríkinu en þeir voru seldir á gjafaverði og það hvað þeir mokuðu inn sýnir bara hvað þeir voru að ofrukka kúnna sína jafnframt því að auka bilið milli ríkra og fátækra. Í stað þess að að ríkið beri kostnaðinn fluttist hann beint á almúgan og þá fátæku frekar en ríku þar sem ríku kúnnarnir skipta bankana meiru máli og því verðlauna þeir þá með afsláttum og hagstæðum lánum á meðan almenningur borgar brúsann og fær lítið sem ekkert af kostunum.

Fíkniefni eru enn annað vandamálið sem glíma þarf við. Ef við skoðum söguna og reynum að læra af mistökum hennar hljótum við að taka eftir líkindunum milli bannsins á eiturlyfjum nú og áfengisbannsins fyrir um öld síðan. Það bann virkaði ekki og þetta bann er ekki að virka. Alla sögu mannkynsins hefur einhver vímugjafi verið við lýð, þó að þeir hafi yfirleitt ekki verið jafn slæmir og nú. Ekki þýðir því að leyfa bara fíkniefnin þar sem þau eru sum hver stórhættuleg. Þau eru þó vissulega mishættuleg. Kannabis er til að mynda ekki hættumeira en áfengi, nema síður sé. Því er erfitt að rökstyðja lögmæti sígaretta og áfengis og ólögmæti kannabis. Önnur lífræn fíkniefni eru talsvert hættulegri og ekki hægt að rökstyðja lögleiðingu þeirra nema að því leiti að þau eru óendanlega mikið hættuminni (þrátt fyrir að vera hættumikil) en ólífrænu heimaelduðu lyfin sem eru að verða vinsælli og vinsælli. Líkja má þessu við landan á sínum tíma. Til var góður landi en illa gerður landi, sem einnig var í umferð, gat verið stórhættulegur, og fyrir alkahólista gat það verið lífshættulegt. Eins er með fíkniefnin nú. Þessi heimaelduðu lyf geta verið vel gerð og eru þá hættuminni en annars, en geta einnig verið illa gerð og stórhættuleg fíklunum, sem eiga eftir að neyta þeirra sama hvort þau eru lögleg eður ei. Því ætti að mínu mati að reyna að lögleiða kannabis og stofna ríkisreknar stofnanir sem bjóða upp á harðari lífrænu efnin, þar sem fíklar geta fengið hreinar nálar og efni sem eru ekki óhrein og þar af leiðandi hættuminni. Um leið ætti að reyna að aðstoða þá við að gefa upp fíknina. Þó að þessar stofnanir myndu kosta ríkið sitt væru þær varla dýrari en heilbrigðiskostnaðurinn sem nú hlýst af fíklunum. Auk þess myndi þetta svo til ná ólífrænu, stórhættulegu efnunum úr umferð. Ég er ekki að segja að það eigi að bjóða efnin ódýr eða ókeypis heldur að halda utan um þau á hreinum stað með eftirliti með ríkisrekinni umsjón á sölu. Þá eru líka börn og unglingar betur tryggð gegn neyslu. Ég held að eiturlyfin yrðu að vera bundin við þessar stofnanir, það er að segja ekki leyfilegt að fara með þau út af stofnununum, því ef þetta færi útfyrir þær væri of hætt við að þetta myndi dreyfast og verða stærra. Smygl þyrfti að vera undir álíka ströngu eftirliti og það er nú eða jafnvel meiru, bæði í og úr landi, og passa þyrfti að Ísland myndi ekki breytast í eiturlyfjahöfuðborg líkt og Holland er að gera.

Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að það sem hér hefur verið ritað er sterkorðað og öfgakennt en reyndu að ræða þessi mál þannig að eitthvað myndi hljótast af umbótum án þess að það sem þú segir verði öfgakennt. Ég veit einnig að mjög margir eru einstaklega ósammála því sem hér hefur komið en ég er ekki að tjá fullmótaða stefnu heldur eitthvað sem væri þess vert að rannsaka og reyna að mynda stefnur í kringum því við hljótum að gera okkur grein fyrir því ef við höfum einhverja heilastarfsemi að kerfið eins og það er í dag er einfaldlega ekki að virka sem skildi. Ég er ekki að setja þetta fram sem endanlegar hugmyndir heldur einmitt bara hugmyndir. Ég myndi mjög gjarnan þykkja málefnaleg mótsvör, meðsvör og eða viðbætur.