Sorgin knýr dyra - hvað getum við gert til að bæta netsamfélagið? Ert þú nógu þroskuð/aður til að hafa aðgang að netinu? Geta síður eins og Hugi.is – blogg - eða álíka samfélög á netinu haft áhrif á líf og limi okkar eða þeirra sem eru okkur samferða á netinu – jafnvel valdið dauða?

Getur gagnrýni á stafsetningu okkar, málfar, orðalag eða þau persónulegu málefni sem við erum að tjá okkur um – orðið þess valdandi að við verðum fyrir þvílíkum áföllum að við föllum í djúpt þunglyndi – eða jafnvel tökum eigið líf, allt vegna óvæginna athugasemda eða heiftarlegrar gagnrýni á það sem við erum að skrifa á netið?

Hvernig er það með þá sem eru mjög alvarlega þunglyndir fyrir – eru kannski að deila með okkur mjög erfiðum málefnum á netinu, á blogginu eða líkum vetvangi – þar sem allir geta lesið okkur, svarað því sem við segjum eða geta sent inn athugasemdir við því sem við erum að skrifa?

Við sem sitjum fyrir framan tölvuna og erum að taka þátt í slíku samfélagi sem t.d. bloggið er (eða Hugi.is) – höfum ótrúlega mikið vald og getum haft gífurlega mikil áhrif á þá sem sitja hinu megin við skjáinn okkar. Hvernig við notum þetta vald – er í raun og veru vitnisburður um uppeldi okkar, að mínu mati.

Sýnum við umburðalyndi og kærleik – eða erum við óvægin við þá sem stafsetja flest orð vitlaust, hafa kolrangt orðalag eða segja frá hlutum sem mörgum finnst vera eitthvað sem betur hefði verið ósagt eða ætti ekki að eiga heima á síðu þar sem allir geta lesið?

Jú, líklega reynum við vel flest að vera umburðalynd og vel flest erum við full af kærleika þegar við rekumst á einhvern af samferðafólki okkar á netinu sem hefur glímt við mikla erfiðleika eða ástvinamissi og ástarsorgir eða álíka.

En, það er til vetvangur þar sem allt annað er uppi á teningnum. Það eru til síður þar sem börn og unglingar eru alls ráðandi og þar grasserar oft ýmislegt misjaft.

Öll vitum við að sum börn og sumir unglingar hafa stundum ekki þroska og vit til að sýna aðgát í nærveru sálar, sýna umburðalyndi og kærleika sem og skilning ef einhver er að tjá sig um það sem viðkomandi telur vera sér mikilvægt – setur fram í von um smá skilning eða jafnvel ákveðnar ráðleggingar og úrlausnir við því sem hann/hún skrifar.

Vegna þroskaleysis geta börn og unglingar oft verið anzi óvægin og grimm – ekki endilega viljandi – við hvert annað, sérstaklega á netinu. Ég vil nota hér tækifærið til að biðja fólk sem á börn - endilega um að það opni augu sín fyrir því hvernig börn þeirra og unglingar koma fram við aðra á netinu. Talið við börn og unglinga og segið þeim hve mikilvægt það getur verið að vera fullur af kærleika og virðingu á netinu gagnvart öllum þeim sem virðast ekki eins heppin og þau sjálf.


Það sem þau telja vera “hipp&cool” getur verið banvænt í augum annarra sem eiga um sárt að binda. Þau gagnrýna grimmt þá pisla eða greinar sem sendar eru inn af einhverjum - ef eitthvað er misjaft í stafsetningu, uppsetningu eða orðalagi hjá höfundi – áður en þau segja eitthvað um raunverulegt innihald greinarinnar – ef viðkomandi segir þá yfir höfuð nokkuð um efnisinnihald greinar.

Nýlega – í gær eða fyrradag - las ég grein/kork senda inn af ungum manni inná Huga.is – þar sem hann sagði stutt frá lífi sínu, erfiðleikum og ástarsorgum. Heilmikil runa af leiðindum ringdi inn – að því er virðist miðað við hve miklu stjórnendur þurftu að eyða af commentunum - um málfar og villur í texta eftir því sem ég kemst næst - og Guð má vita hvað, en mest lítið var um raunverulega umræðu um það málefni sem hann setti fram í von um smá ráðleggingar eða hjálp.

Einhverjum dögum síðar tók þessi ungi maður líf sitt.
Í ljós kom að þessi viðkvæmi drengur átti við erfiðleika að stríða, glímdi við heilmikið einelti - sennilega þunglyndur á háu stigi og átti í mikilli ástarsorg - hann var lesblindur – sem skýrir villur í texta – og hugsanir hans voru ruglingslegar og að því er virðist í skrifum hans - þegar komnar út í sjálfsmorðshugleiðingar.

Hefði hann tekið líf sitt ef yfir hann hefði ringt góðum hugsunum, góðum ráðleggingum eða ljúfum og kærleiksríkum athugasemdum við grein hans? Hugsanlega ekki, en kannski hefði slíkt engu skipt ef hann hefur þegar verið búinn að gera upp hug sinn varðandi líf sitt.

Auðvitað getur engin ætlast til að við séum skyggn og bara áttum okkur á því hvað liggur á bakvið skrif hvers og eins sem við mætum á netinu – en það er í okkar hendi að leggja þeim lið sem líður illa, við höfum vald til þess! Valdið er vandmeðfarið og næsta víst er að sum okkar kunnum nákvæmlega ekkert með það að fara vegna þroskaleysis!

Það kostar ekkert að vera jákvæður og ljúfur í skrifum á netinu, setja fram góða og kærleiksríka athugasemd – með hjálp í huga eða bara velvilja – frekar en að setja eitthvað neikvætt – bara til að segja eitthvað. Frekar ættum við að fara af síðunni án orða og leiðinda en að henda einhverju fram sem ekkert gerir annað en særa!

Með því að kasta fram neikvæðum og illa hugsuðum athugasemdum – þar sem slíkt hefði ekkert endilega þurft – eða án þess að við endilega höfuðum eitthvað að segja yfir höfuð um það sem við vorum að lesa, getum við sært gífurlega mikið viðkvæmar sálir. Með því að setja fram góðar og jákvæðar athugasemdir sem miða að því að “peppa upp” viðkomandi höfund – getum við stuðlað að bættri líðan einhvers, sett bros á kannski tárvott andlit eða jafnvel bjargað mannslífi þess sem er kannski á síðasta strái að henda fram erfiðleikum lífs síns í von um skilning og vinsemd þeirra sem lesa grein eða pistil hans.

Við sem núna sitjum við skjáinn – stoppum við og hugsum!

Ef við lesum eitthvað sem snertir okkur ekkert, kemur okkur ekkert við eða við höfum ekkert gott að segja um – þegjum frekar og förum áfram frekar en að stoppa við og eyða tíma í að skrifa eitthvað leiðinlegt og kannski særandi! Sýnum velvilja og aðgát, sýnum vinsemd og kærleika og kennum börnum okkar slíkt hið sama, það skilar sér til framtíðar. Það sem okkur hefur verið kennt – það er leiðarljós okkar núna og verður leiðarljós barna okkar ef við kennum þeim og ölum þau upp í slíkum kærleik og vinsemd gagnvart öllum þeim sem við mætum á lífsleiðinni!

Við uppskerum eins og við sáum í börn okkar, vald okkar er mikið – nýtum það til að gera okkar í því að fegra internetið. Munið – margir smáir og fallegir hlutir – geta gert svo óendanlega mikið gott. Falleg orð hér og þar, umburðalyndi og skilningur við þá sem eru ekki alveg eins “fullkomnir” og við sjálf – þetta skilar sér allt. Hafið það ætíð hugfast að allt sem þið skrifið á netinu gæti orðið til þess að setja bros á sorgmætt andlit – eða sett tár í augu viðkvæmra sem áður voru brosandi.

Eins og máltækið segir svo vel [/b ]“Penninn er máttugt vopn /penninn er máttugri en sverðið” – þetta máltæki er hægt að yfirfæra á lyklaborðið ykkar þar sem þið sitjið nákvæmlega núna!

Foreldrum og aðstandendum unga mannsins sem hvarf á braut alltof ungur – vil ég votta mína innstu samúð ef eitthvert þeirra leggur leið sína hingað og les þetta. Ég skrifaði þessa grein í hans minningu.

Kveðja;
Tigercop sem kýs að nota vald sitt við lyklaborðið til að sýna velvilja, vinsemd og kærleika á netinu. Hann telur að þeir sem misnota vald sitt við lyklaborðið í neikvæðum tilgangi séu einfaldlega óþroskaðir niðursetningar sem sannarlega ættu ekki að hafa aðgang að eins viðkvæmum vettvangi og netið er…