Opið bréf til dómsmálaráðherra - Rafbyssur á Íslandi Góðan dag virðulegi ráðherra,

Ég rita þér vegna umfjöllunar í fjölmiðlum um hugsanlega innleiðingu á rafbyssum, eða svokölluðum “Tasers”, hjá íslensku lögreglunni.

Ljóst er að þessar rafbyssur eru langt frá því að vera hættulausar, eins og fjöldamörg dæmi hafa sannað í fjölmiðlum, og einnig í ummælum frá Amnesty International.

Nú hef ég fylgst með ástandi mála í Bandaríkjunum, og þá sérstaklega hvernig lögreglan notar slík tæki. En hún einfaldlega notar rafbyssur sem “fjarstýringar” á fólk, ef það er með minnstu læti þá notar lögreglan rafbyssur á það. Ég hef séð fjöldamargar myndaklippur af því. Get ég sent þér tilvísanir á slíkt efni.

Það er hræðilegt að hugsa til þess slíkt gerist hérna á Íslandi.

Nú er starfsmannamálum lögreglunnar þannig háttað að óvant fólk, ungir krakkar jafnvel, eru settir í búning og sendir út án mikillar þjálfunar og menntunar. Slíkt fólk kann ekki að meðhöndla ölvaða eða ringlað fólk, og því hef ég miklar áhyggjur að það bregðist við minnsta mótþróa með notkun á slíkum rafbyssum. Fólkið í landinum á aldrei að þurfa óttast bæði glæpamenn og laganna verði.

Frekar ætti að styrkja þjálfun lögreglumanna, og hækka laun, í staðinn fyrir að vopna óþjálfaða, óreynda, stráklinga.

Aðstæður á Íslandi eru ekki slíkar að vopna þurfi lögreglumenn með slíkum tækjum. Að vísa til einstakra mála sem hafa komið upp nýlega sem réttlætingu fyrir slíkum vopnaburði er slæmt, og hef ég misst nokkuð álit á þér vegna þessa. Ákvarðanir á aldrei að taka undir þannig kringumstæðum, nóg er að líta stutt í mannkynssöguna til að finna dæmi um slíkt.

Vona ég að þú endurskoðir þessa hugmynd.


Bestu kveðjur og þökk fyrir lesturinn