Komið þið sæl.
Ég hef oft á tíðum gaman af því að setjast niður og skoða skrif samborgara minna á vefslóðinni http://www.hugi.is.

Því miður hefur sú gleði dvínað nokkuð mikið þar sem ég ræð varla við það eitt að lesa heila grein vegna hræðilegrar stafsetningar.
Ég tek mér það bessaleyfi að fullyrða það að fæstir sem stunda greinaskrif hér á vefslóðinni http://www.hugi.is ráði við það að skrifa heila grein án þess að villurnar hrannist upp og er engu líkara en að greinarnar séu skrifaðar á tokkarísku.

Er þetta málfræði- og stafsetningarkennslu í grunn- og framhaldsskólum að kenna eða eru allir sem stunda greinaskrif hér með vit af svo skornum skammti að jafnvel einföldustu reglur varðandi stafsetningu komast einfaldlega ekki inn í kollinn á þeim?
Eða eru allir svo villtir í frumskógi stafsetningarinnar að þeir kunna reglurnar en ráða bara ekki við að nota þær í daglegu lífi? Það þýðir ekki bara að kunna reglurnar, maður verður líka að kunna að nota þær.

Ég hef aldrei gert og mun aldrei gera stafsetningar- eða innsláttarvillu. Þetta leyfi ég mér að fullyrða þar sem ég fer vel og vandlega yfir allt sem ég læt frá mér skriflega. Margir ættu að taka sér mig til fyrirmyndar og ekki selja sig svo ódýrt að gera kjánalegar og sóðalegar stafsetningarvillur. Það finnst mér ólíðandi.

Sigvarður Ólafsson