Klám(árs)hátíð á Hótel Sögu Mikið þykir mér það merkilegt hvað femínistar eru að tapa sér yfir meintri klámhátíð sem á að halda á Íslandi/Hótel Sögu í mars mánuði. Jafnvel merkilegra er hvað umræðan er á lágu plani eins og hér.

Hvað eru þessir femínistar að væla? Halda þær virkilega að stjórn Hótel Sögu muni hugsa “Æj fuck! Einhverjar 5 konur sem örugglega aldrei hafa haft efni á að leigja af okkur herbergi ætla að halda því áfram! Við verðum að segja klámköllunum að þeir verði að fara eitthvað annað!”

Common sko. Bókun á 125 herbergjum í einu er ekki eitthvað sem þú bakkar útúr sisona, og það er ekki eins og þarna séu á ferðinni dæmdir glæpamenn, eiturlyfjasalar og vopnasalar, eins og einhver vildi líkja þeim við. Þarna er fólk að fara á árshátíð, fólk eins og ég og þú. Fólk sem á fullt af peningum sem það hefur ákveðið að eyða á Íslandi. Einhverjar kenningar eru á lofti um að það ætli að taka upp myndir sem er auðvitað bannað á Íslandi, það er bannað að framleiða klám samkvæmt hegningarlögum en hver ætlar að sjá um að draga línuna milli kláms og listar? Annars sýnist mér á dagskránni sem búið að er birta fyrir þennan hóp að um sé að ræða ósköp venjulega túristaferð þar sem viðkoma er á Gullfossi og Geysi, Bláa Lóninu og öðrum helstu túristagildrum landsins.

Það sem fer líka í taugarnar á mér í allri þessari umræðu er þessi endalausa tenging kláms við vændi og að allar konur í klámi séu í því af nauð en ekki frelsi. Nú ætla ég ekki einu sinni að reyna að halda því fram að ekki séu konur í klámi sem er komið illa fram við og þær séu jafnvel hreinlega misnotaðar. En að klám sé í eðli sínu misnotkun á konum er fjarstæðukennt því ef að svo er hlýtur það að fylgja að kynlíf sé í eðli sínu niðurlægjandi fyrir konur en ekki karla. Klámbransinn er risavaxinn og fjölbreytilegur og í honum er fullt af fólki sem hefur af honum góðar tekjur og unir sínu hlutskipti vel. Vil ég í því samhengi benda fólki á að lesa sögu Jasmin St. Clair. Vel menntuð kona sem fór útí klám með þann draum í brjósti að verða fræg en því miður brustu draumar hennar og hún sagði skilið við bransann 2002. Að tengja þennan hóp sem er á leið til Íslands ósjálfrátt við misnotkun kvenna og mansal eru einfaldlega hreinir og klárir fordómar.

Einnig þykir mér áhugavert að það sé femínistar sem virðast vera hvað mest inní þessu máli. Mér þykja þær leggja full mikið kapp á að þekkja óvininn. Ef þær hefðu ekki vakið máls á þessu myndu Íslendingar sennilega ekki einu sinni gera neinn greinamun á þessum hóp og öðrum túristum en í staðinn flýgur dagskrá ferðarinnar út um internetið og allir helstu perrar landsins ætla að fjölmenna í Bláa Lónið sama dag og klámhópurinn.

Að lokum: ef að þetta væru framleiðendur hommakláms sem væru að fara að halda þessa hátíð, ætli að femínistum væri þá alveg sama?

Klámbransinn er sennilega eitt af fáum sviðum þar sem konur eru launahærri en karlar. Er það ekki einmitt það sem femínistar sækjast eftir?

Eru þá bara ekki allir sáttir?
_ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _