Í þessari tillögu til umræðu, (eða greinarkorni) er notast við heimildir Wikipediu. Inn á wikipediu geta leynst alls kyns villur eins og í fjölmörgum öðrum ritum, en þó kannski er áhættan eilítið meiri heldur en á mörgum öðrum vefsíðum. (Svo sem opinberum ríkistjórnarsíðum og svo framvegis), fannst sanngjarnt að vara ykkur við. :)



Tyrkland og Evrópusambandið

Í Evrópusambandinu eru 494 milljónir íbúa og ef við teljum það land á þá er það hið þriðja fjölmennasta ríki jarðar. Opinberlega er þetta þó ríkjasamband og fjölmennasta ríki þess er Þýskaland. Í Þýskalandi búa 82 milljónir manna og þar af eru þrjár milljónir múslima.
Flestir þessara þriggja milljóna eru frá Tyrklandi. Þessar tölur komu mér nokkuð á óvart, en þá má vera að í framtíðinni muni Tyrkjum fjölga meira þar sem fæðingartíðni þeirra er hærri en Þjóðverja. (Flestar þýskar fjölskyldur eru með einbirni).
Tyrkland er fámennara heldur en Þýskaland eða með 72 milljónir íbúa. Það myndi þó hafa eflaust talsverð áhrif á ESB ef Tyrkland gengi inn. Það yrði næst fjölmennasta ríki í sambandinu og myndi því hljóta pólitísk áhrif í minnsta lagi til jafns við Frakka.
Frakkar eru einna mestu andstæðingar inngöngu Tyrklands.

Menningarleg tengsl

Einungis lítill bútur af Tyrklandi telst vera partur af meginlandi Evrópu. Tyrkland sem sækist eftir aðild er þó ekki fyrsta umdeilda ríkið til að sækja um. Malta og Kýpur voru bæði talinn hluti af öðru meginlandi en fengu þó aðgang að sambandinu.
Því hefur verið fleygt fram að Tyrkir hafi engin menningarleg tengsl við Evrópu. Þeir hafa óneitanlega sterk efnahagstengsl og eru ekki verr settir efnahagslega heldur en Rúmenar og Búlgarar. Mörgum kann þó að þykja nóg um þensluna á sambandinu og vilja bremsa á Tyrki. Rök þeirra sem telja þensluna of hraða eru ekki einungis menningarleg en lúta að ýmsum öðrum atriðum.
Þar sem ég er ekki neinn sérstakur sérfræðingur í efnahagsmálum mun ég frekar einbeita mér að efnahagsmálum í þessu greinarkorni.

Evrópskt eða Asískt ríki?

Í menningarlegu tilliti tilheyrði Tyrkland frekar til vesturs en austurs lengi vel. Á seinni árum rómverska ríkisins var höfuðborg mestallrar Evrópu staðsett þar sem nú er Istanbul. Þessi borg var fjölmennasta borg veraldarinnar í mörg ár eftir fall veldisins, og jafnvel eftir að arabar hirtu mestallar leifar keisaraveldisins.
Istanbul var nærri því að vera miðja hins vestræna heims á dögum víkingana. Þeir nefndu borgina Miklagarð því þrátt fyrir að keisaradæmið sjálft hafi verið vanmáttugt þá fóru mikil viðskipti í gegnum borgina. Borgin hefur alltaf verið mjög eftirsótt enda eina tenging Miðjarðarhafs við Svartahaf.
Hins vegar má segja að hinu vestræna tímabili Tyrklands hafi lokið með uppgangi Ottómanaveldisins. Ottómanar hertóku borgina 1453 og á næstu tveim öldum náðu þeir öllum balkanskaganum á sitt vald.
Þrátt fyrir að Ottómanirnir hafi verið múslimar litu þeir á sig sem arftaka rómverska keisaraveldis eftir að hafa tekið borgina. Kristið fólk og gyðingar gátu náð til mikilla metorða innan veldisins og fengu að stunda trú sína í friði. (Þeir urðu þó að greiða sérstakan skatt fyrir þau fríðindi).
Ottómanar voru ekki í góðum tengslum við evrópsk ríki og mótuðu menningu þeirra frekar sem óvinir en nokkuð annað. Nokkur áhrif skiluðu sér þó til okkar, til dæmis barst kaffidrykkja til okkar frá Tyrklandi.

Múslímskt ríki

Ein stærstu menningarlegu rök gegn inngöngu Tyrkja inn í Evrópusambandið eru fólgin í trú þeirra. Tyrkland er opinberlega trúlaust land og enginn má ganga um með trúarleg táknn innan stofnanna. Til dæmis þurfti eiginkona forsætisráðherrans að taka af sér slæðuna áður en hún gekk inn í ráðuneyti eiginmanns síns.
Þessi lög hafa verið umdeild í Tyrklandi. Trúarlegir flokkar njóta nokkurra vinsælda og á seinasta áratug komst íslömsk stjórn til valda. Þeim hinsvegar mistókst að afnema hin áttatíu ára lög ríkisins því herinn ógnaði þeim með valdaráni. Þrátt fyrir að vera lýðræðislegt land þá hefur Tyrkland þrisvar sinnum lent í valdaráni. (Seinast 1980).
Ekki er talið líklegt að herinn hafi vilja né getu til þess að halda áfram þeirri hefð enda er landið afar stöðugt í dag. Múslimskir öfgamenn eru ekki mjög fjölmennir. Til dæmis mótmæltu einungis 15000 manns komu Benedikts páfa til Istanbul. (Í borginni eru 10 milljón íbúar). Fjölmennari mótmæli hafa átt sér stað á Íslandi.

En sveitin?

Óneitanlegt er að Istanbul og strendurnar við eyjahafið eru álíka frjálslynd og Evrópa. Ef Albanía sem einnig er múslimskt ríki fær inngöngu í ESB þá gagnast trúarlegar röksemdir lítið til þess að aftra tyrkjunum.
En er Tyrkland í heild álíka frjálslynd? Vissulega eru lög til í landinu sem takmarka tjáningarfrelsi. Til dæmis er óleyfilegt að ásaka stjórnvöld opinberlega um þjóðarmorð sem áttu sér stað 1915. Armenar, Kúrdar og Tyrkir eiga enn einhver mál óútkljáð, og Kúrdar í austurhluta landsins vilja margir sjálfstæði.
Landamæri Tyrklands í austri skapa líka vandamál varðandi öryggisgæslu. Landamæri ESB yrðu upp við lönd á borð við Sýrland og Írak. Héröð Kúrda í norðri eru þó friðsöm og Tyrkir standa sig ágætlega í landamæragæslu við Sýrland.

Jákvæðar hliðar:

Gæti bætt samskipti múslima og Evrópu.
Bætir vaxandi efnahagsveldi í hóp þjóða ESB (7% hagvöxtur á ári seinasta ár)
Styrkir hernaðarmátt ESB
Lætur ESB ná yfir 500 miljónir eða upp í hálfan milljarð
Gæti leyst Kýpurdeiluna

Millikvæðar hliðar:

Tyrkland hefur þegar samkomulög við ESB sem hleypa innflytjendum tiltölulega auðveldlega í gegn, auk þess sem áframhaldandi takmörk yrðu þar til einhverju jafnvægi yrði náð.

Neikvæðar hliðar:

Gerir erfiðara að samhæfa ESB
Gæti valdið ofþenslu ESB
Færir landamæri ESB upp að löndum sem eru óstabíl.


——
Þetta er nú ansi mikil langloka. Ég reyndi að vera hlutlaus en ég hugsa að mín skoðun skíni þó glögglega í gegn. :)