Samkynhneigð og hvort það sé synd hefur oft verið eitt af meginumræðum í kristnu samfélagi. En er ekki frekar gamaldags að líta svo á að það sé rangt að vera samkynhneigður á 21. öldinni, öld trúfrelsis, málfrelsis og fleiri tegundum af frelsum. Þar sem ég hef mikinn áhuga á þessu málefni ákvað ég að kafa dýpra ofan í þá staði Biblíunnar þar sem þetta kemur fram og reyna að sjá hvort að hægt sé að nota það til að fordæma samkynhneigð eða ekki.

Samkynhneigð í Gamla Testamentinu

Sódóma og Gómorra

Eitt af því fyrsta sem margir sem halda því fram að samkynhneigð sé synd nota til að styðja mál sitt er sagan af Sódómu og Gómorru: (Fyrsta Mósebók 9:4-8)

4En áður en þeir gengu til hvíldar, slógu borgarmenn, mennirnir í Sódómu, hring um húsið, bæði ungir og gamlir, allur múgurinn hvaðanæva. 5Og þeir kölluðu á Lot og sögðu við hann: “Hvar eru mennirnir, sem komu til þín í kveld? Leið þú þá út til vor, að vér megum kenna þeirra.” 6Lot gekk þá út til þeirra, út fyrir dyrnar, og lokaði hurðinni að baki sér. 7Og hann sagði: “Fyrir hvern mun, bræður mínir, fremjið ekki óhæfu. 8Sjá, ég á tvær dætur, sem ekki hafa karlmanns kennt. Ég skal leiða þær út til yðar, gjörið við þær sem yður gott þykir. Aðeins megið þér ekkert gjöra þessum mönnum, úr því að þeir eru komnir undir skugga þaks míns.”[/quote}

Ein leið til að túlka textann væri að túlka merkingu orðsins ‘að kenna’ sem það ‘að hafa mök við’, aðallega vegna þess að seinna í textanum stendur

Sjá, ég á tvær dætur sem, ekki hafa karlmanns kennt

Ofangreind setning er greinileg vísun í kynlíf. Ástæða þess að hann bjóði dætur sína til nauðgunar í stað þessara gesta sem hann hefur undir þaki sínu er ekki hægt að segja með vísu, en ef maður skoðar þetta útfrá réttu sjónarhorni þá sér maður að hann vill vel. Gestirnir tveir eru nefnilega ekki einungis aðkomumenn, heldur eru þeir englar Guðs.

Eftir þetta atvik segja englarnir Lot að taka alla þá sem eru honum kærkomnir og forða sér því þeir ætli að eyða borginni fyrir syndir sínar. En hverjar þessar syndir eru er ekki hægt að vita. Þó er hægt að ganga frá því vissu að kynlífstengdar syndir og þá líka nauðgun karla á körlum (því það er jú það sem þeir ætluðu að gera við englana) séu einhverjar af þeim. Hvergi í kaflanum um Sódómu er þó minnst á samkynhneigð milli tveggja einstaklinga sem eru hrifnir eða ástfangnir af hvor öðrum.

3. Mósebók – Leviticus

Sá staður í Biblíunni sem hvað er mest notaður af þeim sem segja að samkynhneigð sé synd er vafalaust 3. Mósebók, 18:22 en þar segir

22Eigi skalt þú leggjast með karlmanni sem kona væri. Það er viðurstyggð.
Þetta er auðlesið og skilið, þarna bannar Guð körlum að stunda mök með öðrum körlum. Þó svo að það sé þá hafa fræðingar á þessu sviði, þýðingar á Gamla Testamentinu og hebresku, haldið því fram að í upprunalega textanum standi ekki að bannað sé að hafa mök, heldur einungis að sofa í sama rúmi og annar maður. Þeir segja að orðið sem notað er yfir ‘að liggja’ sé hægt að túlka sem ‘að liggja með’ í bókstaflegri merkingu, en ekki merkingunni að stunda kynlíf með. Sér til rökstuðnings sýna þeir fram á það að í öðrum nærliggjandi versum, 3. Mós, 18:20 og 18:23 sé annað orð notað sem er skýrt og greinilega um kynlíf.

Annað sem benda má á er það að talið er að lagabálkurinn hafi verið saminn fyrir presta gyðinga og eigi því ekki við um hinn almenna safnaðarmeðlin. Einnig má þess geta að mikill hluti lagabálksins er felldur úr gildi í Nýja Testamentinu. Sem dæmi má nefna það að í lagabálkinum segir að ekki megi eta kanínur, úlfalda, svín og margar tegundir af fuglum og fiskum. Það þýðir að skinka er bönnuð, sem fæstir kristnir fara eftir, þar sem búið er að hreinsa saurugu dýrin í Nýja Testamentinu.

Mikið meira er hægt að segja um þetta svo sem það að lagabálkurinn hafi verið hluti af svokölluðum “Purity Code” sem var settur til að halda Ísrealítum frábrugðnum Kanaanítum, en Jesú neitaði og afskrifaði þennan “Code” og því fellur hann úr gildi.

Heimildir:

http://en.wikipedia.org/wiki/The_Bible_and_homosexuality
http://en.wikipedia.org/wiki/Leviticus_18#Homosexuality
http://www.snerpa.is/net/biblia/
http://www.gaysouthafrica.org.za/homosexuality/bible.asp