Trúleysingjar hafa verið til á eflaust öllum tímum mannkynssögunar. Í það minnsta hafa alltaf verið til einstaklingar sem ekki hafa fundið fyrir neinni trúarlegri þörf. Bara tekið þátt í athöfnum sem samfélagið krafðist.

Trú var í upphafi notuð til þess að útskýra hvernig og af hverju heimurinn virkaði. Hún útskýrði hvernig hann var skapaður, og hvers vegna dýrin hegðuðu sér á þann máta sem þau gerðu, hvaðan stjörnurnar komu og af hverju sólin reis á morgnanna.

Trú var einnig notuð til að útskýra hluti í samfélaginu. Hvers vegna voru til konungar? Jú, af því að guðirnir höfðu gert samfélagið þannig, þeir voru þarna af því þeir voru synir guðanna. Samanber Faróarnir egypsku.

Meira að segja hér í norðri ráku víkingakonungarnir ættir sínar aftur til Freys og Óðins, eins og sjá má á Heimskringlu. Á miðöldum sóttu konungar svo staðfestingu á valdi sínu frá Guði í gegnum krýningarathöfn þar sem erkibiskup, eða jafnvel páfi setti krúnuna á haus þeirra.
Það er spurning hvort að trú hafi verið útskýring til að byrja með eða hvort að hún hafi alltaf verið réttlæting á stéttaskiptingu.

Hún virkar þannig á Indlandi enn þann dag í dag. En meira að segja hér á Vesturlöndum var kristnin nýtt til þess að auka stéttaskiptingu, hvort sem það var markvisst eða ekki.
„Sælir eru fátækir.”
„Fyrir að ríkan mann að komast til himnaríkis er eins og fyrir úlfalda að komast í gegnum nálarauga.”

Kristnin var notuð til þess að segja fólki að það ætti að sætta sig við núverandi ástand og láta ganga yfir sig. Verðlaunin fyrir þjáninguna í lifandi lífi væri að sækja í himnaríki. Fátækt átti að vera eftirsóknarvert fyrirbrigði.

Að reyna að troða allri trúarsögu mannkynsins yfir í eina grein væri stórmennskubrjálæði. Ég læt því duga að segja þetta:

Oft hafa mjög trúaðir menn komið fram á sjónarsviðið sem barist hafa fyrir mannréttindum. Staðreyndin er þó sú að jafnvel þótt umburðarlyndi og góðmennska sé í forgrunni hér um bil allra stærstu trúarbragða heimsins í dag þá meðtaka þau ekki gagnrýni.
Þau gera það ekki sökum þess að þau kynna sig sem “SANNLEIKANN”.

Ég held ekki að Jesús hafi verið góð fyrirmynd. Eða sé það yfirhöfuð. Við getum rakið dauðadýrkun vestræns samfélags til hans. Er þetta nokkuð annað en önnur birtingamynd hermannsins sem á að fórna sér fyrir samfélagið. Dauði hans á móti frið og von.
En er dauðinn fagur?

Trúarbrögð halda því iðulega fram að okkar tilvera hér sé ekkert í samanburði við það sem sé í vændum. Að fórna sér er gert eitthvað fagurt. Hermenn bæði í múslimalöndum og hinum kristnu sækja réttlætingu gjörða sinna til trúar sinnar. Sjálfsmorðssprengjuárásarmenn jafnt sem ný-krossfarar.
Þetta er í raun ekkert annað en sóun, jafnvel synd svo maður nota trúarlegt hugtak. Að kasta lífum á glæ fyrir abstrakt hugtak er óréttlætanlegt og að halda því fram að maður komist til himna fyrir vikið er ekkert annað en illkvittin lygi.

Trúleysi er ekki lausn, en að trúa engu felur í sér að skoða allt gagnrýnið sama hvers eðlis það er og hugsa um það.

Er það ekki staðreynd að samfara því sem trúleysi hefur aukist hafa mannréttindi gert það. Trúlaus maður getur gagnrýnt samfélagið mun betur, hann getur spurt: Af hverju?

Ég vona að þessi æsingur trúmanna sem við erum vitni að í dag sé upphafið að dauðahryglum þessara fyrirbrigða sem kölluð eru trúarbrögð.