Hamas hefur sigrað í palestínsku kosningunum og mun mynda ríkssstjórn. Ég bendi á góða grein eftir Uri Avnery á heimasíðu Gush Shalom: http://zope.gush-shalom.org/home/en sem hann skrifaði fyrir um það bil viku,Pity The Orphan: http://zope.gush-shalom.org/home/en/channels/avnery/1137887117/. Í henni fjallar hann um mótmælagöngu í Bi’lin, þar sem friðarsinnar og fulltrúar allra stjórnmálaflokkanna, þar á meðal Hamas, marséruðu hlið við hlið til að mótmæla múrnum. Avnery sér þetta sem merki þess að Hamas geti tekið þátt í friðarumræðum og að það sé mögulegt að fá þá til að samþykkja friðarsáttmála.
Fréttaflutningur, viðbrögð ísraelskra ráðamanna og vestrænna stjórmálamanna er á sömu línuna. Mogginn notar gömlu þvældu tugguna um “harðlínumenn”, “öfgafulla múslima”. Orð sem eru útþynnt af ofnotkun, en þjóna þeim tilgangi að vera Grýla. Einnig er minnst á hryðjuverk Hamas.

Það gerir George Bush líka og heldur því fram að Bandaríkjastjórn muni ekki ræða við þá sem “hvetja til ofbeldis”. Ég held að stríðsæsingamönnum væri réttast að fara varlega í slíkar yfirlýsingar um aðra. Hér getur hann auk ekki „barist gegn hryðjuverkum“ ef hann vill líka halda á lofti merkjum „lýðræðis í Mið-Austurlöndum“. Sumsé, hafi einhvern skort frekari sannanir fyrir hræsni Bush, þarf hann ekki að leita lengra.

Vopnaður armur Hamas hefur sannarlega barist af mikilli heift og hefur líf margar saklausra Ísraela á samviskunni. Það sama má segja um Ísraelsher. Það er hins vegar nokkuð ljóst að ekki eru notuð sömu orð þegar þeir síðarnefndu eiga í hlut. Með þessum fyrirslætti hafa ísraelsk stjórnvöld einnig reynt að gera Hamas erfitt fyrir í kosningbaráttu þeirra og ýmsir Ísraelar hafa lýst andstöðu sinni við að “hryðjuverkasamtök” fái að taka þátt í kosningunum. Maður hlýtur að spyrja sig hversu lýðræðislegar kosningar það hefðu verið ef einum flokknum, sem hefur meirihluta fylgi, væri meinað að taka þátt.

Ísraelskir ráðamenn hafa löngum verið með fyrirslátt til að forðast friðarviðræður. Eins og Avnery bendir á í skrifum sínum, þá hafnaði Sharon viðræðum við Fatah, undir því yfirskyni að Abbas gæti ekki “tekist á við hryðjuverkaógnina”, um leið Sharon gróf sífellt undan Abbas, undi honum hvergi pólítisks ávinnings og stóð sjálfur fastur við útþenslustefnu sína. Sharon kvartaði svo yfir að “ekki væri hægt að ræða við neinn”. Sömu aðferð var beitt við PLO, þau voru líka flokkuð sem hryðjuverkasamtök.
Á sínum tíma leit svo Ísraelsstjórn á Hamas sem gott mótvægi við PLO, þáverandi „hryðjuverkasamtök“ og leit svo á að hægt væri að nýta sér Hamas til að beita þeim gegn PLO.

Hamas má helst þakka fylgi sitt því að þeir eru lausir við þá spillingu sem einkennir Fatah. Sökum árangursleysis Abbas, (þar sem Sharon á ekki lítinn þátt í máli), þykir Palestínumönnum einnig Fatah veik, að hún “sitji í Fílabeinsturninum” og horfi á, en hirði ekki um alþýðuna. Það virðist vera að Fatah hafi tapað tengslum við fólkið, í kjölfar ósigra. Hamas hafa fremur komið út í huga Palestínumanna sem fólkið sem gerir eitthvað, kannski að sumu leiti ekki ósvipað því hvað dró fólk að Sharon, að hann væri “sterkur og óbugandi leiðtogi” sem kvikaði ekki frá stefnu sinni.

Það er alvarlegt ef Ísraelsstjórn ætlar ekki að ræða við Hamas, nú þegar Hamas eru komin í stjórn. Það er líka alvarlegt ef þeir vilja ekki verða við kröfunni um að láta hina herteknu A-Jerúsalem af hendi, og að landtökubyggðir verði áfram á Vesturbakkanum. Olmert segist ætla að leggja einhverjar landtökubyggðir niður, en aðrar verða áfram og munu eflaust stækka, á kostnað lands Palestínumanna.
Það er hins vegar ekki síður alvarlegt ef Hamas ætlar sér ekki að ræða við Ísraela, og ef þeir halda áfram að afneita tilverurétti Ísraels. Ekki það að megi ekki færa góð rök fyrir því að leggja Ísraelsríki niður í núverandi mynd, sem var reist á landi Palestínumanna. Ákjósanlegast væri e.t.v. að Ísraelsmenn og Palestínumenn gætu lifað saman í einu ríki, jafn rétttháir. Með því að taka þátt í lýðræðislegum kosningum, byggðum á samþykkt sem náðist milli Palestínumanna og Ísraelsmanna með Oslóarsamkomulaginu, má hvort eð er færa rök fyrir að með því viðurkenni Hamas um leið tilvist Ísraels.
Ég tel að það sé góðs viti að Hamas hefji samstarf við Fatah. Abbas vill stjórna ferðinni í samningaviðræðum við Ísralsmenn. Þetta virðist fremur benda til að möguleiki sé fyrir hendi að Palestínsk yfirvöld verði tilbúin að setjast að samningaborðum. Mér virðist líka að í fjölmiðlum sé lítt litið á þær kröfur Hamas að Plaestínumenn endurheimti land sitt og fái að stofna sjálfstætt Palestínuríki með A-Jesrúsalem sem höfuðborg,altént í blöðunum. Verður þá RÚV að fá prik hjá mér fyrir að nefna þetta á vefnum.
Ljóst er að friðarviðræður verða flóknar, enda mismunandi sjónarmið sem þar munu mætast. Ekki er til dæmis að sjá að Olmert hafi tekið til greina rétt flóttamanna til að snúa aftur til heimkynna sinna. Því síður veit ég hvernig Hamas hefur hugsað sér það, eða hvort þeir myndu kyngja þeim bita að fá úthlutað landi miðað við Grænu línuna, til að stofna ríki Palestínumanna, eins og Olmert kveðst vilja. Það myndi þýða að Palestínumenn héldu eftir um 20% af upprunalegu landi sínu. Auk skoðana Hamas-liða vilja þeir að öllum líkindum ekki bregðast kjósendum sínum. En fyrst og fremst hljóta bæði Ísraelar og Palestínumenn að vilja frið, eftir stríð sem hefur varað í fimm kynslóðir, þó vandi geti verið að finna lausn sem báðir geta sætt sig við.
Það er skiljanlegt að Hamas leggi ekki niður vopn á meðan blóðugt hernám Ísarela heldur áfram. Þær hörmungar sem á báðum þjóðum hafa dunið má allar rekja til hernámsins og sívaxandi og fjöldgandi landtökubyggða. Hamas mun ekki hætta sínum árásum á meðan Ísraelsher heldur uppteknum hætti.
Slík einhliða skilyrði eru fáránleg sem „forsendur“ þess að friðarumræður geti farið fram, það er fyrirsláttur, til að hindra að friðarumræður geti átt sér stað. Vandamálið er hernámið sjálft.
Ef Ísraelar ætla að setja fram þessar kröfur til Palestínumanna, þá verða þeir að uppfylla kröfuna um að hernáminu ljúki. Nú ríður mest á að báðir aðilar verði tilbúnir að setjast að samningaborði og leitist við að finna friðsamlega lausn sem báðir geta sætt sig við. Báðir munu þurfa að slaka á og koma til móts við sjónarhorn hins. Ræðist þeir ekki við, verður enginn friður. En ljúki hernáminu ekki, verður í besta falli skammtíma vopnahlé, áður en næsta intifada brýst út.