Hvað er þágufallssýki? (Skv. ísl. orðab.): Tilhneiging til að nota þágufall í stað annarra falla. Mér dreymir í staðinn fyrir mig dreymir. Mér hlakkar í staðinn fyrir ég hlakka. Mér kvíður í staðinn fyrir ég kvíði. Honum langar í staðinn fyrir hann langar og þar fram eftir götunum.

Þessi þágufallssýki virðist vera mjög útbreiddur og smitandi sjúkdómur og hefur hún herjað á íslensku þjóðina og hrjáir nú mjög marga. Samt sem áður eru þessar örfáu sagnir sem ekki taka með sér þágufall tuggðar oní mann í grunnskóla svo maður beygi þær nú rétt og ef ég man rétt þá var ábyggilega 1/5 hluti samræmda prófsins í íslensku, sem ég tók, úr þessum fjárans sögnum. Af hverju stafar þá þessi málvilla?

Sumir vilja meina að það sé ekki lengur hægt að kalla þetta málvillu og telja þetta vera málbreytingu. Tungumálið okkar hefur einfaldlega tekið breytingum og við því er í rauninni ekkert að gera. Örfáir beygja þessar sagnir rétt og þeir halda kyndli gullfallega tungumálsins okkar á lofti. Brátt kulnar samt logi kyndilsins og gömlu góðu reglur móðurmálsins falla endanlega í valinn fyrir bévítans þágufallssýkinni sem er að tröllríða landanum. Nú hugsið þið með ykkur, “ja hérna hún stígur ekki í vitið þessi Ofurkusa, hlýtur að vera snargeðveik” og það má kannski segja það í vissum skilningi. Ég er “málfræðiofurnördi” og get ekki þolað það að íslenskan skuli vera að missa sérstöðu sína, samanborin við önnur tungumál, en sérstaða tungumálsins er einkum og sér í lagi flókin málfræði og flóknar beygingarreglur. Úff, þvílíkt nörd get ég verið, að heyra í sjálfri mér, en ég álít samt að við megum ekki leyfa tungumálinu að deyja út og þurfa síðan að lúta í lægra haldi fyrir blessaðri engilsaxneskunni því við erum aðeins örfá sem erum svo heppin að tala íslensku sem er án efa fallegasta tungumál í heimi. Útbreiðum því fagnaðarerindið. Varðveitum íslenska tungu.

P.S. Mér hlakkar til að fá viðbrögð frá ykkur… :)