Lögreglan og vopn framtíðarinnar Ég hef alltaf verið svona beggja blands um hvort eigi að vopna betur lögregluna á Íslandi. Nú þegar undirheimarnir verða harðari og erlend glæpasamtök eru að hefja starfsemi hér, hallast ég meira og meira að því að vopna lögregluna. Ég las nýlega grein úr tímaritinu “Lifandi Vísindi” sem heitir “Skjótið! En ekki til að drepa” og þar er talað um þróun vopna sem geta fellt andstæðinginn án þess að drepa hann. Lýst vel á það að vopna lögregluna á Íslandi með slíkum vopnum í framtíðinni. Aðal ástæðan fyrir því að það er verið að þróa þessi vopn er til þess að geta fellt andstæðinga án þess að drepa þá, þar sem dauðsföll leiða af sér meira ofbeldi, uppreisn og hörku. Jafnvel þó það sé gert af nauðsynlegum ástæðum þá getur mannsfall alltaf hvatt einstaklinga eða hópa til uppreisnar.

Í Bandaríkjunum falla þúsundir árlega vegna skotárása á milli hópa eða einstaklinga, á meðan lögreglan eykur hörku sína gerist hið sama hjá glæpagengjum. Þegar hermaður drepur borgara getur það hvatt aðra borgara til frekari uppreisnar, jafnvel þó aðgerð hermannsins hafi verið nauðsynleg. Verið er að þróa heilt vopnabúr nýrra vopna og ætla ég að fjalla aðeins um nokkur þeirra hér fyrir neðan. Þau eru þróuð á hernaðarlegum grundvelli og því kannski ekki öll æskileg fyrir lögreglu, en allavega sum þeirra ættu að nýtast lögreglu. Æskilegt væri að hafa skiptinguna þannig að lögreglan hefur aðeins vopn sem ekki drepa, á meðan víkingasveitin hefur áfram hefðbundin vopn.

Högg:

Riffillinn XM 29 er í þróun hjá bandaríska hernum, takmark hans er að fella andstæðinginn með höggbylgju án þess að drepa hann. Eitt hólf er með hefðbundnum kúlum á meðan annað er með nýjum 20 mm skotum sem valda höggbylgjunni. Kúlan springur rétt fyrir framan skotmarkið eða yfir því og fellur andstæðinginn til jarðar án þess að drepa hann.

Rafstuð:

Rafstuðbyssan Taser (skammbyssa með stuðpílum) virkar þannig að tveimur stuðpílum er skotið á rafþráðum í átt að óvininum, pílurnar þurfa ekki að snerta húð þar sem straumurinn fer nánast óhindrað í gegnum föt. Byssan dregur allt að átta metra. Sá sem fyrir skotinu verður, fær öflugt rafstuð og missir stjórn á vöðvum sínum í örstutta stund. Byssan er nú þegar komin í notkun hjá lögreglunni í ýmsum fylkjum Bandaríkjanna. Hægt er að fá slíka byssu fyrir aðeins tæpar 30.000 krónur og því eru slík vopn æskilegasti kostur fyrir lögreglu hér á landi. Einnig eru i þróun vatnssprautur sem leiða rafstraum í gegnum vatn.

Hiti:

Þetta tæki kallast “Active Denial System” sem nú er að verða fullþróað. Það skellir samþjappaðri örbylgjugeislun á húðina sem veldur óstjórnlegum sársauka, án þess þó að brunasár myndist. Þetta vopn má nota til þess að dreifa hópi fólks, t.d. þar sem mótmælendur eru eða hópslagsmál. Örbylgjunar má t.d. senda frá jeppa með búnaðinum á þakinu.

Hávaði:

“Long Range Acoustic Device” er eins konar öskurbyssa sem má beina að fólki í allt að 500 metra fjarlægð, það sendir frá sér svo hryllingslegan ýlutón að allir leggja á flótta. Framleiðandinn fullyrðir að vopnið valdi ekki heyrnasköddun sé því beitt á réttan hátt. Vopnið hefur verið prófað í Írak.

Raftækni:

Afar mikill hraði er á því að þróa uppfinningar á sviði raftækninnar, enda getur slík tækni verið mjög hentug. Hægt væri að lama rafeindabúnað með því að senda rafsegulgeisla í áttina að honum. Nánast allir bílar eru nú með sérstakan rafeindabúnað sem stjórnar innspýtingu eldsneytis. Hægt væri að drepa á vélinni með því að senda rafsegulgeisla í áttina að honum. Vegalokanir gætu verið útbúnar slíkum geislum, einnig yrði það hentugt tæki á lögreglubílum til þess að stöðva bifreið ökumanns sem neitar að stöðva bílinn. Þessi tækni myndi koma í veg fyrir stórhættulegu eltingaleiki sem verða stundum á milli afbrotamanna og lögreglunar. Einnig er í þróun svokölluð E-sprengja (E-bomb) sem sendir rafsegulbylgju yfir stórt svæði og lamar rafeindabúnaði á svæðinu. Hentugt fyrir bardagasvæði þar sem faratæki og vopn með rafeindabúnaði eru í notkun af óvininum.