Undanfarið hafa verið heitar umræður um ýmis mál. Fólk hefur verið bannað á Huga og greinar teknar út. Sumir vilja halda því fram að það sé verið að hefta málfrelsi þeirra sem skrifa á Huga. Mig langar aðeins til að ávarpa þetta mál.

Höfum það á hreinu að hér er enginn að tala svo að við sem skrifum á Huga heyrum ekki undir lög um málfrelsi heldur prentfrelsi. Eftirfarandi grein er tekin upp úr netlögbókinni

“Prentfrelsi er meðal stjórnarskrárverndaðra mannréttinda og er hluti af tjáningarfrelsi hvers manns. Hver maður á rétt á að láta í ljós hugsanir sínar á prenti. Þó verður hann að ábyrgjast þær fyrir dómi (- ærumeiðing). Ritskoðun og aðrar tálmanir á tjáningarfrelsi má aldrei í lög leiða. 73. gr. sts. Í þessu ákvæði stjórnarskrárinnar felst að ekki má fyrirfram banna manni að láta í ljós hugsanir sínar. Ákvæðið tekur til allra manna sem eiga heimili eða dvöl hér á landi hvort sem þeir eru íslenskir ríkisborgarar eða ekki.”

Þetta er afskaplega einföld reglugerð. Hún segir að það mega allir tjá skoðanir síðar svo lengi sem þeir geti staðið fyrir framan dóm og rökstutt þær. Eru allir hér tilbúnir til þess? Að birta eitthvað opinberlega sem maður hefur skrifað felur í sér mikla ábyrgð. Það sem einusinni hefur verið birt getur verið erfitt að draga til baka. Sumum virðist vera alveg sama hvað þeir láta flakka þegar þeir senda inn greinar eða álit. Sú ritstýring sem menn eru alltaf að blóta yfir getur því í mörgum tilfellum verndað menn frá sjálfum sér.

Reglugerðin segir líka að það megi ekki banna mönnum fyrirfram að láta sínar skoðanir í ljós. Vist er að enginn nær að lesa þær greinar sem eru skrifaðar á Huga áður en þær eru birtar. Í sumum tilfellum hafa greinar verið teknar út eftirá. Það má endalaust deila um sanngirni þess en það er nokkuð ljóst að það er ekki brot á neinum lögum eins og sumir hafa sagt.

Ég veit ekki hvað maður þarf að gera til að vera bannaður á Huga en það hlýtur að vera ansi mikið. Ég hef nú ekki skrifað mikið en ég hef lesið heilan helling af greinum og álitum Að mínu mati er fullt af fólki sem er inni á Huga bara til að móðga, hneyksla og særa aðra. Þetta er eins og fólkið sem fer í bæinn til að leita uppi slagsmál.

Mín skoðun:
Ef menn verða málefnalegri í greinum sínum, rökstyja mál sitt í stað þess að reyna að vaða yfir hvern annan þá verður minna um ritstýringu. Grein sem er vel skrifuð, úthugsuð og rökstudd er líklegri til að ná athygli, vekja umræðu og verða höfundi til framdráttar. Það sama má segja um álit og gagnrýni þeirra sem svara.

Þetta er umræðuvefur og menn eru ekkert sammála um alla hluti. þannig á það að vera en það er ekkert leiðinlegra en að lesa umræðu þar sem skítkast vegur meira en málefnin. Það erum við sem mótum samfélagið á vefnum. Hvernig viljum við hafa þetta?