[ATH! Þegar ég tala um "þjóðernissinna" í eftirfarandi grein á ég ekki við þjóðernissinna í réttum skilningi orðsins, heldur sívaxandi hóp fólks í íslensku þjóðfélagi sem kennir sig við þessa þjóðernishyggju, í 95% tilfella á röngum forsendum. Ég nenni ekki að starta einhverjum leiðindum þannig að ég leyfi þeim bara að njóta vafans og nota því þetta nafn á meðan ég leita að betra orði (öðru en rasista) ]

Svo virðist sem svokölluð þjóðernishyggja eigi vaxandi fylgi að fagna hér á landi, allavega hefur orðið sýnileg aukning á fylgismönnum hennar í umræðunni. Það að fylgi “þjóðernishyggjunnar”, sem hér er að ryðja sér til rúms, fari vaxandi er að sjálfsögðu miður þar sem að það sem almenningur er látinn halda að þjóðernishyggja snúist um er hreinn og beinn rasismi.

Mörgum er því miður ófært að sjá í gegnum málflutning þjóðernissinna, og ganga jafnvel til liðs við þá. Það eitt og út af fyrir sig er alveg ótrúlegt, þar sem rökflutningur þjóðernissinna byggist að mestu á útúrsnúningum og ábendingum um skort andstæðinga sinna á rökfærslum. Það er reyndar kannski ekki alveg sanngjarnt að alhæfa svona, þar sem að einhverjir þjóðernissinnar eru eflaust ágætustu einstaklingar, þó þeir stigi ekki beint í vitið.

Helsta einkenni íslenskra “þjóðernissinna” er afneitun. Þjóðernissinninn segist ekki vera rasisti. Þjóðernissinninn vill setja strangari löggjöf um innflutning útlendinga. Ef þetta væri öll sagan væri það út af fyrir sig ágætt. En hinn íslenski þjóðernissinni vill endilega tengja þetta við litarhátt, og snýr annars ágætri (með vissum formerkjum) hugmynd upp í hreina og beina kynþáttafordóma. Mótsögnin hreinlega öskrar framan í mann.

Sjálfur er ég fæddur og uppalinn Íslendingur, og er stoltur af landi mínu og sögu þess. Ég vil halda uppi hinum ýmsu gildum sem einkenna íslenska menningu rétt eins og hver annar. Ég vil líka að þjóðfélagið haldi áfram að þróast, og um leið og gömlu gildin fara að hamla þróun er ég reiðubúinn að endurskoða afstöðu mína með hag nútíma íslendingsins, sem og íslendinga framtíðar, í huga. Í íslenska menntakerfinu er þó nokkuð lagt upp úr fræðslu um íslenskan menningararf, án þess þó að íslendingar séu beint að springa úr visku um forfeður sína, svo vægt sé til orða tekið. Íslendingar læra um alíslensk gildi og þeim er kennt að vera stolt af landi og þjóð. Það er þó greinilega eitthvað að klikka í þessari fræðslu fyrst að svona margir eru tilbúnir að snúast á sveif fordóma og grunnhyggni gagnvart öllu því sem ekki er íslenskt, í það minnsta ekki hvítt.

Menningararfur okkar íslendinga er einn sá merkilegast á vesturlöndum, og er þjóðernissinnum tíðrætt um hann, enda getum við öll verið stolt af honum. En á sama tíma eru einstaklingar innan þjóðfélagsins sem vilja að við einangrum okkur frekar og að þjóðfélagið verði einsleitt. Menningarlega séð erum við frekar döpur í dag, og með aukinni stöðnun sjáum við ekki fram á bjarta tíma, hvorki í listum né öðru. (Ég á líka stundum bágt með að trúa því að FÍÞ sé annt um íslenskt mál þegar ég sé þessi málfræðilegu stórslys sem þeir kalla greinar..)

Hvað atvinnulífið varðar eru innflytjendur oft sakaðir um að bókstaflega stela störfum af íslendingum sem eiga þau frekar skilið. Í mörgum tilfellum eru það ómenntaðir íslendingar sem eru “of góðir” til að vinna við ræstingar eða fiskvinnslu, sem hámenntaðir útlendingar vinna svo við á lúsarlaunum. Þeir borga skattana sína eins og hver annar, og hafa það oft skítt. Samt eru það íslendingarnir sem væla. Hverjir eru það eiginlega sem eru latir ? Sá þjóðfélagsþegn sem vinnur fyrir sér, borgar skattana sína og fylgir lögum er jafngildur og hver annar, sama hvort hann er fæddur í Asíu eða á Ísafirði, sama hvort hann talar íslensku eða ekki.

Við erum nú ekki rosalega þróuð þegar okkur megin tekjulind hefur verið sú sama í 1100 ár, og við stöndum bókstaflega og föllum með henni (auk duttlunga Dabba kallsins ;). Hvernig væri nú að flytja inn smá þekkingu? Við gætum jafnvel boðið þeim fjölmörgu menntuðu innflytjendum sem þegar eru hér mannsæmandi störf. Það eru ekki innflytjendur sem eru til vandræða, það eru þjóðfélagsaðstæðurnar sem þvinga þá í láglaunastörf og hark. Það er almennur skortur á fræðslu, sem aftur leiðir til breytingar á hugarfari, sem gerir það að verkum að innflytjendur hafa slæmt orð á sér. Það er vandræðagangurinn í okkur íslendingum sem veldur því að þeir hafa ekki það sem þeim ber.

Ég á bágt með að skilja það hvernig hægt er að halda því fram að “svertingjar í Afríku” séu latir bara af því þeir eru bláfátækir en búa samt í löndum þar sem allar aðstæður til landbúnaðar eru eins og best verður á kosið. Ennþá skrýtnara er að heyra þetta úr munni vesturlandabúa, en við erum einmitt þeir sem halda þessum ríkjum niðri, okkur sjálfum til framdráttar. Himinháir tollar og niðurgreiðsla innlendrar framleiðslu gerir það að verkum að íbúar þróunarlanda eiga erfitt uppdráttar í útflutningi, og guð veit að fæstir þeirra fara mikið út í búð og kaupa í matinn. Á maður að halda að þeir hafi það svona slæmt af því þeir NENNA ekki að gera neitt í því? Ef þeir sætu við sama borð og aðrar þjóðir (þ.á.m. Ísland) skal ég lofa þér því að þær væru að gera það mjög gott.

Það er kominn tími á að ranka við sér og átta sig á því að það er ekki lengur hægt að vera eitthvað að væflast í nútímaþjóðfélagi. Allir eiga sér sama rétt, og ef þú vilt ekki vinna við það sem þér býðst, þá kemur einhver annar og tekur starfið, og það er alveg ótengt þjófnaði af nokkurri gerð. Ekki láta slá ryki í augun á þér með einhverjum órökstuddum alhæfingum um innflytjendur byggðar á getgátum og útúrsnúningum.