Nýjasta trompið niður úr ermi hins ermalausa stuðmannahóps er okkar “ástsæla” Hildur Vala, hin stórkostlega ædolstjarna 2005(heimild: Jakob Frímann Magnússon). Það kemur mér reyndar ekki mjög mikið á óvart að Hildur Vala komi til með að vera mjög áberandi á komandi sumri, en ég átti ekki von á að sökkvandi stuðmannahópur reyndi að halda sér á floti með því að draga hana með sér um landið í sumar…

Ok, nú má enginn misskilja mig! Ég fíla Stuðmenn ehh .. ja .. svona sæmilega, en stundum hefur mér fundist eins og að þeir væru að detta uppfyrir. Stuðmenn eru búnir að vera lengi að og óstaðfestar dylgjur hafa verið á kreiki um að Ragnhildur Gísladóttir sé orðin of þreytt til að halda áfram með þeim (heimild: vinnustaðakjaftasögur, óstaðfestar). Reyndar heyrði ég samt síðast í morgun, Þriðjudaginn 12. Apríl, að hún hefði bara þurft á smá svigrúmi að halda í sumar vegna anna á öðrum vettvangi (heimild: Jakob Frímann Magnússon).

Enn fleiri kjaftasögur hafa gengið um að stuðboltinn Egill Ólafsson sé ekki beint að fylgja takti með sveitinni (heimild: kaffihúsakjaftæði.) og sé kominn í afvötnunarfrí á Spáni (maður á alls ekki að trúa öllu sem maður heyrir, en samt hefur maður enga heyrt hrekja þessar sögusagnir ennþá). Sannarlega finnst mér það góðar fréttir ef nýja ábótin reynist vera þessi umtalaða tónlistargyðja okkar Íslendinga.

Það mun líka reynast Stuðmönnum mikill happadráttur og það mun auka hlustun og auka aðsókn á tónleika þeirra sem og böll í sumar því það eru mjög margir ungir aðdáendur hennar sem munu flykkjast um Stuðmenn ef “ædolið” þeirra er í þessum hópi. Þeir kunna að bjarga sökkvandi skipi þessir gömlu brúsar í tónlistarbrasanum – hver er heitastur í dag – draga hann/hana inn í sumarferðalögin og bjarga eigin frægð – en auðvitað upphefja nýjustu ábótina til enn frekari frægðar um leið!

Ef Hildur Vala verður hin nýja “Ragga Gísla” þeirra Stuðmanna í sumar, (heimild: J.F.M.), þá er næsta víst að ég mun reyna að komast á sem flesta tónleika og böll sem Stuðmenn halda á hringferð sinni um landið!

Ég er handviss um að ferðalag með þessum reynda og fjörmikla flokki muni reynast Hildi Völu gott veganesti inn í heim tónlistar og jafnvel kvikmynda. Hún á eftir að ná sér í mjög mikilvæga reynslu hvað varðar sviðsframkomu, skemmtannahald, úthald og viðmót landans á örugglega eftir að vera henni styrkur á framabrautinni eins og viðmótið hefur verið í ædolinu.

Einnig mun þetta hjálpa henni til við sölu og auglýsingar á eigin tónlist í framtíðinni – að mínu mati. Þetta ævintýri mun líka þjálfa þessa ungu stjörnu upp í það að verða stórstjarna – og ég er viss um að hvert einasta heimili mun eiga disk með lögum Hildar Völu eftir þetta tónlistarsumar. Húrra fyrir Stuðmönnum að gera út á nýjasta æði landans og húrra fyrir þeim að sjá hvaða stökkpallur Hildur Vala er fyrir þá.

Kveðja:
Tigercop með vangaveltur um að fara að byrja á að fara á tónleika og dansiböll með Stuðmönnum í sumar – og skemmta sér þokkalega vel um leið og hann nýtur þess að horfa á og hlusta á hina glæsilegu Hildi Völu. Margar flugur í sama höggi – heill hópur af stuðmönnum og trompið H.V.