Í gær greiddi ég þúsund krónur inn á reikning númer 833 í spron. Nú þegar hafa 2000 manns lagt pening inn á reikninginn og því er kominn dágóður slatti af pening.
Einnig er hægt að hringja í síma 902-0000 til að leggja inn pening.

En í hvað á að nota þennan pening?

Þessi peningur rennur í auglýsingu í New York Times sem kynnir bandarískan almenning fyrir staðreyndum. Það er staðreynd að fjórir af hverjum fimm íslendingum eru á móti stríðinu í Írak. Þessa grein sendi ég ekki hingað til þess að koma deilum af stað um hvort stríðið sé réttlætanlegt. Þótt að ég sé fús í að deila við hvern sem er um það.
Ég held að við getum öll verið sammála um það að í lýðræðisríki, þá eigi tveir menn ekki að geta ákveðið svona. Hér nutu þeir ekki einu sinni stuðning flokka sinna. Þeir spurðu engan álits bara framkvæmdu. Og þegar tilkynnt var um þáttöku Íslands í stríðinu var það tilkynnt í Washington en ekki Reykjavík.
Fyrir utan að skapa hættu fyrir Íslendinga í útlöndum þá er þetta mikil synd. Á sínum tíma voru Íslendingar ekki stofnmeðlimir í sameinuðu þjóðunum því við vildum ekki lýsa stríði á hendur Þýskalandi eða Japan. Okkur fannst kjánalegt að vera í stríði, við vorum hlutlaus, friðsæl þjóð, og það jafnvel þótt að stjórn sjálfstæðismanna væri við völd.

Það má velta fyrir sér hvort að peningunum hefði ekki verið betur varið í hjálparstarf út í heim. Sjálfur hef ég gefið 10.000 krónur í annað hjálparstarf svo ég hef lagt a.m.k. eitthvað fram í þeim efnum, þótt þetta sé auðvitað hlægilega lítill peningur. En ég lofa því að þegar ég verð ekki lengur fátækur námsmaður þá muni ég gefa meira.
Ég tel að þessum pening sé vel varið því með honum fræðum við útlendinga um það að Ísland er herlaust land sem vill engum illt og er í raun ekki í stríði við neinn sama hvað ráðamenn hafa gert. Undir stjórn Davíðs höfum við í fyrsta sinn tengst stríði, og það þrisvar. Kosovo, Afganistan, Írak.
Ísland græðir mest á því að vera hlutlaust land. Eigum við einhverja óvini yfir höfuð.

Svo ég hvet alla til að leggja einhvern pening fram, ef þeir eru á annað borð sammála mér og sýna Davíð hvar hann keypti ölið!