Á undanförnum 3 árum hef ég tekið eftir æ meiri vanvirðingu gagnvart íslenskri tungu, málfræði og stafsetningu. Svo mikil er þessi vanvirðing orðin að ég get ekki verið afskiptalaus lengur, og skrifa ég hérmeð þennan greinarpistil.

En nákvæmlega hvaða vanvirðingu er ég að tala um? Er ég að tala um það hvernig útlensk nýyrði eru innlimuð í íslenskuna, eins og t.d. orðið “sjítt” hefur gert samkvæmt nýjustu útgáfu hinnar Íslensku Orðabókar? Ef málið væri bara svo einfalt. Innlimun erlendra orða hefur komið fyrir áður, og mun koma fyrir aftur. Þetta er venjulegt einkenni hjá sérhverju tungumáli heimsins: Þau þróast. Þegar fréttamenn Stöðvar 2 tala um að hlutirnir séu “í pípunum” þá eru þeir ekki að fara með íslenskt mál, heldur eru þeir að snara ensku/bandarísku orðalagi yfir á íslensku. Mér finnst það persónulega hljóma fáránlega, og myndi frekar kjósa að nota orðatiltækið “að vera í réttum farvegi” eða “að málið sé á döfinni” en ég er víst bara svona ótrúlega gamaldags, þrátt fyrir ungan aldur.

Er ég þá kannski að tala um hversu mikið af enskuslettum eru notaðar í daglegu máli? Að einhverju leyti. Ókei eða bara “OK” er algengasta (útl)enskuslettan sem töluð er á Íslandi í dag (reyndar á ég eftir að gá hvort því orði hafi verið bætt við í Íslensku Orðabókina) sem er fullkomnlega skiljanlegt að sé til staðar. Allir skilja orðið, og það er mun fyrirferðarminna en hið gamla orðtak “Allt í lagi”. Það sem ég er að tala um eru enskuslettur sem eru einungis notaðar vegna fávissu og leti. Langbesta dæmið um þetta er einmitt auglýsingarslagorð Símans til margra mánaða, “Við hjálpum þér að láta það gerast”. Þegar ég las þetta fyrst sá ég strax að eitthvað var bogið við slagorðið, og þegar Hallgrímur Helgason skrifaði um þetta í Morgunblaðinu nokkrum dögum síðar, þá sá ég að ég hafði á réttu að standa. “Að láta e-ð gerast” er kolvitlaus íslenska. Þetta er ekkert meira en bein þýðing á ensku setninginni “We help you make it/things happen”, sem þrátt fyrir að vera mjög fleyg setning, gefur Símanum enga ástæðu til að halda áfram að nota hana. Þetta er alveg eins og að segja “Við hjálpum þér að láta hlutina ske”.

(Á þeim nótum, af hverju er slagorðinu ekki breytt? Ekki getur það verið vegna fjárskorts, þarsem Síminn er ein mesta einokunarstofnun landsins og var metinn á heila 40 milljarða fyrir ekki svo löngu síðan. Hvað er það þá? Stoltið? Hvaða stolt á fyrirtæki eftir sem lét gjaldkera ræna af sér mörg hundruð milljónum og sætir sifellt háværari gagnrýni frá netnotendum landsins?)

Viljið þið meira? Hlustið á fréttatíma hjá Stöð 2 í eina viku eða svo (ef þið hafið tíma, hlustið líka á þvæluna sem veltur uppúr fólkinu í morgunsjónvarpi Stöðvar 2), og takið sérstaklega eftir fréttum úr viðskiptaheiminum og/eða tækniheiminum. Þegar Stöð 2 tók viðtal við einn af aðstandendum DVD Kids-apparatsins vegna samnings við Disney-samsteypuna, þá talaði hann um “prossess” (eða var það “prodjekt”?) og “læsens”, svo eitthvað sé nefnt. Seinast þegar ég vissi eru til íslensk orð yfir alla þessa hluti, hvort sem það eru ferli, verkefni eða réttindi. Ég skil fullkomlega að einstaklingur sem vinnur við það eitt að eiga samskipti við erlendar viðskiptasamsteypur skuli frekar nota erlend heiti yfir sum hugtök frekar en þau íslensku í vinnunni, en þarf hann líka að gera það utan hennar? Getur hann ekki í það minnsta reynt að tala íslensku?

Nýleg auglýsing frá Eimskip vakti sömuleiðis athygli mína, þarsem Eimskip kynnti hið nýja skipulag útflutningsþjónustu sinnar, en henni skiptu þeir í fernt: Innanlands, Shipping, Logistics og International. Ég veit að Eimskip starfar jafnt í útlöndum sem á Íslandi, en gat hið áðurnefnda óskabarn þjóðarinnar ekki séð sér fært um að kynna þessar þjónustuleiðir sínar á íslensku fyrir okkur Íslendingana? Að snara þessum þremur orðum yfir á íslensku fyrir landann? Letin og skeytingarleysið sem þessi auglýsingarherferð sýnir Íslendingum útskýrir kannske best af hverju Eimskip er ekki lengur kallað óskabarn þjóðarinnar.

En versti sökudólgarnir eruð þið, hinir íslensku netverjar, enda er það þessvegna sem ég sendi þessa grein á Huga.is, þar sem hún mun hitta beint í hjartastað. Hvergi annarsstaðar sé ég meira drullað yfir íslenskuna heldur en hérna. Hérna er ekki bara notast við erlend orð frekar en þau íslensku, hérna eru ekki bara skrifaðar setningar sem eiga ekkert sameiginlegt með íslenskri málfræði, heldur er stafsetningin sömuleiðis látin fjúka um veður og vind. Þegar ég les langflestar greinar á Huga.is sé ég engan áhuga fyrir innihaldi hverjar greinar fyrir sig, enga ástríðu í umræðum um heitustu málefnin og engan metnað í greinarhöfundum. Ég sé áhuga, ástríður og metnað drukkna í Fávissu, Vanþroska, Leti og Athyglissýki. Meirihluti ykkar getur (vonandi) skrifað hvað það sem þið skrifið venjulega á Huga á fullkomnlega góðri íslensku, í það minnsta mjög nálægt því, en í stað þess að eyða smástund í að athuga hvort skrif ykkar séu læsileg (hvað þá skiljanleg) þá nennið þið því einfaldlega ekki! Og síðan eru sumir hér sem skrifa vitlaust viljandi til þess eins að þykjast vera svalir eða átaldir einhverjir snillingar eins og Laxness greyið. Þið munuð læra það fyrr eða síðar, að þessi fjögur atriði sem ég taldi upp hér að ofan eru ekki eftirsóknarverð í fari neinnar persónu. Það er eins og sú einfalda staðreynd að á Huga.is ríki notendanafnleynd, gefi ykkur frelsi til að hunsa allar reglur. Að láta eins og smábörn.

En á meðal hinna raunverulegu netbarbara Huga.is eru sumar sálir sem eru einfaldlega að gera sitt besta og eru samt að fá hérna skammir frá mér að óþörfu, t.d. fólk með mjög slæma lesblindu. Það væri draumaheimur ef að allir gætu skrifað fullkomna íslensku alla tíma sólarhringsins, en ég neita að trúa því að Hugi.is sé skálkaskjól lesblindra á Íslandi. Mörg ykkar geta gert betur, en sjáið ykkur einfaldlega ekki fært að gera svo. Ykkur finnst það nægilegt að þið séuð skiljanleg. Þegar þið reynið ekki betur heldur en að uppfylla lágmarksskilyrðin í skiljanleika, þá má gera ráð fyrir því að þið munuð láta lágmarksskilyrðin nægja á öðrum sviðum lífsins. Látið þið eina fullnægingu nægja fyrir ykkur, eða viljið þið fleiri? En hvað finnst bólfélaganum/félögunum?

En það sem á eftir að angra mig mest varðandi þetta allt saman, er að meirihluta ykkar stendur nákvæmlega á sama um þetta. Annars væru sjónvarpsmenn ekki að notast við svona margar enskuslettur, íslensk stórfyrirtæki nenntu ekki að þýða auglýsingarnar sínar á íslensku, Hugarar væru ekki álitnir sem vanþroskuð smábörn og ég þyrfti ekki að sparka í hinn íslenska afturenda á ykkur öllum með þessari grein. Ég er ekki að tala um að bjarga íslenskunni svo mikið sem ég er einfaldlega að biðja ykkur að vanda ykkur aðeins meira. Þið kunnið íslensku, er það ekki? Notið hana þá, og eins vel og þið getið!