Nú síðustu daga hefur þetta áhugamál verið virkara en nokkru sinni fyrr og er ekkert nema gott um það að segja. Aftur á móti eru umræðurnar hérna að ná lægra plani en nokkru sinni fyrr og er það mjög slæmt. Því ætla á að reyna að breyta með virkari ritskoðun en fyrr. Hér á eftir eru því nokkrir punktar um hvað sé illa séð á áhugamálinu og hvað sé vel séð.

- Haldið umræðum um sama efni á sama stað
Ef send er inn umdeild grein þá ber að deila um hana í svörum við henni en ekki í korkum í kringum hana eða nýjum greinum. Ég vil því ekki fá nýjar greinar sem bera titilinn “Andsvar við ‘hinni greininni’”.

- Innihald svara
Svör við greinum eiga að innihalda eitthvað. Stutt einnar línu svör með bröndurum sem tengjast efninu lítið og svör sem segja ekki neitt eru illa séð. Það má lesa út úr þessu að illa séð sé að senda inn “ég er sammála” svör en meira lýsandi væri að segja að “ég er ósammála” svör séu illa séð. Reynið að minnsta kosti að láta einhver rök fylgja með.

- Órökstutt bull
Órökstuddu bulli verður eytt. Hvað er órökstutt bull get ég ekki sagt ykkur. Prófið ykkur bara árfam. Ef þið sjáið að svari ykkar var eytt fóruð þið yfir strikið og þá skuluð þið læra af því og gera það ekki aftur.

- Persónulegt skítkast
Hatir þú einhvern er það þitt mál. Hati einhver þig er það hans mál. Hatið þið hvorn annan er það ykkar mál. Eitt er víst að okkur er alveg sama. Þetta hatur á því ekki að koma fram í opinberum umræðum. Rakkið hvort annnað niður í einka-skilaboðum til þess eru þau.

- Undirskriftir
Undirskriftir sumra eru farnar að fylla heilu blaðsíðurnar og heyrir til undantekning að þessir sömu einstaklingar skrifi svar sem er lengra en undirskriftir sínar. Þetta gerir ekkert annað en að fylla upp dýrmætt skjápláss, þreyta “skrollandi” löngutangir og draga athygli frá umræðunni. Því ætla ég að gerast svo djarfur að eyða öllum svörum með fáránlegar eða óviðeigandi undirskriftir og mun þá skipta litlu hvað sjálft svarið innihélt.

- Hvað er grein og hvað er korkur
Grein er eitthvað sem birtist á forsíðu, korkur ekki. Greinar eru því víðlesnari en korkar og ættu að vera vandaðari ritsmíð bæði hvað efnistök og málfræði varðar. Þetta þýðir þó ekki að greinar þurfi að vera marga blaðsíðu ritgerðir. Krafan er bara sú að hún sé um eitthvað og taki á áhugaverðu málefni. Einnig ber að geta þess að svörum sem segja að ákveðin grein sé korkamatur verður eytt. Ef þið viljið kvarta skuluð þið senda þeim sem samþykkti greinina skilaboð.

- Afvegaleiðing umræðna
Í þræði á að ræða um efni þráðarins. Umræðum sem stefna á villigötur, út frá upphaflega umræðuefninu, verður læst.

- Stjórnarskrá huga
Hlýðið þessu!

Orðið bannað er viljandi ekki notað hér þar sem undantekningar verða á öllu en viljið þið vera örugg skuluð þið halda ykkur innan þessa ramma. Ef þið hafið eitthvað við þetta að athuga núna megið þið rökræða í þessari grein. Ef þið hafið eitthvað við þetta að athuga síðar skuluð þið rökræða við mig í skilaboðum.