Síðustu dagar hafa verið blóðugir í Írak, hálfgerð uppreisn er hafin og bandaríkjaher hefur þurft að draga sig frá ákveðnum svæðum.
Fjölmiðlar hafa birt mjög “tregar” fréttir af þessum atburðum, CNN segir aðeins frá fjölda bandarískra hermanna sem látast en aðrir evrópskir fjölmiðlar, s.s. mbl, segja frá fjölda Íraka sem hafa látist, sem eru um 10 sinnum eða jafnvel 20 sinnum fleiri en bandaríkjamenn.

Mikil umræða er að myndast í BNA um þetta, og eru menn byrjaðir að kalla þetta annað Víetnamstríð.

Persónulega hef ég alltaf litið á Íraksstríðið sem tilbúningarstríð sem var algjör óþarfi. Nú þegar ár er liðið frá innrásinni hefur ekkert fundist af þessum gereyðingarvopnum og hafa flestir stjórnarherrar í BNA játað að sönnungargögnin hafi e.t.v. verið ófullnægjandi.

Nú spyr ég, hvað er hægt að gera í írak? Af hverju eru vestrænir herir þar? Höfum við einhverja ákveðna ábyrgð að koma Írak á réttan kjöl, koma á þar einhverri stjórn og reglu?

Erum við þarna útaf olíunni? Og hvað ef það verður allsherjaruppreisn í Írak og herinn flæmdur burt, og aðilar sem taka við stjórnvölin sem eru e.t.v. verri en Saddam. Svo ákveða þessir aðilar kannski að neita að selja þeim ríkjum sem stóðu að innrásinni Olíu. Það er alltaf mögulegt, BNA beitir viðskiptaþvingunum á hvaða lönd sem er sem lúta ekki þeirra vilja, það gæti vel hugsast að lönd einsog Írak muni beita bna olíusölubanni.

Írakar hafa verið “frelsaðir” af einræðisstjórn Saddams, og hafa nú verið hersetnir í meira en ár og munu verða hersetnir áfram. Hvað á venjulegur íraki að hugsa þegar land hans hefur verið hersetið af erlendum her og ástandið hefur ekkert annað en versnað síðan sá her kom.

Að vera hersetinn, stjórnaður af öðrum en sjálfum sér, er e.t.v. það versta. Ímyndum okkur að Tyrkland myndi senda her til Íslands og hersetja landið, til að koma upp þeirra menningu hér og þeirra sýn á því hvernig stjórna eigi ríki.


Innrásarherinn er greinilega óvelkominn, en reynir samt að gera sig velkominn. Sem minnir mig á t.d. her þýskalands í síðari heimstyrjöldinni, sem reyndi að gera sig velkominn þar sem hann var óvelkominn.