Ágætu lesendur.

Hér fer á eftir texti sem letraður er á skilti í flugstöð Leifs Eiríkssonar og hefur lengi valdið mér heilabrotum. Mun ég gjarnan þiggja aðstoð ykkar við að túlka það sem hér stendur. Þó mun ég sjálfur gera til þess lítilmótlega tilraun enda hef ég nokkrum sinnum starað á þetta snilldarverk í leit að merkingu. Textinn er sem hér segir:

?Tollreglur

Ferðamenn athugið:

Aðeins þeir sem hafa tollskyldan farangur meðferðis eða
farangur, sem háður er innflutningstakmörkunum eða banni,
skulu ganga um tollhlið merkt rauðu skilti. Öllum öðrum
farþegum ber því að fara um hlið merkt grænu skilti.

Farþegar mega hafa án greiðslu aðflutningsgjalda

undir 21%
eða 2 lítra af víni undir 21%
1 pakkalengju vindlinga eða 250 g annað tóbak.
Lágmarksaldur til innflutnings áfengis er 20 ár og
Börn yngri en 12 ára njóta hálfra réttinda.

Innflutninsbann og takmarkanir:

1. Ávana- og fíkniefni.
2. Lyf umfram hæfilegt magn til persónulegra þarfa
far eða ferðamanna.
3. Skotvopn, skotfæri og sprengiefni.
4. Lifandi dýr.
5. Radíósendar, talstöðvar og viðtæki sem ekki eru ætluð til
almennrar útvarpsviðtöku.
6. Ósoðið kjötmeti og kjötvörur ýmiss konar t.d. þurrkað
kjötmeti, ósoðin reykt svínslæri, beikon, svínahryggir, reyktar
ósoðnar pylsur, ósoðnir fuglar og fuglainnyfli fersk eða fryst,
innmatur, svið og blóð.
7. Smjör, ósoðin egg, eggjaduft og sykraðar eggjarauður.
8. Ósoðin mjólk.?

Svo mörg voru þau orð.
Og nú að merkingu textans…

Það vefst svo sem ekki fyrir mér að í fyrstu málsgrein fólki leiðbeint um það hvort hliðið það á að nota ef það ætlar að smygla. Með öðrum orðum það græna fyrir smyglara og hið rauða fyrir heiðarlegri hluta þegnanna. Þess ber reyndar að geta að aldrei hef ég séð nokkurn mann nýta sér þjónustu rauða hliðsins?

Og nú taka málin heldur betur að flækjast: ?Farþegar mega taka með sér undir 21%?. Hvað er 21% ?? Ekki er það vín eða hvað því svo heldur setningin áfram: ?eða 2 lítra af víni undir 21%? Kannski er þetta ostur? 21% feitur gauda ostur eða jafnvel bara skólaostur? Eða ef til vill 21% vextir, jafnvel dráttarvextir? Það verður bara gæta þess að þetta sé örugglega UNDIR 21%. Ég spurði eitt sinn (af barnslegri einlægni minni) einn tollvarðanna að því hvað verið var að meina. Hann svaraði drýgindalega (eins og þeir sem innvígðir eru og vita meira en við hin) að ég yrði bara að lesa skiltið. Ef einhver ykkar lesenda sér heila brú í þessari setningu þá óska ég vinsamlega eftir útskýringu hér og nú.

Enn víkjum við að textanum og nú snýst hann um tóbak: ?1 pakkalengju vindlinga eða 250 g annað tóbak?. Nú spyr ég… hvað má pakkalengjan vera löng? Má hún til dæmis vera þrír metrar? Svar óskast.

Loks er í þessari málsgrein lögð áhersla á það að ?börn yngri en 12 ára njóta hálfra réttinda.? Hmm, mega börn yngri en tólf ára þá taka með sér hálfa pakkalengju vindlinga (til dæmis eins og hálfs metra lengju)? Eða má hálfpartinn níðast á þeim á tollafgreiðslusvæðinu. Ég vona að hér sé ekki verið að tala um til dæmis mannréttindi eða ökuréttindi. Sem fyrr óskast svar.

Nú kemur afar skemmtileg upptalning þar sem vikið er að ýmsum hlutum sem ekki má flytja inn. Ekki má flytja inn fíkniefni og það er vel. Farmenn mega taka með sér það magn af lyfjum sem þeir telja eðlilegt til persónulegra þarfa. Einu máli virðist gilda hvort þeir hafa lyfseðil fyrir lyfinu eða ekki enda ef til vill ekki hægt að gera kröfu um það að fólk ferðist með lyfseðla hingað og þangað.

Ekki er leyfilegt að flytja inn skotvopn. Hmmm sprengjuhótunarflugvélin (eða öllu heldur aðstandendur hennar) sem lenti hérna um daginn hefur heldur betur verið í vondum málum þegar tvö tonn af vélbyssum fundust í lestinni. Hvað eru tvö tonn af vélbyssum eiginlega margar byssur? Að minnsta kosti þúsund stykki!

Samkvæmt fjórðu grein er ekki leyfilegt að flytja inn lifandi dýr. Nú já, það er þá í lagi að flytja inn dauð dýr?!

Fimmta grein útilokar innfluting radíósenda og viðtækja sem ekki eru ætluð til almennrar útvarpsviðtöku. Ég vil þá benda öllum sem ganga með GSM síma í gegnum tollhliðið að þeir eru að brjóta í bága við reglurnar sem settar eru fram á þessu ágæta skilti.

Grein númer sex meinar fólki að flytja inn nánast alla íhluti lifandi vera. Þar má meðal annars nefna kjöt, innmat, svið, blóð og fuglainnyfli virðast vera hinum ókunna skiltagerðarmanni sérstaklega hugleikin. Nú spyr ég: “Hver í ósköpunum myndi flytja INN svið til Íslands?” Ég veit ekki betur en hér séu heilu sviðahaugarnir á hverju hausti og útlendingar taka andköf þegar þeir heyra af þessari frummensku að borða brennda hausa. Blóðinnflutningur er líka sjálfsagt ekki hvers manns færi en maður veit svo sem ekki hvað þessir sértrúarsöfnuðir eru að bralla?!
Samkvæmt þessu er til dæmis heimilt að flytja inn hala, klær, augu, eyru og nef af dýrum. Ekki er þetta kjöt, fuglainnyfli eða innmatur?

Grein númer sjö á að hindra hamslausan innflutning á smjöri, ósoðnum eggjum, eggjadufti og sykruðum eggjarauðum. Munið bara að sykra ekki eggjarauðurnar ef þið ætlið að komast með þær inn í landið! Annars er þessi grein hálfgerð innihaldslýsing á til dæmis kókosbollu. Gæta þarf sérstaklega að innihaldslýsingu matvæla áður en haldið er á náð tollvarða. Hver veit nema smjör gæti leynst í Mozart kúlunum handa Ömmu gömlu?

Loks skal þess getið að samkvæmt skiltinu eru settar hömlur á ósoðna mjólk. Mæðrum með börn á brjósti er vinsamlegast bent á hraðsuðuklefann sem staðsettur er hægra megin við rauða hliðið!

Það er gott að einhver hjá Tollstjóraembættinu hafi sett saman textann sem hér hefur verið fjallað um. Ég hlakka til að lesa fleiri snilldarverk eftir þennan rithöfund og ég mælist hér með til þess að hann verði styrktur í list sinni og studdur með opinberu fé. Hver veit nema hann geti síðar meir hlotið bókmenntaverðlaun Nóbels fyrir álíka mergjaða upptalningu.

Ég væri þakklátur ef eitthvert ykkar hjálpaði mér við að skilja hinn mikla meistara og þakka fyrir að sinni.

Potemkin.