Hví ég er á móti hækkun á geisladiskum

Hin nýlega reglugerð menntamálaráðherra sem kveður á um álögur á geisladiskum og tækjum til að skrifa þá er að mínu mati einver fáránlegasta ákvörðun sem ég hef séð stjórnmálamann taka lengi.

Í fyrsta lagi er verið að þjófkenna nær alla sem eiga og nota skrifara. Og í þokkabót verið að refsa fólkinu ÁÐUR en að það fremur glæpinn. Ég kann ekki við það að vera að greiða fyrir afbrot annara manna.

Það að leggja álögur á upplýsingatækni gengur þvert á stefnu ríkisstjórnarinnar um auknar áherslur á nýtingu hennar landinu til góðs og kemur engum til góða nema nokkrum einstaklingum sem telja sig hafa hæfileika til tónlistarsmíða.

Hvers vegna fær einhver “Sumarballahljómsveit” greitt fyrir það að ég taki afrit af mínum löglegu gögnum á geisladisk? Ég er ekki alveg að ná því. Ef að þeir eru ekki að fá nægilegar tekjur af sínum “lagasmíðum” (endurtekning á orðunum “Ég elska þig” kallast ekki lagasmíðar að mínu mati) þá eiga þeir einfaldlega að fá sér VINNU eins og við hin!

Talandi um vinnu, þá starfa ég hjá RÚV (já, Björn Bjarnason er í raun yfirmaður minn) sem útsendingarstjóri sjónvarps. Þar er lögð áhersla á að spila íslenska tónlist frekar en erlenda og allt sem við spilum er skráð eftir kúnstarinnar reglum svo að greyin fái nú greitt fyrir það. Gott og blessað, alveg sáttur við það. En að hljómsveitin “Skítasumarsól” (tilbúið nafn) fái peninga fyrir það eitt að vera skráðir lagahöfundar á laginu “Ég ætla að taka þig í nótt” (tilbúið nafn), sem fékk sjö spilanir í útvarpi s.l sumar, vegna þess að ég ætla að skrifa nýjustu útgáfuna af Linux á disk nær ekki nokkurri átt. Hví á ég að borga þeim fyrir það?

Svo má einnig athuga það hvaða fordæmi þessi reglugerð geti gefið. Mjög vinsælt er að taka til greina “pappírsskatt” sem myndi leggjast á ljósritunarpappír, því að ef að höfundarréttur á bókum, tímaritum og blaðagreinum (sem að geisladiskahækkunin nær m.a. til) þá er það hentugasta formið til að afrita á.

Einnig má fara út í fáránleikann og ímynda sér “skóskatt” á skó til styrktar bændum, því að skór gætu mögulega slitið upp landi þeirra.

Ef að stjórnvöld ætla að styrkja tónlistina á einhvern hátt þá geta þeir notað aðrar leiðir en að herja á hinn almenna borgara með skattheimtu. T.d. er hægt að lækka/fella niður virðisaukaskatt á hljómplötur og er næsta víst að lægra verð á þeim myndi glæða plötusölu mikið meira en skattur á geisladiska og tæki til að skrifa þá.

Einnig ættu hljómlistarmenn að athuga það hvort að þeir vilji láta orða sig við það að vera afætur á öðrum. Því ef að það að fá greitt fyrir hluti sem þeir gera ekki er ekki að vera afæta þá veit ég ekki hvað það er. Mikið ósköp væri ég til í það að stjórnvöld myndu nú leggja skatt á alla svo að ég gæti haldið áfram minni uppáhaldsiðju, sem er að sofa, en það er bara ekki í spilunum svo að ég viti af þannig að ég reyni að vinna mína vinnu og fæ greitt fyrir það.

Og ég vil nota tækifærið til að minna fólk á að stjórnmálamenn eru kosnir af okkur almenningnum og þessar hugmyndir um að Björn Bjarnason verði næsta borgarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins ættu að duga til þess að halda R-Listanum við völd næstu 4 árin ef að fólk notar skynsemina. En ég verð þó að taka það fram að ég er enginn stuðningsmaður R-Listans, ég bara get ómögulega hugsað mér hvað muni gerast fyrir Reykjavík ef svona hugsandi fólk stjórnar henni.

Jæja, þá er maður búinn að hleypa út örlitlu af reiðinni vegna þessa máls (nóg er eftir) og hvet ég fólk til að gleyma þessu ekki og halda mótmælum áfram.

Áfram Ísland, tjáningarfrelsi er frábært og Björn….ekki reka mig úr vinnunni! :)
JReykdal