Áður en lengra er haldið langar mig að fagna því að ógnarstjórn Saddams Hussein skuli hafa verið steypt af stóli. Húrra fyrir því!

Jæja, en það gengur ekki sérlega vel að finna efna- og sýklavopn í hinu stríðshrjáða Írak. Hvað gerir Bush ef þessi vopn finnast ekki? Við vitum að þetta var ein helsta forsenda þess að ráðist var á landið. Ja, hann verður að finna eitthvað kallgreyið og mér kæmi ekki á óvart þó að það muni gerast burtséð frá því hvort þessi vopn eru til staðar eður ei.

Er hinn frelsaði Bush ekki bara með sérsveit til staðar, einhvers staðar í eyðimörkinni til að redda slíku smáræði ef þurfa þykir? Það ætti nú að vera létt verk og löðurmannlegt fyrir hann að framreiða slík sönnunargögn með því að skutla nokkrum tunnum af sarin og/eða sinnepsgasi inn í eitthvert neðanjarðarbyrgið! Annað eins hefur nú gerst í veröld vorri, eða hvað? Það væri verulega kvikindislegt að koma með svona samsæriskenningu ef Bush væri heiðarlegur maður; vandur að virðingu sinni! En svo er ei. Skoðum dæmi um þær lygar sem Bush matreiddi til að réttlæta stríðið:
————————
Í ræðu sem Bush flutti í september síðastliðinn á alsherjarþingi Sameinuðu Þjóðanna, til að réttlæta fyrirhugaða innrás, sagðist hann hafa sannanir fyrir því að Írakstjórn væri að vinna að því að koma sér upp kjarnorkuvopnum. Málið var að Íraksstjórn hafði reynt að kaupa þúsundir sérstyrktra álröra sem Bush fullyrti vera til þess að auðga úraníum til framleiðslu kjarnavopna.

Skömmu síðar gaf Alþjóða Kjarnorkumálastofnunin frá sér yfirlýsingu þar sem kom fram að þessi rör væru ekki nothæf fyrir auðgun úraníums. Algengt væri, hins vegar, að slík rör væru notuð til að búa til hefðbundin vopn eins og flugskeyti.
————————
Bush fullyrti að skýrsla frá Alþjóða Kjarnorkumálastofnuninni sannaði að Íraksstjórn hefði á árinu 1998 verið aðeins sex mánuði frá því að koma sér upp kjarnavopnum. Talsmaður stofnunarinnar, Mark Gwozdecky, neitaði þessu og sagði enga slíka skýrslu hafa verið gefna út af þeirra hálfu.
————————
Sagnfræðingurinn og fréttamaðurinn Eric Alterman hefur bent á að Bush hafi ítrekað logið um meinta kjarnorkuvopna- og hernaðargetu Íraksstjórnar. Hann hafi þannig rekið hræðsluáróður byggðan að stórum hluta á lygum einungis til að hræða líftóruna úr löndum sínum. Þannig hafi hann fengið þjóðina á sitt band er kom að réttlætingu stríðsins. Bush hafi einnig fullyrt að Írak hefði yfir að ráða flota af ómönnuðum flugvélum sem nota mætti til árása á Bandaríkin. Það var ein lygin enn.
————————
Ein af fullyrðingum Bush og félaga um að Íraksstjórn hafi drepið hundruðir Kúrda í borginni Halabja vorið 1988 er líklega upplogin. Það eru engar sannanir sem styðja þessa fullyrðingu og allt sem bendir til þess að þetta fólk hafi látist af völdum efnaárásar nágrannaþjóðarinnar Írana. Ég bendi á grein í “The New York Times” þann 31. janúar á þessu ári sem fjallar um þetta mál. Greinin er eftir Stephen C. Pelletiere og ber fyrirsögnina “A War Crime Or an Act of War?” Ég mæli með þessari grein.
————————
Þetta er aðeins sýnishorn af lygaherferð Bush og félaga sem notuð var til að réttlæta stríðið. Mér finnast lygar Mohammed Saeed al-Sahhaf, upplýsingamálaráðherra Íraks, blikna í samanburði við það sem vellur uppúr George Walker Bush! Svo á þessi kóni að vera frelsaður og sannkristinn! Fyrr má nú vera!

Ég var og er ennþá á móti þessu stríði. Ef þjóðir heims geta ekki með friðsamlegum og diplómatískum aðferðum leyst vandamál sín, þá er alveg eins gott að fara að pakka saman.

Gleðilega Páska!