Það virðist vera gegnumgangandi skoðun óupplýstra einstaklinga hér á Huga og um heim allan að yfirvofandi styrjöld gegn Írak snúist um girnd Bandaríkjastjórnar til olíuauðlinda þess. Þetta er hinn mesti misskilningur sem ber að leiðrétta.

Stefnumyndun Bandaríkjastjórnar er opinber og gegnsæ. Þetta er ekki leiniklíka með falin áform. Bandaríkjaforseti er ekki einvaldur og samkvæmt hönnun gerir hann ekkert nema með samþykki þjóðarkosins þings. Það ætlar enginn að taka neina olíu frá Íröksku þjóðinni, og engar óhrekjanlegar staðreyndir eru til sem styðja þá ályktun. Slíkt auðlindarupl nyti aldrei samþykkis Bandarísku þjóðarinnar né þingkosinna leiðtoga þeirra.

Saddam Hussein hefur í 12 ár gefið Sameinuðu Þjóðunum langt nef, neitað að beygja sig undir ályktanir þeirra, og ítrekað bæði á þeim tíma og fyrr gert sig líklegan til að standa að hryðjuverkum gegn vesturlöndum, nágrönnum sínum, og eigin þjóð. Bandaríska þjóðin telur sig ekki þurfa frekari ástæður en það til að koma honum frá völdum. Hann er einvaldur sem tekur allar ákvarðanir fyrir hönd sinnar þjóðar og kemst auðveldlega upp með falin áform án þess að þjóð hans viti eða spyrji. Það er einmitt það sem gerir hann hættulegan og hann hefur sýnt það í verki í hálfan annan áratug að af honum stafar ógn. Bandaríkjamenn vilja senda hann sömu leið og Hitler, Noriega og Aidid. Bandaríska þjóðin yrði eflaust æfareið og hneyksluð ef stjórn þeirra hefði uppi þau áform að hnupla auðlindum Íröksku þjóðarinnar eða nokkurrar annarrar þjóðar á sama hátt og ég þykist viss um að Íslendingar yrðu ekki ánægðir ef okkar stjórn hyggðist leggjast í víking og ránsferðir til annarra þjóða.