var að gera ritgerð í þessu og fannst þetta vera fín umræða hérna:)



Rök gegn fóstureyðingum:
1. Það er rangt að deyða mannverur
2. Fóstur er mannvera
3. Þess vegna er rangt að eyða fóstri

Fimmta boðorðið segir: “Þú skalt ekki morð fremja.” Að drepa barn sem er ófætt er jafnalvarlegt og að drepa barn sem hefur fæðst. Hér á öldum áður voru óvelkomin börn stundum borin út og látin deyja . Það hefur frést af þess konar atburðum erlendis nýlega. Það finnst öllum hryllilegt, en af einhverjum ástæðum finnst sumum ekki eins alvarlegt að láta drepa ófædd börn ef það passar ekki fyrir foreldrana að því skuli leyft að lifa og fæðast.
Þeir sem eru þessarar skoðunar segja gjarnan að ófætt barn sé ekki mannvera. Hver er skilgreining á því hvenær mannvera varð að mannveru? Sumir segja við fæðingu, aðrir þegar barnið er orðið nógu þroskað til að geta lifað utan líkama móður sinnar. Þetta er fráleitt. Barnið er það sama hvort sem það er fyrir utan móðurkvið eða fyrir innan. Það er fullkominn einstaklingur. Kaþólska kirkjan kennir að barnið hafi orðið til við getnað og sé mannvera frá upphafi. Það hefur sjálfstætt líf þrátt fyrir að geta ekki lifað utan líkama móður sinnar. Það hefur sama rétt til að lifa og allar aðrar manneskjur og er stór synd að drepa það.
Þegar móðirin er að uppgötva að hún sé komin fram yfir á blæðingum og tekur þungunarprófið, þá er litla hjartað farið að slá og heilastarfsemi komin í gang. Í grófu máli er einstaklingur dáinn þegar hjarta hans hættir að slá, en er hægt að segja að líf sé ekki hafið ef hjartsláttur er hafinn? Hjartað byrjar að slá um það bil þremur vikum eftir getnað og heilastarfsemi mælist eftir sex vikur. Nýr einstaklingur, hefur byrjað líf sitt. Hann fæðist ekki aftur. Ef hann fær að halda lífi verður hann einn daginn fullorðinn maður eða kona.
Sumir segjast vera á móti fóstureyðingum “almennt” en vilja leyfa það undir vissum kringumstæðum. Til dæmis ef barn er getið í nauðgun, ef barnið verður vanskapað eða fatlað, ef móðirin er óhæf til að annast það, má þá láta eyða því? En þá má spyrja á móti: Má drepa ungbarn sem hefur fæðst og var getið í nauðgun, er vanskapað eða fatlað eða á óhæfa móður? Auðvitað ekki! Það má undir engum kringumstæðum samþykkja það að lítið barn sé drepið þótt það henti ekki foreldrum þess að það fái að lifa.
Á árunum 1971 til 1975 voru að meðaltali 203 fóstur sett í fóstureyðingu á hverju ári eða 4% af öllum ófæddum börnum. Fóstureyðingar hafa aukist jafnt og þétt. Á árunum 1981 til 1985 var hlutfallið komið upp í 14% eða 670 börn “eydd” á ári. Á árinu 1999 voru 945 ófædd börn “eydd” hér á Íslandi, eða 19% af öllum ófæddum börnum. Samtals á árunum 1991 til 1999 voru 7431 barn drepin að ósk foreldris. Yfir 46 milljón ófæddra barna eru “eydd” í heiminum árlega. Það er ekki spurning um skoðun eða smekk hvort þessi börn hafi verið mannverur.