Það hefur verið vægast sagt athyglisvert að fylgjast með því sem hefur verið að gerast í heimsmálunum síðan 11. september 2001. Eftir þann dag virðast Bandaríkjamenn telja að þeir geti með réttu farið í stríð gegn hverjum sem þeim dettur í hug, undir yfirskyni baráttu gegn hryðjuverkum, án samþykkis bandamanna þeirra eða öryggisráðs Sameinuðu Þjóðanna.

Þetta er stórhættuleg þróun, ekki aðeins fyrir Íraka og Norður-Kóreu, heldur heimsbyggðina alla. Ef kommúnisminn var eitt sinn ógn, þá er ljóst að sú ógn var dvergvaxinn samanborið við þá sem við horfum núna upp á.

Auðvaldið í Bandaríkjunum er svo gríðarlegt og máttur fjölmiðla svo mikill að tekist hefur að heilaþvo heilt þjóðfélag. Og í rauninni mest allt vestrænt samfélag um hvað sé rétt og hvað sé rangt, hverjir séu vondir og hverjir séu góðir.
Það þarf ekki annað en að horfa á Bandarískt þjóðfélag í dag til að sjá merki um þetta. Í öllum búðargluggum er bandaríski fáninn, á öllum bílum er bandaríski fáninn, fólk klæðist fánanum, á öllum fyrirtækjum og á flestum heimilum er flaggað bandaríska fánanum. Fánadýrkunin og þjóðerniskenndin er það mikil að það getur vart talist heilbrigt. Að því leiti svipar Bandaríkjamönnum mikið til Þýskalands nasismanns þegar hver maður gekk með þýska fánann og hakakrossinn. Þetta er sérstaklega athyglisvert að skoða með tilliti til þess að Bandaríkin eru í rauninni mjög ungt land og á sér stutta sögu miðað við önnur stórveldi heimsins. Það er ekki laust við að maður sjái ákveðna samsvörun milli riss og hnignunar Rómaveldis til forna og Bandaríkja nútímans.

Máttur fjölmiðlanna felst fyrst og fremst í því að almenningur sér aldrei nema aðra hliðina á málunum. Alltaf þá hlið að Bandaríkin séu góðu gæjarnir og allir aðrir slæmir.
Nei, er þetta ekki bara bull og vitleysa í mér??? Alls ekki, hugsið aðeins málið. Hafa ekki vestrænir fjölmiðlar hamrað á því í gegn um tíðina að Saddam Hussein sé vondur maður, eflaust er hann það. En það eru jú tvær hliðar á öllum málum, og til að geta tekið afstöðu verður maður að vita þær báðar.

Alltaf þegar er talað um stríðsglæpamenn eru það óvinir Bandaríkjamanna, en það sér það hver maður að menn eins og Bush, Sharon, Powell og Rumsfeld eru kannski mestir af þeim öllum.

Það samt réttlætir engan veginn að fara í stríð og fórna lífum fjölda saklausra borgara til þess eins að koma einum manni frá völdum. Eða er það kannski ekki ástæðan? Er ástæðan kannski sú að Bandaríkjamenn vilja ná yfirráðum yfir olíulindum íraka svo þeir geti haldið áfram að bjóða þegnum sínum bensín á 1/3 af því sem við borgum fyrir bensín hér, því þeirra eiginlega olíulindir verða á þrotum eftir nokkra áratugi? Eða er ástæðan kannski sú að Bandaríkjamenn eru einfaldlega á móti múslímum? Sbr. þegar múslímum var smalað saman í Kaliforníu fyrir nokkru til að láta skrá sig og þegar þeir mættu til að skrá sig voru þeir handteknir og margir þeirra stimplaðir hryðjuverkamenn. Finna Bandaríkjamenn ef til vill fyrir einhverri minnimáttarkennd í garð múslíma líkt og nasistar í garð gyðinga?

Það versta við þetta ferli allt er að eftir fall Sovétríkjanna er ekkert ríki heims sem kemst nálægt BNA hvað hernaðarstyrk varðar. Því er í raun lítið sem ekkert mótvægi gegn BNA í heiminum og þar af leiðandi geta þeir nánast gert það sem þeim dettur í hug og aðrar vestrænar þjóðir þora ekki öðru en að fylgja þeim.

Að lokum ættum við að reyna að skyggnast nokkra áratugi inn í framtíðina og sjá hvað bíður okkar þar ef þessi skelfilega þróun heldur áfram. Sagan segir okkur það að þetta endar aðeins á einn veg, með gríðarlegu stríði sem mun hafa djúpstæð áhrif á alla heimsbyggðina um ókomna tíð. Bandaríkjamenn koma alltaf til með að vilja meira og meira líkt og önnur stórveldi í mannkynssögunni og lokum mun það verða þeim að falli. En þar sem við höfum í dag gereyðingarvopn sem nægðu til að eyða heimsbyggðinni nokkrum sinnum mun stríð af þessari stærðargráðu ganga frá heimsbyggðinni eins og við þekkjum hana.

Mörgum kann kannski að finnast þessi skrif einkennast af svartsýni, og ef til vill gera þau það. En ef við gefum okkur svolítinn tíma til að hugsa þetta í ljósi sögunnar, þá hlýtur hver maður að sjá hvernig þetta gæti endað ef þróununni verður ekki snúið við.

Með kveðju,
Fodgett