Ég heiti geiri2 og ég hef svolítið á samviskunni. Ég var eitt sinn forfallinn andstæðingur Kárahnjúkavirkjunar, en sem betur fer hef ég frelsast. Ég hef séð ljósið, og ég vona að þið afturhaldssömu hippar sem eru sömu skoðunar og ég var munu líka fá opinberun með þessari grein minni. Því það eru svo margar ástæður fyrir því að gleðjast yfir framkvæmdunum……

Ég er glaður að við fáum þetta álver. Ég er glaður yfir því hvað við Íslendingar erum sigursæl og frábær þjóð. Ég er glaður yfir öllum sigrum okkar. Ég er glaður yfir því að við sigruðum í keppninni um hvar Alcoa byggir næsta álver. Ég er glaður yfir því að það var engin þjóð sem gat gefið Alcoa betri skilyrði fyrir nýju álveri. Ég er glaður yfir því að við unnum samkeppninni og háþróaðar þjóðir eins og Víetnam og Brasilía áttu ekki séns í okkur. Ég er glaður yfir því að við getum með stolti sagt að við erum þróaðri en Víetnam í öllum atvinnumálum.


Ég er glaður yfir því að það eigi að sökkva hálendinu. Ég er glaður yfir því að það eigi að sökkva einum mestu ósnortnu víðlendum Evrópu undir vatn. Ég er glaður yfir því að það eigi að byggja stíflu hvers lón mun fyllast örar en Össur Skarphéðinsson skiptir um skoðun. Ég er glaður yfir því að við munum hrekja heiðagæsirnar frá varpstöðvum sínum. Ég er glaður yfir því að afkomendur okkar kynslóðar mun líta baka til ársins 2003 með gleðitár í auga, því þau munu ekki þurfa að hugsa um að vernda eitthvað skítahálendi.

Ég er glaður yfir því að það eigi að steypa Íslendingum í skuldafen. Ég er glaður yfir því að 200 milljörðum verði hugsanlega kastað á glæ. Ég er glaður yfir því að það eiga um 400 ítalskir fabioaplebbar eftir að koma hingað og byggja mannvirki. Ég er stoltur að því að loksins fáum við Íslendingar tækifæri á því að eiga viðskipti við alvöru mútufyrirtæki. Ég er glaður yfir því, að austfirsk ungmenni með gríðarháan metnað eigi bjarta framtíð fyrir framan kerin.

Þegar ég tek þetta allt saman er ég svo hriiiiiikalega glaður. En glaðastur er ég þó fyrir kaldhæðnina.