Í gær hélt Donald Rumsfeld, varnarmálaráðherra Bandaríkjana ræðu þar sem upp kom umræðan um Írak og afstöðu Þýskalands & Frakklands til einhliða innrásar USA og Bretlands í Írak. Rumsfeld sagði að hann liti ekki á Þýskaland og Frakkland sem þungamiðju Evrópu. Nei, þau tilheyrðu því sem hann kaus að kalla “gömlu evrópu”. Þungamiðja Evrópu væri sífellt að færast lengra til austurs með stækkun Nato. Því hefðu þau ekki mikil áhrif á ákvörðun Bandaríkjastjórnar varðani Írak.

Ég hef nú ekki haft hátt álit á þessum manni til þessa en þarna fór hann allveg með það. Fyrir það fyrsta eru ekki einu sinni öll nýju ríki Nato í Evrópu. Tyrkland er sem dæmi ekki talið liggja í Evrópu landfræðilega séð. Auk þess hafa Þýskaland(Þýska sambandsríkið) og Frakkland nánast ávallt verið einmitt kraftmestu og valdamestu ríki Evrópu. Allt frá því að Napoleon hóf innlimun ríkja í Frankaríki með Napoleons stríðunum og ekki sýst eftir Vínarfundinn 1815 hafa þessi tvö ríki verið megin kjarni álfunnar.

Að ætla það að gömul austantjaldslönd séu að verða þungamiðja Evrópu er bara útí hött. Sem dæmi um þetta má nefna það að Frakkland og Þýskaland eru áhrifamestu ríkin innan ESB og eiga bæði fulltrúa innan öryggisráðs SÞ, en Frakkland verður einmitt í forsæti ráðsins fljótlega.

Bandaríkjamenn eru vissulega stórir bæði hernaðarlega og efnahagslega en það gefur þeim á engan hátt rétt til þess að brjóta alþjóðalög með árásum á Írak án sannana og samþykki öryggisráðs SÞ. Og nú þegar Rumsfeld er farinn að reyna að telja mönnum trú um að skipulag Evrópu sé annað en það er, eru hlutirnir algjörlega komnir úr böndunum.
Magnus Haflidason