Nú fyrir nokkrum dögum síðan bárust fréttir af því að Félag íslenskra þjóðernissinna væri að huga að framboði til Alþingis kosninga á vori komandi. Þetta félag sem virðist reyndar ekki hafa nema örfáa meðlimi, hefur frá stofnun virkað á mig sem hópur aumkunarverðra manna sem tíminn hefur gleymt.

Besta dæmið um þetta er koma varaformanns félagsins í Silfur Egils, fyrir að mig minnir rúmu ári. Þar var formaður þessi “jarðaður lifandi” í beinni útsendingu og var augljóst að félag þetta er ekki byggt á neinu nema fordómum og fávisku. Til þess að varpa betur ljósi á það viðtal fyrir þá sem ekki sáu, var varaformaðurinn t.d spurður hver ætti að vinna láglaunastörfin ef ekki ætti að leyfa erlent vinnuafl. Hann kvað við að þá ætti bara að leggja þessi störf niður! Í framhaldi af þessu kom umræða um hagvöxt og fleira sem endaði með enn barnalegri svörum frá hæstvirtum varaformanni þessa félags.

Það vill nú svo óheppilega til að undir láglaunastörf fellur mest öll fiskvinnsla. Eins og flestir vita er fiskveiði en helsta stoðin í íslensku efnahagslífi og án hennar værum við hreint ekki vel stödd og eflaust hálf gjaldþrota. Nú er ég ekki að fara útí þá umræðu hvort hægt sé að hækka laun fiskvinnslu fólks eða þar fram eftir götunum, heldur vil ég benda á hve kjánalegur og innihalds laus boðskapur og stefna þessa félags er.

Eitt aðal stefnumál FÍÞ er Að hindra frekara landnám útlendinga af öðrum en evrópskum uppruna hér á landi. Þetta er auðvitað með því vitlausasta sem maður hefur heyrt lengi. Þetta er auðvitað bara pínpússing á stefnu þeirra sem er standa gegn flutningi litaðs fólks hingað. Hvað með Bandaríkin? Eru þeir óæskilegir? Auk þess, hvernig skilgreiniru uppruna? Bandaríkska þjóðin á hluta uppruna sinn að rekja til Evrópu og um það er hvergi deilt.

Þetta eru bara örfá dæmi en ég hvet alla til að kynna sér stefnu þeirra en hún minnir mig á margan hátt á sögurnar af þeim sem voru alfarið á móti sjónvarpinu á sínum tíma. Málflutningurinn er í þokkabót svo vitlaus að maður hálf vorkennir þessum mönnum. Einangrunarstefna eins og sú sem þeir boða á bara hreinlega ekki uppá borðið í siðmenntuðum heimi nú á 21. öldinni. Vissulega er mál & skoðunarfrelsi bundið í stjórnarskrá landsins en að veitast gegn hópum innan samfélagsins vegna litarhafts, þjóðernis eða öðru en hreint lögbrot, enda hefur annars formanna þessa félags verið dæmdur fyrir slíkt.

Nú eins og fyrr segir hefur FÍÞ ákveðið að bjóðafram til Alþingis í öllum kjördæmum nema einu. Persónulega hef ég enga trú á þessu og ekki laust við að forsetaframboð Ástþórs Magnússonar komi upp í kollinn við þessar fréttir. Ég á erfitt með að taka framboði þessu alvarlega og grunar að þeir séu aðeins að nýta tækifærið til þess að auglýsa sig og finnst mér undarlegt hve alvarlega fjölmiðlar taka þessum skrípaleik. En ef af framboði þeirra verður er það mjög gott því þá vakna þeir kanski og átta sig á því að það er enginn raunverulegur stuðningur við FÍÞ á Íslandi í dag.

Lengd greinar þessar er kanski í lengri kantinum fyrir miðil eins og huga.is en gaman væri að fara í gegnum hvert og eitt stefnumál FÍÞ og varpa ljósi á vitleysuna sem kemur fram í öllum þeirra málflutningi. Hver veit nema það verði gert. Annars þakka ég þeim sem nenntu að lesa þetta og bið vinsamlegast um engin svör við þessari grein nema vel rökstuddum.
Magnus Haflidason