Hmmm…

Nú hef ég ýmsar skoðanir á BNA og stríði í Írak og vil bara nota tækirfærið og koma þeim á framfæri.

Mér finnst margt skrýtið við þetta stríð sem BNA ætlar í. Til dæmis talaði Bush mikið um “Öxulveldi hins illa”, að þau ríki væri hræðileg og ill og væru að reyna að koma sér upp kjarna- og sýklavopnum. Stuttu seinna viðurkenndi Norður-Kórea að þeir væri reyndar mjög langt komnir með að koma sér upp slíkum vopnum á meðan mjög fátt benti til þess að Írak væri búið slíkum vopnum. Hversvegna er ekkert gert í málum Norður-Kóreu ef tilgangur þessa stríðs er í rauninni að koma á friði og stöðva þær þjóðir sem hafa slík vopn? Mér finnst þetta benda ansi mikið til þess að opinberar ástæður innrásar í Írak séu ekki þær sömu og raunverulegar ástæður þess.

Saddam Hussein er voða vondur maður. Þeim upplýsingum eru Bandaríkin búin að mata okkur á lengi vel. Hann er alveg brjálaður og hann á að stöðva með öllum tiltækum ráðum. En finnst ykkur viðskiptabann á Írak sem drepur milljónir manna, þar af um 600.000 börn, úr hungri og lyfjaleysi vera rétta leiðin til að koma einum manni af stóli? Sú leið BNA er greinilega ekki alveg að virka þar sem Saddam sjálfur kaupir sinn mat sennilega ekki úr sömu kjörbúð og þegnar hans og er hann í alveg jafn góðu formi og fyrir þetta viðskiptabann, þó það hafi líklega valdið honum einhverjum óþægindum. En er það nóg til að drepa milljónir manns? Mér finnst að BNA hefðu getað sagt sér það sjálfir að algjört viðskiptabann á Írak myndi ekki hjálpa mikið við að koma Saddam frá völdum. Hver veit, kannski vissu þeir vel af því en ákváðu að fórna milljónum mannslífa til að valda þessum manni óþægindum.

Í öllum þessum “vondakallsáróðri” BNA finnst mér svolítið gleymast að líta á þann sem er með allan áróðurinn. Finnst ykkur ekkert mál að BNA sýni SÞ alveg jafn lítið af sínu vopnabúri og Saddam, en samt eigi að ráðast á hann fyrir að sýna ekki sitt? Finnst ykkur í lagi að BNA segi sig úr ýmsum sáttmálum, s.s. sáttmála um að beita ekki pyntingum, sáttmála um að takmarka notkun kjarnorkuvopna og ýmislegt fleira? Eru allir að gleyma að einu sinni var Saddam besti vinur BNA? Var hann þá jafn ótrúlega vondur og illur? Breyttist maðurinn bara svona rosalega á 20 árum? Ég held ekki.

Það sem mér finnst fáránlegast við málaflutning þeirra sem fylgjandi eru stríði í Írak er “en við verðum að gera eitthvað” klisjan. Hvernig erum við að hjálpa fólkinu í Írak með því að drepa það? Er innrás í Írak “afþví við verðum að gera eitthvað” ekki svipað og að skvetta bensíni á brennandi hús “afþví maður verður bara að gera eitthvað”? Sem friðarsinna finnst mér að stríð í þeim tilgangi að koma á friði meiki ekkert sens.

Mér finnst merkilegt hvernig BNA þræddi sig í gegnum mismunandi ástæður innrásar í Írak áður en þeir fundu þá sem þeir halda sig við núna. Fyrst var það vegna þess að Írakar voru með Al-Queda í árásunum á BNA 11. sept. Þegar kom í ljós að enginn grunnur væri fyrir þessum ásökunum breyttist ástæðan í “þeir eru með kjarnorku- og sýklavopn”, þó engar sannanir um slíkt væru fyrir hendi. Það virðist vera þannig að þegar sakborningurinn er alveg rosalega vondur þá minnkar sönnunarbyrðin niður í ekki neitt, ásakanir einar eru nóg.
Nú hafa ástæður BNA farið hægt og rólega yfir í “hann er alveg ofboðslega vondur og illur og við ætlum að koma honum frá. Já og hann er ábyggilega að koma sér upp kjarnorku- og sýklavopnum ef hann hefur þau ekki núna.”

Ég veit ekki með ykkur en mér finnst voða mikil ólykt af þessu. Mér finnst eins og BNA hafi fyrst ákveðið að ráðast á eitthvað land, svo pælt í hvaða landi þeir ættu að ráðast á og síðan reynt að finna einhverja hentuga ástæðu.

Af hverju er ekkert gert í málum Norður-Kóreu fyrst BNA er svona afskaplega annt um velferð okkar allra? Er það kannski vegna þess að þeirra kjarnorku- og sýklavopn komu frá Pakistan, einum helsta bandamanni BNA í Afghanistanstríðinu? Finnst ykkur ekkert óeðlilegt við það að BNA vilji alls ekki að neinn sé með kjarnorku- og sýklavopn, en það sé allt í lagi ef þau koma frá vinum þeirra? Og að BNA séu sjálfir með slík vopn? Og einnig Ísrael? Skiptir þetta ykkur engu máli? Er búið að persónugera þennan mann svo mikið sem versta mann í heimi að þið getið litið framhjá öllu öðru í blindu hatri ykkar á honum?

Mér finnst hálffyndið líka að BNA haldi fram að þessi þrjú öxulveldi hins illa séu í bandalagi saman, sérstaklega þar sem tvö þeirra, Írak og Íran, hafa verið svarnir óvinir í fjölda ára og háð margar blóðugar styrjaldir. Trúið þið því alveg að þó þessi tvö ríki hafi ekki einu sinni skipst á stríðsföngum síðan í styrjöld fyrir 10-15 árum séu þau bestu vinir þegar kemur að “verum vond saman” bandalögum?

Mér persónulega finnst þessi málaflutningur BNA ansi götóttur og vildi bara koma mínum skoðunum á framfæri.

Zedlic