Um miðja nóttina vaknaði Drepfer. Hann reisti sig upp og fór nær varðeldinum til að fá sér eitthvað að borða. Hann var glorsoltinn. Voltranos var líka vakandi og var hann að lesa einhverja bók.
“Ýsíldúren mun ekki ráðast á okkur aftur” sagði Voltranos. “Þess í stað ríður hann að Fírionsfjalli til að verða á undan okkur. Þú manst vonandi að það er sverðið Eretarusha sem hann hefur áhuga á.”
“En getur hann sigrað Fírion?” spurði Drepfer.
“Ohh nei, ekki aldeilis. Hann hefur undanfarið verið að reyna að ná flautunni af okkur, en einnig grunar mig að hann vilji ná fram hefndum á mér. Hann hyggst sitja fyrir okkur hjá Fírionsfjalli.”
“Ættum við ekki að flýta okkur til að verða á undan honum?”
“Nei, því ég hef sjálfur hugsað upp ráð til að koma honum að óvörum.”
“Og hvað er það ráð, ef mér leyfist að spyrja?” sagði Gilvaldr skyndilega.
“Ætli ég verði ekki að segja ykkur það” sagði Voltranos. “Ég mun vekja upp börn Fírions sem dveljast í hellum utan á hlíðum fjallsins með hjálp Irtöru (gyðjan Irtara). Við verðum í hæfilegri fjarlægð þegar drekarnir koma og í stað þess að nota aðalinnganginn förum við inn um hliðarinngang. Eftir það bíður okkar lengri og hættulegri leið, þó ekki eins hættuleg og að ferðast með Ýsildúren, en mig grunar að Ýsildúren muni flýja inn um aðalinnganginn frá drekunum.”
“Hvernig ætlarðu að vekja drekana?” spurði Drepfer.
Voltranos svaraði: “Með hjálp Irtöru mun ég kalla fram hljóð með galdramætti mínum sem einungis drekar geta heyrt. Því verður Ýsildúren enn meira óviðbúinn þegar drekarnir koma.”