Black Isle Studios, framleiðendur Fallout leikjanna, sendu í dag út fréttatilkynningu um að þeir ætluðu að framleiða næsta Baldur’s Gate leikinn í seríunni frægu, Baldur’s Gate: Dark Alliance, en Snowblind Studios ætla að sjá um gerð þessara herlegheita. Leikurinn verður Action/Adventure og verður hann aðeins gefinn út fyrir PlayStation 2. Að sögn Feargus Urquhart, framkvæmdastjóra Black Isle Studios, verður leikurinn glæný upplifun fyrir RPG spilara auk áhangenda leikjatölva.
Leikurinn, sem er 3 persónu þrívíddarleikur, byrjar í höfn nokkurri í borginni Baldur’s Gate. Myrkur umlykur borgina og orðrómur er um að samtökin Shadow Thieves séu að skipuleggja borgarastríð. Aðalpersónan situr fastur í miðjunni á þessu öllu en hann er bara lítill busi í stórborginni og hefur ekki neina reynslu af ævintýrum.
Að sögn Snowblind Studios ætla þeir að nýta sér PlayStation 2 tæknina til fulls og framleiða leik með þeirri grafík sem enginn hefur séð með því að gera umhverfi og persónur sem raunverulegast.
Áætlað er að leikurinn komi næsta haust og mæli ég með því að þeir sem ekki eiga eintak af PlayStation 2 fari og tryggi sér eintak…

Willie

ATH: Þetta er EKKI beint framhald af Baldur's Gate 2, þannig að þið getið verið róleg ef efasemdir koma upp um Baldur's Gate 3:Þ