Skúli Steinn Vilbergsson hnefaleikamaður úr Reykjanesbæ hefur fengið tilboð um að gerast atvinnumaður í hnefaleikum í Bandaríkjunum. Fram kemur á fréttavef Víkurfrétta, að umboðsmaður frá Bandaríkjunum kom nýlega til landsins og lagði fram tilboð sem Skúli er að skoða. Ef af samningum verður mun Skúli halda til Bandaríkjanna um áramót og vera við æfingar fram í maí og í kjölfarið taka þátt í hnefaleikakeppnum víðsvegar um Bandaríkin.

Skúli Steinn sagðist í samtali við Víkurfréttir vera að skoða málið og fara yfir samninginn. Haft er eftir Guðjóni Vilhelm, forsvarsmanni Hnefaleikafélags Reykjaness og þjálfara Skúla, að þetta samningstilboð sé jákvætt skref fyrir Skúla og íþróttina hér heima en hann hafi trú á því að ef rétt sé haldið á málum geti Skúli náð langt.