Ég á vin sem er geðlæknir og hann vakti mig til umhugsunar fyrir stuttu síðan. Hann var að tala um það að gamla fólkið á elliheimilunum kynni allar þessar bænir og vísur sem því var kennt í æsku. Þegar ellin færist yfir hættir fólk oft að muna það sem gerðist í dag og í gær, en það man allt frá því “í gamla daga”. Þessar bænir og vísur sem fólkið lærði er þeim huggun í ellinni, þetta hjálpar þeim að komast yfir erfiða tíma og þetta eru oft hughreystandi bænir eða vísur.

Hvað kemur til með að hughreysta okkur þegar við förum á elliheimilið? “Toyota tákn um gæði”? “Harpa gefur lífinu lit”? “Samvinnutryggingar til að vera viss”?

Ég ætla svo sannarlega að kenna dóttur minni bænir og vísur og vona að hún geti huggað sig við þær í framtíðinni.