Það vilja eflaust allir foreldrar veita börnum sínum allt en við vitum það öll að það er ekki hægt. Samt fá börn samtímans miklu meira en börn fengu fyrir 10 árum síðan.

En það eru til börn sem fá allt og það án þess að hafa eitthvað mikið fyrir því. Hér á landi sér maður oft börn öskra og gnýsta tönnum yfir súkkulaðistykki sem á endanum þau fá eða fá ekki. En þessi börn sem ég var að tala um sem fá allt þufra ekki að hafa fyrir því að öskra og gnýsta tönnum. Þau vita eflaust ekki hvað það er? Þau eru vön því að fá allt og hafa alltaf verið vön því.

Hvaða börn eru þetta? Jú börn fræga og ríka fólksins. Það var þáttur á Sirkús núna á dögunum um þessi blessuðu börn. Það var verið að sýna í þessum þætti hvað börnin fengju í afmælisgjafir, jólagjafir og svona tækifærisgjafir. Allar þessar gjafir jafnast á við mánaðarlaun sumra. Þessar gjafir voru heldur ekkert venjulegar, stór leikfangahús, leikfangabílar sem eru næstum fullkomnari en venjulegir bílar og svona var þetta. Þessi börn geta heldur ekki bara átt eitt herbergi. Nei það væri of venjulegt! Þau eiga tvö eða fleiri, eitt barnið (sem er að vísu orðinn 15 ára) átti nú bara sitt eigið hús svona við hliðin á húsi foreldranna.

Þessi börn eru náttúrulega mjög sérstök. Það er búið að fylgjast með þeim frá getnað og það vita allir allt um þau! Ljósmyndarar hafa barist um að ná bestu myndinni af þeim frá fyrsta degi og þau fara aldrei út úr húsi án þess að hafa þá á hælunum. Hver einasti slúður- og spjallþáttastjórnandi berst um að fá að segja fyrstu fréttirnar af þeim.

Börnin þurfa heldur ekki að hafa áhyggjur á því að einhver eigi eins föt og þau. Nei foreldrarnir sjá til þess, börnin fá að vera í klæðskerafötum frá fæðingu. Þau þurfa heldur ekki að hafa áhyggjur á grasgrænu. Ef hún kemur á annað borð í buxurnar þá eiga börnin hvort eð er heilt herbergi af öðrum buxum. Skórnir voru heldur ekkert venjulegir. Nei sérgerðir og ekkert úr einhverju annars flokks efni heldur fyrsta flokks.

Ég verð nú að segja að ég held að þessum börnum líði þrátt fyrir það ekkert betur en öðrum börnum. Ég hled að það sé öllum börnum holt að fá aga. Svo er líka öllum börnum hollt að læra að maður fær ekki allt. Stundum verður maður annað hvort að bíða eða bara fá ekkert. En auðvitað er þetta ekki börnunum að kenna, þau hafa ekki beðið um þetta allt. Enda byrjuðu foreldrarnir á því að gefa þeim allt frá fyrsta degi.

Ég verð nú bara að segja að ég vorkenni þessum börnum. Þau fá auðvitað alla þá ást sem er hægt að fá, en það fá líka öll önnur börn sem ég veit um. En ég vorkenni þeim að lifa í svona heimi, sem er nánast óraunverulegur. Þau alast upp við það að það eigi allir sína eigin sundlaug, nokkarar hallir, stór hús, enkaþotur og þjónustufólk. En hvað gerist svo? Hvað verður um þessi börn þegar að þau eru ekki lengur börn? Við höfum öll heyrt um börn frægafólksins sem eru að reyna að feta sig áfram í áttina að fullorðinsárunum. Mörg þeirra velja vitlausa leið til þess að feta sig eftir, lenda í veseni, ólifnaði og hreinu og kláru rugli! Ég veit vel að unglingar lenda oft í þessum aðstæðum þó svo að þau séu ekki börn fræga fólksins og það eru mörg af börnum fræga fólksins sem hafa bara plumað sig vel út í hinum stóra heimi.

En það sem stingur mig svolítið, það er að þessi börn eiga eftir að erfa svo og svo mikið af peningum eftir foreldra sína. Þau eiga eftir að erfa svo mikla peninga að þau eiga aldrei eftir að þurfa að gera neitt annað en að leika sér alla æfi. Ég er ekki viss um að það sé gott fyrir nokkurn mann að þurfa aldrei að gera neitt sjálfur, að fá allt upp í hendurna. Það er öllum holt að reyna eitthvað sjálf og maður lærir líka á því að fá að gera mistök. Ég er ekki svo viss um að þessi börn fái að gera mistök? Ég held að mörg þeirra fái eftil vill ekki að vera börn eins og við þekkjum það. Heldur eru þau alltaf í þessum flottu fötum, í verslunnarleiðangri og í slúðurblöðunum. Ég tek ofan fyrir þeim stjörnum sem eru ekki að veifa börnum sínum. Enda eru það ekki börnin sem eru fræg, það eru ekki þau sem velja foreldra sína.