Ný heimasíða Magic The Gathering á Íslandi Sælir spilarar,

Þessi grein er skrifuð til þess að benda á glænýja heimasíðu Magic.is. Fyrir þá sem ekki vita þá er Magic fyrsta safnkortaspilið sem gert var og er enn í dag það lang vinsælasta í heimi. Íslendingar hafa verið að spila þetta spil í um 10 ár eða allt frá því að það kom fyrst til landsins árið 1994. Reglurnar í spilinu eru einfaldar og er hægt að spila spilið á marga vegu og misalvarlega. Frá því árið 1995 hafa Íslendingar sent fjögurra manna lið á heimsmeistaramótið í Magic, með misjöfnu gengi reyndar, en hefðin fyrir spilinu hér heima er sterk…

Margir hér heima byrjuðu á Revised seríunni svokölluðu, sem innihélt spil eins og Serendib Efreet, Kird Ape, Lightning Bolt og fleiri góð. Síðan þá hefur spilið þróast mikið og að mestu leyti orðið betra og með sterkari spil eftir því sem á líður. Ef maður hefur einu sinni spilað Magic þá er ekkert mál að prófa það aftur þar sem undirstöðuatriðin eru alltaf þau sömu. Einnig er orðið miklu léttara fyrir byrjendur að byrja að spila en áður þar sem hægt er að kaupa ódýra byrjendapakka sem leiða mann í gegnum helstu reglurnar. Þessir byrjendapakkar fást í Nexus og eru bæði góðir fyrir byrjendur sem og gamla spilara sem langar að prófa spilið aftur.

Tilgangur þessarar síðu verður frekar einfaldur. Þar munu birtast úrslit móta í Nexus ásamt því hvenær næsta mót verður og hvað verður spilað. Einnig munu þar birtast ýmsar fréttir úr Magic heiminum, en mikið er af þeim að taka þar sem 3 nýjar seríur koma á hverju ári og haldið er mikið af skemmtilegum stórmótum erlendis, en um það bil 200 pro spilarar hafa atvinnu af því að spila þetta spil þar sem peningaverðlaun eru há. Að lokum verður á síðunni virkt spjallborð þar sem mönnum er frjálst að spyrja spurninga eða tala um það sem þá langar til í sambandi við spilið. Það þarf ekki að skrá sig á spjallið og hægt er að spjalla nafnlaust. Mönnum er þó frjálst að skrá sig ókeypis ef þeir vilja, en við það virkjas ýmsir fítusar. Ég mæli eindregið með því að bæði gamlir og nýjir spilarar kíki við á spjallborðinu. Nú á fyrsta mánuðinum frá opnun síðunnar hafa menn skipulaggt nokkra spilafundi þar sem bæði byrjendur og lengra komnir hafa skemmt sér mjög vel.

Það er von mín að þessi síða muni hjálpa til við að kynna þetta stórskemmtilega spil betur hér á Íslandi ásamt því að vera miðstöð þeirra spilara sem iðka það.

Kveðja,
Binni
- Vefstjóri Magic.is