Eftir umræðu í öðrum þræði ákvað ég að skjóta inn einni grein um hvernig mér finnst best að gera platta undir hersveitir…

-*-*-*-

Eitt af því mikilvægasta sem þú gerir þegar þú ert búinn að mála nýju, flottu herdeildina þína er að gera platta undir hana. Hann hefur aðallega þann tilgang að auðvelda þér að færa hersveitirnar þínar um borðið, og það flýtir mjög fyrir bardögum ef allar herdeildir eru á plöttum.

Að sjálfsögðu er hægt að kaupa platta í Nexus, eins og flest annað sem viðkemur hobbyinu. En þeir eru bara til í tveim mismunandi stærðum og ekki víst að þeir passi fyrir allar herdeildir. Ef þú vilt nota þá mæli ég með að þú grunnir þá og málir, þessi græni litur er hööööörmung!

Þá er bara að koma sér í föndurskapið og gera sína eigin platta! Það er lygilega lítið mál, en lítur mjög vel út þegar upp er staðið.

Fyrsta skrefið er auðvitað að koma sér upp hráefnum til að smíða úr. Í fyrsta lagi þarf að redda sér einhverju til að gera plattan sjálfan úr. Ég mæli með tvennu. Annað hvort að redda sér mjög þunnum krossviði, eða límviði (svona dæmi sem er aftan á myndarömmum), eða sérstaklega tilsniðnum blikkplötum.

Tré plattarnir hafa þann kost að það er auðvelt að redda sér þeim, og auðvelt að sníða þá til. Maður gerir sér einfaldlega ferð í Húsasmiðjuna eða Byko og fær að skoða í ruslagáminn hjá þeim. Bara að brosa og segjast vera að leita að mjög litlum bútum til að föndra með! Svo þarf að sníða þetta til með bakkasög. Ekkert mál! Bara helst ekkert þykkara en 3mm, 4 í það mesta!

Blikkið hefur þann ótrúlega kost að það er hægt að festa við það segul. Þá er hægt að verða sér úti um þunnt segulstál og líma undir kallana, og þá haldast þeir vel á sínum stað! Gallinn er sá að það er erfiðara í meðförum. Til að redda sér blikki þarf að kíkja í blikksmiðju. Útskýra svo fyrir verkstjóra eða öðrum slíkum aðila að mann vanti nokkra litla, slétta búta, en þeir verða að vera með plasthúð 8annars getur málmurinn rispað borðið og gert þig MJÖG óvinsælan). Mæli með stálinu sem Gardastál í Garðabæ er með… En ekki segjast þekkja mig, ég þarf að halda orðsporinu ;)

Maður þarf að vera með málin alveg á hreinu (upp á millimeter) þegar maður fer í blikksmiðjuna, og eins gott að klikka ekki á því, og gera þetta fyrir heilu herjina í einu. Því það er best að fá blikkarana til að sníða fyrir þig bútana í vélklippum svo þeir séu upp á millimeter, og hliðarnar alveg beinar. Það er tómt klúður að ætla að klippa þetta niður sjálfur með blikkklippum.

Allavega, þegar búið er að ákveða hvaða efni þarf í plattann sjálfan þarf að ákveða hvort maður vill hafa kanta, og þá hversu breiða. Sjálfur hef ég 4mm kanta allan hringinn. Þá þarf að kaupa balsavið til að hækka kantana upp. Ég kaupi 4mm stangir í Tómstundahúsinu. Ekki dýrt, um 50 kall meterinn minnir mig.

Svo þarf að hafa málin á hreinu. Þá tekur þú herdeildina og áttar þig á því hversu mikið pláss hún þarf. Ef þú ert með 25 orka sem þú vilt raða 5x5 á platta þarft þú 5x5 tommur. Við það bætir þú breidd kantsins tvisvar, og bætir svo við 2 mm eða svo til að allt passi örugglega. (4mm + 5 tommur + 2mm + 4mm). Og svo er efnið sniðið til. Munið að mæla baseana undir köllunum, til dæmis eru hefbundnir riddaraliðsplattar ekki ein tomma (sem er 25,4 mm) heldur 24mm. Ekki spurja mig af hverju…

Svo er bara að líma kantana á. Tré á tré er best að nota trélím í (duhhhhh…), en tré á blikk er betra að nota gamla góða UHU, eða álíka ‘all purpose’ lím (ekki tonnatak). Svo er balsað sniðið til svo það passi, límt á, og haldið í klukkutíma eða svo með fullt af klemmum frá mömmu gömlu (bara ekki gera þetta þegar það er dót í þvottavélinni, sumar mömmur eru ekki skilningsríkar…).

Þá er plattinn kominn. Svo þarf bara að spreyja hann svartann, mála kantana græna (eða hvernig sem þið viljið) og líma á flock, eða hvað sem þið hafið á beisunum á köllunum sjálfum. Ég hef það sem er undir köllunum svart, mér finnst það flottast þannig, auk þess rýrir hvert lag af málingu segulaflið sem heldur köllunum mínum niðri, sem er ekki gott…

Og þá er kominn eitt stk movement platti á spottprís og sama sem engum tíma! Svo er náttúrulega um að gera að taka bara einn sunnudags eftirmiðdag í þetta og gera fyrir nokkrar sveitir í einu.

Þetta gerir bæði auðvelt að hreyfa kallana (og leik einn að ‘wheela’) og svo lítur þetta svona líka helv… vel út! Og látið ekki eins og þið hafið ekki tíma, jólafríði framundan og allt!

Happy föndring :)

Brjánn Jónasson

PS: Fyrir þá sem hafa meiri peninga og minni tíma er hægt að panta bestu movement platta í heimi á síðunni www.gf9.com. Það eru mergjaðir plattar!