Road Test: Mazda 323 Ég komst yfir eintak af ’88 árgerð af Mazda 323 um daginn, með forláta vél sem upphaflega var með 1,3 lítra af sprengirými. Við fyrstu sýn mætti halda (og með réttu) að þessi bíll sé frekar mikil drusla og til að bæta gráu ofan á svart er bíllinn búinn sjálfskiptingu sem er svo óþægileg að það þola ekki allir hryggjaliðir mannslíkamans höggið af skiptingu úr 1 í 2 gír (ég er að skrifa þetta með prik uppí munninum á mér og nota það til að pikka á lyklaborðið). Óreyndur aðili sem ætlar að reyna að ræsa bílinn, gæti orðið fyrir vonbrigðum í fyrstu þegar það ekki tekst, en verður bara fyrir enn meiri vonbrigðum ef honum tekst að koma honum í gang eftir nokkur óskemmtileg hljóð úr startaranum, sem mér skilst að sé gallaður í flestum þessara bifreiða. Fyrir þeim sem geta greint hvað er að bílum eftir hljóðunum sem þeir gefa frá sér, er augljóst að einn stimpillinn virkar ekki, en ef menn hafa ekki slíka snilligáfu er ekkert að óttast því það kemur einnig í ljós þegar reynt er að koma bílnum af stað.

Eftir að hafa komið bílnum úr stæðinu og komið honum aftur í gang eftir að hafa drepið á honum, finnur maður hræðilega olíubræðslulykt sem rennir stoðum undir þann grun minn að eitthvað sé að bílnum. Önnur lyktarlaus lykt, berst manni einnig að vitum, sem samanstendur aðallega af CO og CO2 sameindum, sem hafa sloppið útum risastóra gatið á pústreininni við vélina. Bíllinn er soldið hægur uppí eins og 30, en eftir það verður hröðunin næstum engin: hræðilegt högg frá sjálfskiptingunni sem með tíð og tíma hefur losað alla innanstokksmuni þannig að það leikur allt á reiðiskjálfi inní bílnum, bendir ökumanni á að nú sé bíllinn kominn á hæfilegan hraða til að nota gír no. 2. Nokkur flaut frá pirruðum ökumönnum fyrir aftan mann og ævintýraleg ferð uppí skóla hefst.

Til að halda bílnum gangandi á rauðum ljósum og við biðskyldu, þarf að setja bílinn í njútral og gefa honum soldið inn með bensínfætinum meðan fyrrverandi kúplingsfótur heldur við bremsuna. Annars er voðinn vís, i.e. bíllinn drepur á sér og alls óvíst að hann fari nokkurntíman í gang aftur, ökumönnum fyrir aftan mig til mikilla óþæginda. Ef fyrir kemur að nota þurfi bremsuna til að stöðva bílinn, heyrist ljúft og skerandi málmhljóð þegar bremsudiskurinn kemst í snertingu við járn sem einusinni hafði einhverskonar viðnámsmálm til að taka við skriðorku bílsins. Furðulegt nokk, þá stoppar bíllinn að lokum, þó ég sé ekki alveg viss hversu mikinn þátt bremsurnar áttu í því. Þegar loksins er komið að leiðarlokum er maður kominn með smá hausverk af eiturgufunum frá bílnum og af því almennt að keyra bílinn.

Fyrir bíl sem eyðir 11-12 lítrum á hundraðið (því eitt sprengihólfið er óvirkt en tekur ennþá til sín bensín, sem síðan seitlar útí smurolíuna) og er alls ekki skemmtilegur í akstri, ertu ekki að fá mikið fyrir peninginn sem fer á bensíntankinn. En sértu heppin/n eins og ég og getur fundið svona gott eintak fyrir lítinn pening (0-30þúsund), þá held ég að ég gæti fyllilega mælt með þessari tegund bíla fyrir hinn fátæka námsmann sem þarf bara að komast í og úr skóla.

Á heildina litið eru mözdur vanmetnir bílar, sem hafa að mínu mati jafngóða ef ekki betri endingu en toyotur, og svipaða bilanatíðni.

Ending: B+
Aksturseiginleikar: D+
Bensíneyðsla: C-
Bilanatíðni: B+
Verð: A+

Að lokum vil ég hvetja aðra bílaá-huga-menn að skrifa greinar um bílana sína og lýsa kostum þeirra og göllum, þó þeir séu ekki endilega sportbílar, því kaupgeta fólks er eins mismunandi og það er margt :)