Jæja, þá skulum við reyna að lífga aðeins upp á greinaumræðurnar hérna og varpa fram þessari klassísku spurningu: Er spawnkamp lögleg taktík eða ekki?

Ég, með þónokkuð marga klukkutíma af BF spilun að baki, hef upplifað báðar hliðar spawnkamps ansi oft. Eftir eilitla ígrundun hef ég komist að þeirra niðurstöðu við sjálfan mig að þetta sé lögleg taktík, þó það megi að sjálfsögðu deila um hversu siðlaus hún er.

Byrjum á skilgreiningunni á spawnkampi fyrir þá sem ekki vita:
Að spawnkampa er að fjölmenna með skriðdreka, flugvélar og infantry að þeim spawnpunkti óvinarins sem ekki er hægt að ná. Þetta er yfirleitt gert þegar spawnkampandi liðið hefur náð öllum hinum spawnpunktunum. Þeir koma sér fyrir á eina staðnum sem óvinurinn getur spawnað á og drepa hann um leið og spawn á sér stað.

Fyrir liðið sem lendir í spawnkampi er þetta leiðinleg reynsla og virðist alveg svakalega ósanngjarnt, en hvað gerist ef við lítum á þetta frá sjónarhorni hins liðsins?
Þú ert í leik sem snýst um að drepa óvininn, og ná flöggum. Þú ert búinn að ná öllum flöggum sem hægt er að ná. Óvinurinn kemur aðeins frá einum stað og þú veist nákvæmælega hvar hann er. Hvað á maður annað að gera en að fara þangað? Bíða rólega eftir að óvinurinn safni liði svo hann geti nú gert tilraun til að hrekja þig aftur og ná flöggum? Eins íþróttamannslega og vinalega sem það hljómar virkar það bara einfaldlega ekki. Fólk vill vinna og gerir hvað sem er (innan “löglegra” marka) til þess að gera það.

Þar sem aðalstarf mitt er scout hef ég ekki tekið þátt í mörgum spawnkömpum en ég hef nú samt prófað þau nokkur. Það er ekki eins og mér líði eitthvað rosalega vel við það að ná 5 killum í einu þegar allir spawna heldur er það sem fer í gegnum huga minn á þeirri stundu meira líkt: “Þetta er kannski ekki það skemmtilegasta…en hvað get ég annað gert ef ég vil vinna?”.

Spawnkamp sem á sér stað þegar spawnkampandi liðið heldur ekki öllum flöggum finnst mér ekki beint ólöglegt heldur meira svona……heimskulegt, því það er ekkert mál fyrir það lið að spawna bara annarsstaðar og nýta sér það að hitt liðið er að eyða 2-3 tönkum í pointless spawnkamp.


Þetta er allt spurning um það hversu mikla ábyrgð annað liðið á að bera varðandi mistök hins liðsins. Ef annað liðið missir öll flögg og er ýtt aftur að beisinu sínu, á það alveg skilið að fá séns á að taka sig saman í andlitinu í friði og ráðast á þig? Ef þú svarar þessu játandi, leyfðu mér þá að spyrja þig að öðru:

Þú ert í skriðdreka og sérð óvinasniper hlaupa að tómum skriðdreka rétt hjá. Skýturðu hann áður en hann kemst í tankinn eða gefurðu honum séns á að komast í tankinn svo þið getið barist drengilega?

Þú ert í flugvél og sérð óvinainfantry á jörðu niðri hlaupa að tómri flugvél. Þú getur drepið hann áður en hann kemst í vélina, en það væri nú ekki íþróttamannslegt, er það nokkuð? Myndir þú leyfa honum að komast í vélina svo þið getið báðir skemmt ykkur jafn vel í drengilegri baráttu?


Þessi tvö dæmi og mörg önnur svipuð eiga það sameiginlegt að snúast um það að _þú_ hefur yfirhöndina, og ræður þessvegna hver lifir og hver deyr. _Þú_ komst í tank á undan honum, _þú _ komst á flugvél í loftið á undan honum, o.s.frv. Er rangt að nýta sér sína yfirburði? Þetta finnst mér svipa afar mikið til spawnkamps þar sem í grunninn er þetta nokkurn veginn það sama, að nýta sér yfirhönd sína.

Ég skýt fólk miskunnarlaust í hausinn sem ég sé að er að skrifa, er away from keyboard, eða einhverra hluta vegna stendur bara aleitt og yfirgefið og bíður eftir að vera skotið. Er það rangt hjá mér? Ef ekki, afhverju er spawnkamp þá svona rangt?

Ég ætla ekki að skrifa meira um mína skoðun á málinu í bili og ætla að leyfa ykkur að gefa ykkar skoðun á málinu. Ég veit að þetta hefur verið rætt áður en nú eru komnir nýir meðlimir í þetta samfélag og þar að auki lappar fátt jafn mikið upp á deyjandi greinaskrif á þessu áhugamáli en góðar rökræður um mjög umdeilt og tvírætt málefni.

Zedlic