Rökkurbýsnir Sagan hefst árið 1635 á Íslandi og sýnir hugarheim aðalpersónunnar, Jónasar ´´lærða´´ Pálmasonar á leið til algerrar brenglunar þar sem hann er farinn að hugsa um fugla sem vini sína líkt og fólk. Jónas er staddur á eyju nokkurri nefndri Gullbjarnarey og hafði verið sendur þangað í útlegð nokkrum árum fyrr fyrir galdra.Á milli þess sem hann telur daga frá útlegð og virðir fyrir sér fangastað sinn segir rifjar Jónas upp ævi sína, allt frá því að hann var lítill drengur og lærði að draga til stafs hjá afa sínum og safna hrafnshræjum í leit að Bezóar meðan hann læknaði sjúka með bókþekkingu sinni, hvernig hann upplifði hina leynilegu Maríudýrkun eftir siðaskiptin og þar til hann fór að sjá um sitt eigið bú og fór að kveða niður drauga með vini sínum. Meðan hann rifjar þetta upp er honum bjargað úr Gullbjarnarey og hann færður til Danmerkur ásamt syni sínum til þess að vinna við háskóla þekkts prófessors. Þeir dvelja þar þó ekki lengi og eru sendir aftur til Íslands með konungskipun um að dómur yfir Jónasi sé gerður ógildur. Heimamenn taka ekki við því og láta hann dúsa áfram í eynni í nokkur ár til viðbótar þar til loks honum er leyft að koma aftur til lands nokkrum árum síðar.

Sjón, höfundur bókarinnar, gerir hér góða grein fyrir lífi Íslendinga og hvernig þeir sáu heiminn. Án nokkurrar vísindlegrar þekkingar eða hugsunar er fólk þess tíma drifið áfram af þjóðsögum og hjátrú. Jónas Pálmason er holdgervingur allra vandamála og þekkingar í þeim heimi og eftir að hafa sjálfur upprætt margan djöfulinn og óheillindin sem fólk bjó við er hann sjálfur rekinn burt sem uppspretta illfara almúgans. Jónas og fjölskylda hans geta ekki sigrast á þeirri ranglátu meðferð fyrr en sjálfur Danakóngur hefur skipað fyrir um sakleysi Jónasar að honum er gefin sakaruppgjöf eftir margra ára baráttu.

Jónas ´´lærði´´ Pálmason, sögumaður bókarinnar og saga, lýsir sjálfum sér sem dökkhærðum, smáeygðum og hökustuttum, langt á milli augnanna en nefið í algeru meðallagi. Í sögunni birtist Jónas sem forvitinn og rökhugsandi maður, veiklundaður og auðveldur til að ráðskast með en kurteis ofan á allt annað. Heimspeki hans og pælingar myndu koma honum langt í háskólasamfélagi en á nötrum klakanum Íslandi kemur hann sér bara í klandur með eilífu m útúrdúrum sínum á lífið. Þrátt fyrir það heldur hann sér á lífi með styrkri hönd eiginkonu sinnar Sigríði, ljóshærð og smávaxin af austurlandi. Líkt og Jónas er Sigríður heilluð af vísindum, þó aðallega stjörnufræði en eftir því sem líður á eldri árin fer Sigríður að verða jarðbundnari og verður leiðbeinandi Jónasar gegnum ellina og er honum trú allt til dauðadags.

Rökkurbýsnir, þegar á heildina er litið, er handbók fyrir sautjándu aldar vitundina. Ótrúlegir útúrdúrar höfundar gera ímynd huga Jónasar fullkomna og trúverðuga, og leiðir lesanda með sér í gegnum sígandi geðbilun og mörkin milli veruleika og ímyndunar verða engin í gegnum bráðgáfaðan huga fræðimanns sem er myrkvaður af guðhræðslu og þjóðsagnahjátrú. Í bókinni er farið í gegnum næstum allt sem fólk þess tíma sá heiminn sem, og hálf-goðsagnakenndir annálar um skrímsli og töfrajurtir á milli kaflaskila gera útslagið um trúverðugleika heimsins sem höfundur sér fyrir sér í gegnum augu löngu látins fólks. Forleikur sögunnar er sá undursamlegasti sem líklegast nokkurn tímann hefur verið saminn, og sýnir ótrúlega ádeilu. Í stuttu máli fjallar forleikurinn um Lúsífer erkiengil sem þjónar guðinum almáttuga Jave. Lúsífer kemur heim aftur í ríki Jave eftir að hafa fellt eina verstu skepnu veraldar til þess eins að sjá bræður sína og systur englana í drykkjukasti meðan Jave dáist af veru nokkurri er handfjatlar sinn eigin skít. Jave segir þessa skítkastandi veru sína mestu og bestu sköpun og arfleiðir hana að veröldinni, en Lúsífer snýr baki við þessum óskapnaði og er sendur í útlegð ásamt mörgum öðrum sem ekki vildu falla á kné fyrir þessu meistaraverki, meistarverkinu Adam. Þarna veltir höfundur fyrir sér í allt öðru ljósi brottkasti Satans og haturs hans á mannkyninu, að kannski er Kölski ekki holdgervingur illskunnar í Biblíunni heldur eins konar týndur sonur sá sem Jesú á að hafa notað í dæmisögum sínum. Sjón hefur í þessu meistaraverki er hann nefnir Rökkurbýsnir fangað Ísland á sautjándu öldinni og fært tuttugustu og fyrstu aldar lesendum til þess að íhuga, að bera saman menningarheima. Við horfum á hina fjögur hundruð ára forfeður okkar sem auðtrúa hrædda og ólærða hunda, en hver er munurinn á þeim tíma og okkar? Enn í dag eru jú sömu persónur, sá ráfandi, sá ráðskandi, sá ríki, sá sem liggur á botninum og sá sem hugsar og segir frá.