Það er útgefið allt of mikið af bókum á Íslandi. Það vita allir. En gróðinn í jólabókabransanum er slíkur að það borgar sig að hella hvaða rusli sem er í neytendur og sleikja upp væntanlega kaupendur með frösum á borð við “Þessi bók á að vera til á hverju menningarheimili.”

Allir íslenskir rithöfundar, góðir og slæmir, vita að það er til hafsjór af lélegum íslenskum bókum. Og þá tek ég ekki með auglýsingapjésa á borð við æviminningar Þráins Bertelssonar og Sverris Hermanssonar, þar sem einasta nýjungin er minnisleysi viðkomandi. Venjulegur íslendingur þarf ekki annað en að renna augum yfir íslenska bókakostinn sinn og sjá að meistarverkin fylla ekki einu sinni hálfa hillu frá IKEA. Það líða ár, jafnvel áratugir áður en nokkuð markevrt gerist í íslenska bókaheiminum.Hvort sem um er að ræða ljóð, smásögur eða skáldverk. Það er einfaldlega ekki hlaupið að því að skrifa góðar bækur. Krefst hæfileika. En slíkt smáatriði hefur aldrei þjakað íslenska Jólabókahöfunda eða útgefendur. Því það er góður peningur í Jólabókaruglinu, og þess vegna er auðveldasta lausnin alltaf valin. Viðtalsbækur og reyfarar að erlendri fyrirmynd, þar sem yfirborð og staðlar eru stikkorðið. Sumir útgefendur láta ekki einu sinni prófarkalesa ruslið sem þeir reyna að pranga inná neytendur. Fyrir útgefandan snýst þetta allt um að fá afurð inní Jólabókahringekjuna í tæka tíð. Það er aldrei að vita hvað stressuðum ömmum og foreldrum dettur í hug að kaupa fimm mínútur fyrir lokun á Aðfangadag.

Auðvitað ættu íslendingar að vera búnir að sniðganga Jólabókaruglið fyrir löngu. En gráðugir útgefendur reyna að halda lífi í Jólabókalíkinu með auglýsingum og skrumi. Og fjölmiðlarnir halda kjafti, því annars missa þeir af auglýsingatekjum. Neytendur eru í raun þeir einu sem verða að gagnrýna og ritskoða ruslið sem reynt er að pranga inn á þá.