Jæja þá er hún loksins komin út, fimmta Dark Tower bókin eftir Stephen King.

Ég beið og beið eftir þeim degi þegar bókin kæmi loksins til Íslands. Og þegar hún kom rauk ég svo út í búð og keypti hana samdægurs, settist niður og byrjaði að lesa, stóð varla upp fyrr en ég var búin með bókina.

Þessi fimmta bók heldur áfram að segja frá leið Rolands og félaga að turninum. Að þessu sinni koma þau að bæ þar sem bæjarbúar eiga við ansi stórt vandamál að etja og sættast á að hjálpa þeim. Inn í atburðarásina fléttast persóna úr annarri bók Kings, og gerist sagan bæði í hinum “raunverulega” heimi og í “mid world”, þar sem söguhetjurnar eru núna.

Þetta er glæsilegt framhald turnsins, veldur ekki vonbrigðum og var biðin eftir henni vel þess virði.

Það verður sem betur fer ekki jafn löng bið eftir næstu bók því Song of Susannah á að koma út í byrjun næsta árs og seinasta bókin rétt nefnd The Dark Tower á að koma út í lok næsta árs.

Það er virkilega spennandi að vita hvort þau eiga einhvern tímann eftir að finna turninn og hvort það verði þau öll eða hvort einhverjir eigi eftir að heltast úr lestinni. Ég get ekki beðið.

Ég mæli eindregið með þessari bók, en þó ekki nema þið hafið lesið hinar fjórar: The Gunslinger, The Drawing of the Three, The Waist Lands og Wizard and Glass. Því þetta eru ekki sjálfstæðar sögur heldur í raun ein löng bók. Það yrði eins og að byrja að horfa á bíómynd rétt fyrir endann.