Apple Event 9. sept. 2009 - Let's Rock'n'Roll Jæja, nú er viðburðurinn búinn í Cupertino, Kaliforníu. Steve Jobs kom óvænt upp á svið og kynnti þetta ásamt Phil Schiller. Miðað við hvernig þessir atburðir eru þá kom sosem fátt á óvart. Tvennu hafði þó verið spáð: iPod Classic myndi verða tekinn af markaði og úr line-upinu, og að iPod Touch myndi fá sömu vélbúnaðaruppfærslu og iPhone 3G S fékk í júní (500 Mhz ARM örgjörva og 256 MB af RAM auk 3,2 mpix myndavél).

Þetta gekk þó ekki eftir og var það iPod Nano sem fékk helstu uppfærsluna. Núna kemur hann með myndavél, VGA upplausn, 640x480 upplausn með allt að 30 römmum á sek. Einnig er Nike+ skrefamælirinn orðinn innbyggður (var áður fylgihlutur keyptur í setti frá Nike) líkt og var gert með iPhone 3G S. Svo til að toppa þetta er núna innbyggður FM tuner í tækið. Og tvö verð með 2 stærðum, 149$ fyrir 8 Gb og 179$ fyrir 16 Gb. Þetta er einföld verðlagning og ég spái alveg þvílíkri sprengingu í sölu á nano-inum á þessu ári og í jólavertíðinni. Verðið er afar hagstætt miðað við hvað þú ert að fá.

iPod Classic fékk einfalda uppfærslu upp í 160 Gb, og hann verður á sama verðinu og áður. Líkleg ástæða þess að þessum síðasta harðdisks-based spilara frá Apple er haldið inni í ár í viðbót er bara sú að hann er að seljast alveg þokkalega og sýnir að það er sæmilega stór hópur fólks sem er með stórt tónlistarsafn og vill hafa það allt á einum stað. Annað sýnir iPod Shuffle. Hann var rétt kynntur í nýjum litum, sama verðið, og segja sögur að hann hafi alls ekki selst nægilega vel, og kæmi mér ekki á óvart að ef hann fer ekki að seljast betur þá verði ný hönnun á honum kynnt í vor.

iPod Touch heldur áfram að stækka hægt og rólega, núna eru 3 mismunandi týpur, 8 GB fyrir 199$, 32GB fyrir 299$, og 64 GB fyrir 399$. Phil Schiller talaði um magical price point 199$ sem þeir hafa nokkuð lært af sölu iPhone, og búast þeir við mikilli sölu þar. En það er ekki mikið að fara 100$ hærra og fá þá fjórfalt geymsluplássið. Mikil áhersla var lögð á leiki, og sýndu m.a. Electronic Arts, Ubisoft og Gameloft nýja leiki sem litu vel út og sást í markaðssetningunni að það er verið að reyna að keppa á sama markaði og Sony PSP og Nintendo DS/DSi. Kynnt var möguleiki nýju iPod Touch-ana að keyra OpenGL kóða sem getur auðveldað kóðum ,hönnun og portun leikja yfir á vélina. Þetta snertir okkur þó ekki mikið þar sem iTunes Store er ekki hér á Íslandi svo við neyðumst til að svindla okkur inn sem viðskiptavinir.

Svo var einnig kynnt iTunes 9, með nýju lúkki og nýjum fídusum, eins og alltaf er á þessum viðburðum. Líka er komin ný hugbúnaðaruppfærsla fyrir iPhone /iPod Touch - 3.1

Apple TV kom ekkert við sögu núna, enda ekki nema von, þar sem þessir viðburðir einblína á iPods en ekki neinar aðrar vörur frá Apple.