Í sambandi við reykingarbannið á næsta ári…

Þið reykingarfólkið, allavega eitthvað af ykkur eruð búin að kvarta yfir því að það sé verið að svipta af ykkur mannréttindin og fáið bara að reykja í einhverjum “óþægilegum og þröngum klefum” og það sé eiginlega bara afsökun hjá okkur reyklausa fólkinu að vilja borða á veitingarstað án þess að þurfa að finna vondu lyktina af reyknum sem kemur frá sígarettunum ykkar.

Það hafa verið gerðir nöldurkorkar um reykingarbannið og ég man eftir því að í einum korknum var stofnandinn 16 ára og þar með reykir undir þeim aldri sem lög leyfa hér á landi og er að berjast fyrir sannkölluðum réttindum ykkar reykingarmanna, er það eitthvað til að vera stoltur af? Auðvitað hafið þið réttindi, þið eruð manneskjur rétt eins og allt annað fólk hér á landi. Þess vegna ættum við reyklausa fólkið ekki að vera svo eigingjarnt að vilja að geta borðað á veitingastað eða á öðrum almenningsstöðum án þess að þurfa að anda að okkur reyknum ykkar og vera í “óbeinum reykingum”, og þar með eiga hættu á að fá krabbamein og vera í lífshættu alveg eins og kom fyrir Hauk Morthens sem er eða ætti ég að segja VAR frændi Bubba Morthens sem söng á almenningstöðum nánast daglega áratugum saman fyrir framan fullt af fólki sem reykti eins og strompar. Auðvitað er ekki búið að fullsanna að óbeinar reykingar séu skaðlegar en það eru til ýmsar kenningar, þar á meðal þessi með Hauk Morthens. Nú þegar ég pæli í því, erum við reyklausa fólkið sem erum hlynnt þessu reykingarbanni svo eigingjarnt eftir allt saman? Persónulega finnst mér það ekki.

Það er stór hluti reykingarmanna sem vill hætta að reykja en getur það ekki vegna fíknarinnar, þess vegna er ekki mikið hægt að gera í því máli, er það nokkuð? Nei, en þegar það fólk hugsar til baka þá veit það ekki hvað það var að hugsa daginn sem það prófaði fyrst að sjúga reykinn ofaní lungun og drepa milljónir fruma, og svo milljónir fruma með næstu sígarettu og svo næstu, og bara með þessum eina andardrætti með fyrstu sígarettuna klúðruðuð þið hluta af lífsævi ykkar vegna forvitni ykkar á því hvernig það er að reykja, hvernig það er að fá að vera meðlimur í “svala” hópnum. Þetta er ykkar líf, ykkar líkami, ykkar val og foreldrarnir eða aðrir eiga ekki að skipta sér af, er það nokkuð? Þeir vilja gera það sem er best fyrir ykkur, fá ykkur af reykingunum en er það þeirra að velja hvað er og hvað er ekki gott fyrir ykkur? Ekki endilega, en sum ykkar hafa kannski ekki fattað í heild hve gott það er að eiga foreldra sem hugsa um mann og vilja ekki að þið deyjið hægum og kvalafullum dauða vegna reykinganna þegar líður að eldri árum.

Hver unglingur sem hefur verið partur af íslensku unglingasamfélaginu hér á Íslandi ætti að hafa orðið vitni að því hvernig reykingar hafa á dramatískan hátt breitt sér yfir unga fólkið. Í 8. og 9. bekk og jafnvel stundum 7. bekk þá er það hópsálin sem ríkir í unglingasamfélaginu. Unglingar á þessum aldri eiga það til að hanga saman í hópum tímunum saman. Í svona hópum eru þó reglur, það er einn sem nýtur mestrar virðingar innan hópsins, stundum tveir eða þrír. Í, því miður, of mörgum tilfellum þá reykir þessi ákveðni aðili, sá sem nýtur mestrar virðingar hjá hópnum. Ef hann reykir þá reykja nokkrir aðrir í viðbót í hópnum. Auðvitað eru margir í hópnum andstæðir því að vilja reykja en þeir ráða ekki við þetta einfaldlega, þeir geta ekki annað en látið undan hópþrýstingnum og tekið við líkkistunaglanum og sogið hann, og þar af leiðandi, með þessum eina, örlaga ríka “smók” rústa þeir næstu árum lífs síns og í mörgum tilfellum restinni af árum lífs síns.

Og svo ein spurning, hvað finnst ykkur fólkinu sem lenti fyrst í að prófa að reykja eftir að vinur ykkar sem reykti bauð ykkur uppá sígarettu og sagði að þið verðið að prófa þetta, þið eruð svekkt útí hann, er það ekki? Eða kannski er ykkur alveg sama, það eru hvort eð er svo margir sem byrja að reykja á 13-14 ára aldri eða jafnvel niður í 12 ára aldur og eru ekkert að deyja útaf því, er það nokkuð? Þeir eru alveg hraustir…í bili. Kannski sjáið þið loksins eftir þessu þegar þið lendið í öndunarvél seinna í lífinu, fáið krabbamein eða eyðileggið hjartað.

Þið foreldrarnir hér á Huga sem reykja og eiga krakka, þið eruð ekkert rosalega ánægð með að reykja, er það nokkuð? Þið eruð orðnir háðir þessu . En er ekkert sem hægt er að gera? Jú! Þið hafið ekki nægt sjálfstraust! Mottó-ið mitt er það “að með sjálfstrausti fæst allt”. Það geta allir látið af þessum ósið og hætt þessu rugli. Þið eruð nokkuð vissir um að hlutirnir eiga ekkert eftir að versna fyrir utan kannski krabbamein eða eitthvað en hvað gerið þið þegar þið sjáið að ykkar eigin börn eruð byrjuð að reykja og segja svo við ykkur til varnar: ,,Blessaður, verið þið ekkert að segja neitt, þið reykið sjálf.” Hlýtur að vera dálítið svekkjandi að vita að krakkarnir ykkar reykja undir lögaldri og eiga það til að biðja eldra fólk um að kaupa fyrir sig sígarettur, ekki satt? Auðvitað er ég ekki að segja að þetta eigi við alla foreldra sem eru í reykingunum og eiga krakka en þetta getur samt gerst, að ykkar krakkar byrja að reykja og það ábyggilega vegna þess að þeir vita að þið getið nú ekki skammað þá fyrir að gera sömu mistök og þið gerðuð í fortíðinni, að prófa að reykja. Það sem fer rosalega í mig er það að það eru í raun og veru til foreldrar sem eru sama um ákvarðanir barna sinna og hugsa bara: ,,Jæja, þetta er hans/hennar ákvörðun, ekki mitt vandamál.”.

Þið sem eruð 12 – 14 ára og eruð að lesa þetta, og ef þið reykið, þá hafið þið eflaust orðið fyrir áhrifum hópþrýstings hinnar grimmu (en stundum góðu) hópsálar sem fyrirfinnst hér í íslenskri hópmenningu. Þið eruð ekki ‘cool’ af því að þið reykið. Það gæti látið ykkur finnast töff eða “fullorðna manneskju” að reykja en það gerir ykkur það ekki. Látið af þessum viðbjóði.

Jæja, nú er komið að ykkur, ykkur er frjálst að tjá ykkur og ekki vera feimin við að andmæla skoðunum mínum eða meðmæla þeim, segið bara það sem ykkur í hjarta býr…