Ýmislegt rekst maður skemmtilegt á þegar maður skoðar áhugaspuna á netinu. Meðal þessa eru skondnar skammstafanir - PG-13, G, NC-17, R - sem virðast hafa einhverja merkingu, a.m.k. fyrir enskumælandi lesendur. Í von um að hjálpa þeim sem enn eru í myrkrinu ætla ég nú að ljóstra upp leyndardómnum: Þetta er bandaríska kvikmyndamatskerfið.

Hér kemur stutt yfirlit yfir skammstafanirnar og merkingu þeirra.

G þýðir öllum leyft (stendur held ég fyrir General Viewing). Útskýrir sig nokkuð sjálft.

PG þýðir ekki við hæfi ungra barna, eða Parental Guidance Recommended. Ekkert sérstakt aldurstakmark, en gefur til kynna að eitthvað í myndinni/sögunni geti farið fyrir brjóstið á ungum lesendum.

PG-13 er sambærilegt við bannað innan 12. Parental Guidance Recommended, Not Suitable for Children under 13. Í slíkum sögum/myndum er fjallað um efni sem alls ekki þykja við hæfi mjög ungra barna og gætu jafnvel farið illa í þau sem eru komin eitthvað inn í tveggja stafa tölurnar.

R er svo svipað og bannað innan 16. Kvikmyndir sem fá þennan stimpil má enginn undir 17 ára aldri sjá (í USA) nema í fylgd með fullorðnum. Nú er efnið orðið heldur gróft, ofbeldi, munnsöfnuður eða kynferðislegar vísanir í textanum þykja fara út fyrir almenn velsæmismörk, a.m.k. hvað ungmenni varðar.

Síðasti og harðasti stimpillinn er NC-17. Þetta er sambærilegt við stranglega bannað innan 16, og í Bandaríkjunum fær enginn að sjá kvikmynd með þessu mati nema að geta framvísað skilríkjum upp á að vera eldri en 17. Enginn sem er undir lögaldri eða viðkvæmur fyrir ætti að lesa/sjá þetta.


Nýlega hefur málið hins vegar vandast enn frekar þegar www.fanfiction.net sagði skilið við kvikmyndamatskerfið og skipti yfir í annað kerfi frá www.fictionratings.com. Þetta kerfi virkar svo:

B: Ætlað ungbörnum frá árs aldri. Barnatexti.

K: Ætlað börnum 5 ára og eldri. Enginn munnsöfnuður, ofbeldi eða fullorðinsleg málefni.

K+: Ætlað börnum frá 9 ára aldri. Minniháttar ævintýraofbeldi án meiðsla og væg blótsyrði geta skotið upp kollinum.

T: Ætlað unglingum 13 ára og eldri. Eitthvert ofbeldi, blótsyrði og ýjað að fullorðinsmálefnum.

M: 16 og eldri. Lítil sem engin takmörk á orðbragði, málefni sem krefjast talsverðs þroska lesenda, kynferðismál og ofbeldi.

MA: 18 og eldri. Innihald aðeins ætlað fullorðnum lesendum.


Vona að þetta hjálpi fólki í skammstafanafrumskóginum.

Kveðja,
dernhelm