Poisson dreifing
Siméon Denis Poisson var einstaklega afkastamikill vísindamaður. Lagrange og Laplace voru leiðbeinendur hans og vinir, og hann tók við prófessorsstöðu Fourier þegar hún losnaði árið 1806. Tuttugu og einu ári síðar gaf hann út bók um líkindareikning er varðaði dómsmál. Þar kom fram dreifing sem nefnd er eftir honum: Poisson dreifingin. Hún lýsir líkunum á að fjöldi atburða á gefnu tímabili sé N, þegar tíminn að næsta atburði er óháður atburðunum á undan. Þekki maður meðaltíðnina, þá getur maður reiknað út þær líkur með

P(N=k)= \frac{\lambda^k e^{-\lambda}}{k!}

þar sem meðaltíðnin er\lambda.

Undir lok nítjándu aldar lýsti rússneski hag- og tölfræðingurinn Ladislaus Bortkiewicz fjölda dauðsfalla í prússneska hernum af völdum hestasparks með dreifingunni. Upp frá því var dreifingin innleidd í verkfræði öryggisprófana. Bortkiewicz varð frægastur fyrir einmitt þessar rannsóknir, og einhverjir hafa lagt til að dreifingin verði nefnd eftir honum: Bortkiewicz dreifingin. Framburðurinn er eftirlátinn lesendum sem æfing.

Annað sem fylgir Poisson dreifingunni er barneignaraldur íslenskra kvenna. Bláu reitirnir á myndinni eru tíðni hvers aldurs fyrir sig, en rauðu tíglarnir eru Poisson dreifingin. Meðalaldurinn er \lambda = 29 og til að fá fjölda mæðranna af tilteknum aldri fyrir eitt ár, má margfalda gildið á myndinni með heildarbarnafjölda ársins. Gögn hagstofu sem liggja myndinni til grundvallar ná aðeins upp að fimmtugsaldri, og afgangnum er hópað saman. Gögnin hér ná frá 1971-2010, en þar sem aðeins ein kona yfir fimmtugu eignaðist barn á þeim tíma (árið 2007 - í góðærinu, að sjálfsögðu) er það ásættanleg nálgun.