Ég er að spá í að forrita tvo heila sem spila pong. Hugmyndin er að sjónfrumur hvors heila (taugarnar sem rafboðin verða send inn um) verði tengd við stöðu boltans lóðrétt, þ.e. ef lóðréttu hnit boltans eru 5 þá verður fimmta efsta taugin virkjuð, og þar fram eftir götunum. Annað þannig sett væri fyrir stöðu brettisins. Mér dettur í hug að hafa tvívítt fylki fyrir taugamótin, þannig að ein víddin sé númer taugar og hin víddin listi tauganna sem tengjast henni. Mér dettur í hug að hafa núllta eintak seinni víddarinnar fjölda taugamóta hverrar frumu, en ég veit ekki hvort það sé einfaldasta lausnin.

Það er spurning hvort ég ætti að hafa heftandi taugamót til viðbótar við virkjandi. Slíku mætti áorka með því að hafa neikvæða taugartölu í annarri vídd fylkisins. Svo eru tvær taugar sem tengjast út úr kerfinu sem stýra hreyfingu brettisins upp og niður. Hugmyndin er svo að hafa stökkbreytingarkóða sem býr til breytta útgáfu vinningsheilans, sem svo keppir við hann og þar fram eftir götunum, þar til tölvan öðlast meðvitund og étur mig.

Vandamál sem ég hef rekist á er hvernig ég ætti að keyra forritið. Besta lausnin sem mín auma forritunarhæfni býður upp á er að hafa tímakeppni, þar sem for lykkja keyrir einhver hundruð eða þúsund skrefa og í hverju skrefi er ákveðið hvar skuli senda taugaboð, sem ræðst af virkjunarorku og virkjandi boðum sem berast hverri frumu. Ég myndi þá smíða fylki sem telur saman boðspennu sem berst hverri frumu, og í næstu umferð myndu þær frumur hverrar boðspennur eru yfir virkjunarspennu skjóta boðum út á ný eftir öllum “símum” sínum. (Í stað þess að hafa þetta fylki mætti auðvitað bæta þessari tölu inn í fyrsta hólf annarrar víddar fyrrnefnds fylkis.)

Mér þætti gaman að heyra hvort einhver hafi hugmyndir að betri uppsetningu á forritinu, áður en ég byrja á því, eða á taugafræðilegu hlið málsins.