Var að lesa, mér til dundurs, nokkrar vísindalegar greinar um LifeWave vörurnar sem má finna á vefsíðu fyrirtækisins eftir að ég las grein í Fréttablaðinu frá Hr. Schmidt.

http://www.lifewave.com/research.asp

Fyrsta greinin fjallar um hvernig þessi nanótækni eykur jafnvægi í sjálfvirka hluta taugakerfisins. Til þess að kanna þetta var breyting á hjartsláttartíðni mæld, samkvæmt þessari könnun er minni breyting á hjartsláttatíðni eftir notkun þessa orkuplástra frá LifeWave. Hvað í andskotanum þýðir það?

Hjartsláttartíðni er mæling á meðalfjölda slátta hjartans á mínútu. En á milli hvers hjartsláttar er í raun sekúndubrotsmunur og mæling á þeim mun nefnist breyting á hjartsláttartíðni (e. heart rate variation). Þessi smávægilegi tímamismunur á milli hjartslátta er ágætis vísbending um andlegt ástand viðkomandi, einstaklingi sem líður vel og hugsar jákvætt mælist með minni mun en sá sem er stressaður. Það er þess vegna mjög auðvelt að hafa áhrif á þessar mælingar.

Þessi rannsókn varpar engu ljósi á það hvers vegna það er æskilegt að þessi breyting á hjartsláttartíðni sé lítil. Þessar breytingar eru eðlilegar í heilbrigðum einstaklingi jafnvel þótt hann sé í hvíld, of litlar breytingar á hjartsláttartíðni geta verið vísbendingar um sjúkdómsástand (eða bara annarlegt ástand) alveg eins og of miklar breytingar. Í greininni er jafnvel talað um það að breytingar á hjartsláttartíðni eru meiri í einstaklingum sem stunda reglulega hreyfingu, hvers vegna er þá gott að þessar breytingar séu minni hjá þeim sem nota plástranna?

Í rannsókninni eru líka reifaðar hugmyndir um hvernig plástrarnir gætu haft jákvæð áhrif á orkusvið (sic) líkamans.

Kannski er ég hálfviti, en getur einhver útskýrt fyrir mér hvernig þetta sýnir fram á ágæti þessara plástra?