Góðan daginn kæru Hugarar.

Nýlega fór ég að skoða síðuna hugi.is meira en ég hef áður gert, með því hugarfari að gerast virkari notandi og jafnvel taka þátt í einhverjum af þeim fjölda umræða sem fara fram á hinum ýmsu áhugamálum.

Hér inni á Vísindi og fræði rakst ég á frekar áhugaverða umræðu á þessum korki, sem hefur svo spunnið af sér könnun sem er (þegar þetta er skrifað) enn í gangi.
Þessi umræða snýst um það hvort taka eigi inn Eðlisfræði sem undirflokk Vísindi og fræða og koma þá í hóp með dulspeki, geimvísindum, heimspeki og sagnfræði.
Í þessari umræðu má finna ýmis sjónarmið og skiptar skoðanir, sem ég ætla ekki að fara að telja upp hér (bendi á þráðinn Eðlisvísindi). Greinilegt er að Hugarar sem skrifað hafa á þráðinn eru með mismunandi skoðanir á því hvort taka eigi upp Eðlisfræði sem undirflokk.

Hins vegar fór ég aðeins að hugsa út í málin og persónulega fannst mér betra að horfa á undirflokka í þessu áhugamáli í víðara samhengi.
Vissulega er vel gerlegt að bæta Eðlisfræði við sem undirflokk og ekki líður á löngu þar til umræða skapast um að bæta öðru fagi við, og enn öðru og svo koll af kolli, þar til undirflokkalistinn verður orðinn lengri en hann þarf að vera.

Mín skoðun er sú að best væri að draga saman í hópa þau fög sem Hugarar gætu haft gaman af því að skrifa eða lesa um, í stað þess að hafa hvert og eitt sem undirflokk.
Þannig má flokka dulspeki, heimspeki og sagnfræði undir Hugvísindi; eðlisfræði og geimvísindi myndu sameinast undir Raunvísindi sem opnar möguleikann á að ræða fleiri greinar raunvísindanna (eins og stærðfræði, jarðfræði, líffræði o.s.frv.) á sama svæðinu.
Aðrir undirflokkar geta verið Félagsvísindi, Hagfræði, Læknavísindi og fleiri möguleika má vel skoða, þetta eru einungis mínar hugsanir.

Mín sýn er sú að með grófari flokkun á undirflokkum í áhugamálinu skapi víðari vettvang fyrir Hugara að senda inn og lesa vísindatengt efni, hvort sem er á háskólastigi eða grunnskólastigi (auðvitað er framhaldsskólastigið með).

Nú er spurning hvort þetta gæti verið lausn sem hentar bæði notendum og stjórnendum Huga og þætti mér vænt um að fá að heyra skoðanir Hugara á þessari tillögu minni.

Með vegsemd og virðingu til allra Hugara.
Kveðja,