Fátt er vandlegar misskilið í nútímaeðlisfræði en hlutverk athugandans, og er þó af nógu að taka. Allar eindir sem við vitum fyrir víst að heimurinn er samsettur úr hafa ekki fastákvarðaða eiginleika eins og staðsetningu, spuna, ferð og þess háttar, heldur líkindadreifingu á þeim. Svipað því hvernig við vitum ekki hve heitt sundlaugarvatnið er fyrr en við stingum tá ofan í það þarf að athuga, mæla, hvernig þessir eiginleikar eru nákvæmlega. En ólíkt sundlaugarvatninu eru eindirnar ekki með fyrirfram ákvarðaða tölu sem bíður eftir að vera mæld, heldur eru staðfestanlega með vissar líkur á vissum mæliniðurstöðum. Ekki einu sinni eindin sjálf veit hvernig hún er eða hvert hún fer. Til að finna það út er hún mæld með ýmsum aðferðum, og telst þá “athuguð”, líkindin eru horfin og hafa af fullri vissu fallið saman í ákveðin gildi. Eindin er alveg ábyggilega með spunatöluna -1/2, og stefnir til Sauðárkróks á ferðinni 532m/s. Þegar hún verður komin þangað verður enn á ný komin óvissa í þessa eiginleika hennar, en þá er bara hægt að mæla hana aftur og fella þannig saman líkindin í vissu enn á ný.

Þetta veltir upp spurningunni hve mikið þarf að gerast til að líkindin falli svona saman, og þar er fátt um haldbær svör. Stundum er hörfað til orðalags eins og að “nógu stórt” eða “klassískt” kerfi þurfi að koma til, eins og athugandinn væri bara eitthvað sem ekki er smíðað úr skammtafræðilegu líkindaskýi, og murki þau út þegar þau koma nálægt. Augljósa vandamálið við það er að ekkert slíkt er til. Hitamælar, ljósnemar, skermir og manneskjur eru öll gerð úr skammtafræðilegum eindum. Eina leiðin til að stækka kerfi er að bæta á það fleiri slíkum eindum, og augljóslega er ekki hægt að stækka það nægilega mikið til að það hætti að vera úr þeim.

Snemma í sögu skammtafræðinnar, meira að segja meðal upphafsmanna hennar, tóku yfirnáttúrulegar skýringar rótfestu í þessari hugmyndafræðilegu óvissu. Erwin Schrödinger var hrifinn af austrænni heimspeki og gaf meðvitund mikið vægi, ekki síst í athugandanum, sem gæti talist upphaf þeirrar flóru skammta-dulspeki sem er auðfundin í hinni útbreiddu nýaldarvímu nútímans. Þessi skoðun hefur nú til dags endað í nokkurs konar hringröksemd, þar sem gert er ráð fyrir einstæði meðvitundar sem athuganda, sem er um leið notað sem rökstuðningur fyrir merkileika hennar. Hugmyndin er að skammtafræðilega líkindadreifingin falli ekki saman í mælitækinu, heldur þegar meðvitund athugar mælitækið. Það er freistandi að nota þetta sem dæmi fyrir því hvernig jafnvel snjöllustu heilar bresta þegar þeir mæta illskýranlegum vandamálum, en það væri ósanngjarnt. Í staðinn er gagnlegra að velta upp annarri mögulegri túlkun á þessum torræða atburði, nefninlega að hann sé einfaldlega ekki til.

Ímyndum okkur að ástand stakrar rafeindar í hausnum á mér ráði því hvort ég fari á bíl eða gangandi í vinnuna, og að helmingslíkur séu á hvoru. Hvað myndi það þýða ef ekki á sér stað stök athugun á milli þess tímapunkts og þegar ég verð kominn í vinnuna? Myndi helmingur einda bílsins vera þar, helmingurinn ekki? Myndi hann tvístrast um götur (og skurði) alls landsins og leysast allur upp? Þá mætti gera ráð fyrir að allur heimurinn myndi fljótt splundrast í ósamheldinn hrærigraut, og það myndi auðvitað hafa gerst fyrir löngu. Þessi kenning lítur ekki sannfærandi út, fljótt á litið.

Kosturinn við athugun er að hver athugun gefur nýjan núllpunkt fyrir líkurnar til að dreifast út frá, athugun tekur reglulega í tauminn á líkindaskýjum og hnoðar þeim saman í vissa punkta, og bara mjög dreifðar eindir myndu losna langar stundir undan henni. Við yrðum sjaldan vitni að þeim hvort eð er, þar sem hver manneskja er risastórt kerfi sem athugar sjálft sig í sífellu.

En það gefur um leið hugmynd að því hvernig bjarga mætti athugunarleysi. Henni er best lýst með tilraun á borð við tveggja raufa tilraunina, þar sem endastaðsetning eindar sem hefur verið skotið úr byssu er numin með tvöföldum skermi. Skermurinn magnar upp árekstur eindarinnar sem skellur á hann með því að kasta rafeindum í hinn skerminn, sem kastar til baka enn frekari rafeindum, og svo koll af kolli, sem gefur á endanum mun sterkara ljósmerki en upphaflega eindin bar. Eindin hafði vissar líkur á að lenda á hinum ýmsu stöðum skermsins, og til einföldunar getum við gert ráð fyrir að þær séu eins fyrir alla staði hans. Þá hefðu allar rafeindirnar sem byrjuðu keðjuverkunina svipaðar líkur á að hefja hana, og rafeindirnar sem þær köstuðu af skjánum aftur svipaðar líkur á að halda áfram með keðjuverkunina, og svo framvegis. Ef athugun er ekki til er eina leiðin til að bjarga þeirri augljósu niðurstöðu að við sjáum einn depil birtast á tækinu, en ekki jafndreifðan bjarma af öllum skjánum, að hvert skref í keðjuverkuninni auki mismuninn á líkindunum á hverjum stað fyrir sig, sumsé að einn staður verði sífellt líklegri sem lokaniðurstaða. Þá mætti kalla staðsetninguna samleitna.

Þetta yrði að vera raunin í mörgum kerfum, ekki bara í merkjamögnun í hlöðnum skermum. Líkurnar á því að allar, eða að minnsta kosti langflestar, eindir bílsins míns endi annað hvort í vinnunni eða heima þurfa að hneigjast sterkt að einni niðurstöðu. Þessi samleitni yrði að vera ráðandi í öllum hlutum sem eru nógu stórir til að við getum séð þá, þar sem við verðum sjaldnast vör við skammtafræðilega hegðun í þeim - við sjáum stakan bíl sjaldnast tölfræðilega dreifðan um götuna, ekki heldur bækur í bókahillu, flugur á vegg eða rykkorn undir sófa. Líkindaskýsþróun hverrar eindar fyrir sig þyrfti að setja ský hinna í gegnum reglulega flöskuhálsa sem draga kerfið heildrænt að sameiginlegri niðurstöðu, hvort sem sú niðurstaða er staðsetning farartækja eða ljósblossa á skermi eða mæld spunatala á tölvuskjá.

Ég hef ekki almennilega farið í saumana á rannsóknum í þessum efnum, og ég á eflaust eftir að roðna og skammast mín þegar ég hef gert það. En maður kemst ekki að því hvort hugmyndir manns séu vitlausar nema með því að leggja þær fram fyrir gagnrýni, svo ég bíð spenntur.