Þessi grein er frekar ætluð sem hugvekja en sem einhver áreiðanleg heimild eða djúp pæling. Ég er sjálfur ekkert búinn að átta mig á tíma, frekar en nokkur annar, svo ég vonast til að heyra einhverjar hugmyndir um hvernig í fjáranum hann virkar.

Tíminn er hugtak sem er einfaldast þegar maður pælir sem minnst í því. Að átta sig á því er eins og að toga teppi undan sjálfum sér. Orð eins og “breyting”, “á undan” og “stundum” eru öll tímaháð, og það gerir skýringu á tíma frekar snúna, því yfirleitt stendur maður sig að því að grípa til orða sem sjálf byggja á tíma þegar maður kryfur hann til mergjar. Svo hvar má byrja? Eitt liggur ljóst fyrir; nútíminn. Núið er alveg ábyggilega til, það mætti segja að það sé hið eina sem er sannanlega til. Í þessu núi eru hlutir af öllum stærðum og gerðum, og hver þeirra ber merki eiginleika sinna, liti, áferð, þyngd og þvíumlíkt. En sumir hlutir hafa líka þann eiginleika að lýsa öðrum hlutum og eiginleikum. Skáldsögur lýsa atburðum sem koma fyrir ímyndað fólk í ímynduðum heimi, klukkur gefa til kynna staðsetningu okkar í einhvers konar hringrás: sólarhringnum. Ekki síst birtir heilinn okkur sína eigin heimsskipan. Í henni má meðal annars finna mjög sérstaka flokkun á atburðum. Það virðist sem atburðum sé flokkað í einhvers konar röð sem stafar út frá núinu og teygir sig jafn langt aftur og við munum eftir okkur. Heilinn virðist hafa raðað hverjum atburði eftir því hvort hann gerðist fyrir eða eftir eitthvað. Stundum eru nokkrir þannig kaflar ótengdir hvor öðrum, en innbyrðis eru þeir engu að síður með atburðaskipan, atburðarás. Það sem við skiljum sem tíma er heilinn að sópa upp núum, einu á eftir öðru, og draga línu í gegnum þau. Eina núið sem við höfum aðgang að er núið sjálft (þetta sem á sér stað núna), og við getum ekki verið viss um að neitt annað sé satt og rétt. Núna er annað nú komið til, og núið rétt áðan er liðið hjá og gæti allt eins aldrei hafa verið. Hausinn á þér gæti gefið þér til kynna að það hafi raunverulega átt sér stað, en það þarf ekkert að vera. Við gerum nú samt ráð fyrir því, okkur til hægðarauka.

Til að vita hvort eitthvað sé raunverulega til er oft þægilegt að mæla það. Ef það er mælanlegt, þá hlýtur það að vera til. Nokkurn veginn. Það er alla vega eitthvað sem er verið að mæla! Þess vegna smíðum við klukkur og lýsum því stolt yfir að böndum sé komið á tímann. En hvað eru klukkur? Hve einfaldar (og nákvæmar) er hægt að gera þær? Þegar við mælum hve hratt einhver syndir milli sundlaugabakka athugum við oft hve mörg tif sekúnduvísisins eiga sér stað á meðan sundkappinn fer á milli. Við berum saman tif sekúnduvísisins og “tif” sundkappans. Ein sundferð á þrjátíu sekúnduvísistif. Við hefðum getað notað hvaða tifandi hlut sem er: sólarupprásir, hjartslátt, vængjaslátt dúfu. En við notum nánast undantekningalaust klukkur, því við segjum að þær séu svo nákvæmar. En það er frekar undarlegt. Ef tímamælingar eru samanburðir, hvernig getur einhver samanburður verið réttastur?

Allt frá upphafi tímamælinga hefur núllstillingin miðast við sólarhringinn. Gagnsemi tímakerfis er venjulega háð því hve vel það samræmist gangi sólarinnar, enda er hann það tif sem líkami okkar miðast sjálfur helst við. Sólarhringurinn er bara svo fjári langur, og stundum fela ský sólina, svo tímamælingar komu til frekar snemma. Oft á tíðum byggðu þær á vatni sem lak úr áhaldi með mjóu opi, eða sandi í stundaglasi. Í báðum tilfellum er mikill fjöldi smárra einda að hegða sér saman eftir tölfræðilegum reglum sem á heildina litið skapa hegðun sem er í takt við stærra kerfið: sólarganginn. Með öðrum orðum, þótt við vitum ekki hvenær stakt sandkorn eða stök vatnsögn fellur niður um viðeigandi op, þá gerir fjöldi þeirra okkur það kleyft að meta meðaltímann sem það tekur ákveðinn fjölda þeirra að falla - sá tími, kvörðun klukkunnar, er framkvæmdur með tilliti til annarrar klukku. Sú klukka getur verið annað stundaglas, ganghraði kolkrabba í auðum sjó, hjartsláttur eða sólúr.

Nútíma klukkur byggja á enn smærri, enn hraðari tifgjöfum. Í flestum klukkum og úrum eru kvartskristallar sem verka eins og raffræðilegar tónkvíslar, sem dæla út rafsveiflum í stað hljóðbylgja. Þessar sveiflur eru numdar, og á 32.768undu hverri sveiflu er sekúnduvísirinn færður fram um eina sekúndu. Þar er líka verið að nota tölfræðilega eiginleika milljarða kísilkristalla á milljarða ofan, sem eiga það til að rafhlaðast þegar þeim er þjappað saman - og öfugt. Þegar víxlstraumi er hleypt á kristalinn bifar hann eftir takti sem ákvarðast af lögun hans, og er hann því snyrtilega skorinn svo hann bifi við einmitt 32.768 sveiflur á sekúndu - ákvarðað með hjálp annarrar klukku, að sjálfsögðu. Upphaflega var sekúndan skilgreind út frá sólarhringnum, en nú er miðað við sveiflutíðni sesíumfrumeindar, sem er gríðarlega há; meira en níu milljarðar tifa á sekúndu.

Skammtafræðileg áhrif á hin ýmsu kerfi segja að þau hegða sér ekki fullkomlega fyrirsjáanlega. Hreyfing og staðsetning eindar er ekki algerlega fyrirsjáanleg, heldur er takmörkum bundið hve nákvæmlega við getum mælt hana. Þessi höft endurspegla ekki gæði mælingatækjanna, heldur liggja í eðli veraldarinnar. Skekkja er innbyggð í frumeindir náttúrunnar. Þetta hefur í för með sér hegðun sem aðeins er hægt að spá í með tölfræði. Öll veröldin hegðar sér eftir tölfræði, en þegar stórir hópar þessara einda koma saman má lýsa heildinni allri heldur auðveldar. Afbrigði hverrar eindar, tölfræðileg jaðartilfelli, jafnast út, og heildin hegðar sér næstum fullkomlega fyrirsjáanlega. Þetta ber með sér nokkur líkindi við tímamælingar. Flest tímamælitæki eru jú gerð úr stórum hóp einda sem saman hegða sér eftir tölfræðilegum lögmálum, og úr þeim birtist reglubundin tímamæling. Jörðin og sólin eru ágætis dæmi, enda eru bæði risastór kerfi og hegða sér þar af leiðandi frekar taktfast. Mikið þarf að bjáta á svo árið lengist eða styttist.

En skammtafræði hefur einn áhugaverðan eiginleika. Þótt nákvæm staðsetning og hreyfing eindar séu óráðin, jafnvel fyrir henni sjálfri, þá þróast líkindin á því að hún sé á vissum stöðum eftir fastsettum reglum. Svokölluð líkindadreifing eða líkindaský hennar þróast án líkinda, fullkomlega fyrirsjáanlega. Höfum það hugfast, og lítum aðeins á fyrrnefnda sesíumeind. Þegar hún er hrist við skilgreininguna á sekúndu þá er það gert með rafsegulgeislun; ljóseindum. Þær hafa ákveðna tíðni og fastan hraða. Hraði ljóseindanna er óháður því hvar þú ert og hvert þú hreyfist. En bæði tíðni og hraði eru tímaháð hugtök! Við getum ekki brotið þau niður almennilega eins og við gátum brotið niður okkar eigin tímaskynjun, niður í tímaóháð . Vissulega eru hraði og tíðni hugtök af manni gerð, rétt eins og tíminn, en ég á bágt með að trúa að veröldin kæmist af án þeirra. Svo einhver tími virðist eiga sér stað, þótt þetta geri það engu auðveldara að henda reiður á honum. Þetta gæti vissulega bara verið til marks um skort á eigin ímyndunarafli, en það verður þá bara að hafa það. Ég get ekki boðið betur.